Category Archives: Skoðanir

Bæjarstjóri á Akureyri

Rætt er um á Akureyri að næsti bæjarstjóri þar verði  Eiríkur Björn Björgvinsson, sem nú er bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði. Eiríkur Björn hefur verið ágætlega vinsæll í starfi.

Sem kunnugt er fer L-listinn með stjórn bæjarins næstu fjögur árin, eftir að hafa náð hreinum meirihluta í kosningunum. Eitt af loforðum þess framboðs var að ráða bæjarstjóra, en ekki leita í eigin raðir eftir bæjarstjóra.

Bloggaði þetta 9. júní. 64 sóttu um. Treysti mínum heimildum og segi að Eiríkur Björn Björgvinsson verði ráðinn.

Látið þá sækja

Lánafyrirtækin töpuðu málinu. Einstaklingar hafa verið neyddir til að borga af lánum sem voru ólögmædd. Eignir hafa verið teknar af fólki. Með rangindum. Hvað sem hver segir er niðurstaða Hæstaréttar komin. Neyðarfundir skjaldborgarstjórnarinnar er um lánafyrirtækin. Nú liggur á.
Lánafyrirtækin gerðu mikið með óefnislegar eignir, sinna og þeirra sem fengu það sem þeir vildu. Þegar þurfti að sækja á óbretta borgara var annað uppi á teningnum. Þá var allt í lagi að valda óefnislegum skaða, sálarangist, andvöku, veikindum, upplausn heimila svo ekki sé talað um upptöku eigna, allt vegna ólögmætra lána.
Þeir einstaklingar sem eiga í hlut eru með sterkari stöðu en áður. Þeir eiga að láta fyrirtækin sækja á sig með dómsmálum. Nú virðist skjaldborgarstjórnin vera á tánum. Þar er ekki sama hver þjáist. Á meðan fundin er leið til að halda fólki í vondum málum er hlé á fantaskapnum.

Pétur, hættu bara

„Mér er skapi næst að hætta bara. Þá skulu menn reyna að fá almennilegt fólk inn á þing þar sem ekki er borgað fyrir menntun eða reynslu. Ég fæ ekkert borgað fyrir menntunina mína, átta ára háskólanám, og er búinn að borga átta milljónir [í fimm prófkjörum] fyrir að fá þessa vinnu. Þetta er galið,“ segir Pétur Blöndal í samtali við Fréttablaðið í morgun þegar hann svaraði fyrir að hafa ekki gert grein fyrir styrk sem hann fékk. Segir einn mann hafa styrkt sig og að hann hafi ekki haft tíma til hringja í manninn og spyrja hvort það væri honum að meinalausu að Pétur upplýsti um styrkinn.
Þjóðin og þingið komast af þó Pétur hætti. Hann var í stjórnarflokki allan versta tímann í efnahagssögu þjóðarinnar. Komumst innst í öngstrætið með Pétri.  Get ekki ímyndað mér að það verði óyfirstíganlegt þó hann hverfi til annarra starfa.
Pétur stundar núna að tala um þá sem tóku gengislán að þeir hafi allir keypt jeppa. Þröngsýnn kall.

Að verða fyrir áfalli

Sýna ber þeim skilning sem nú horfa á allt sem þeir hafa lifað fyrir, hafa helgað allt sitt starf, verða að engu. Og með ótrúlegum afleiðingum.
Beinagrind samfélagsins hrundi. Það tók nokkra menn nokkur ár að móta samfélagið eftir sínu höfði, að sínum vilja og eftir þeim kenningum sem þeir treystu á. Höfðu kynnt sér vel og voru sannfærðir um ágæti þannig samfélags. Það hlýtur að vera sérlega sárt að horfa á hugsjónir sínar og trú reynast hið versta óráð.
Sömu menn, oftast nær, réðu miklu um hvernig flokkarnir starfa. Hver staða hvers eins er. Hvernig ber að virða og elta formann, hvenær skal tala og hvenær skal þegja. Flokkarnir höfðu nokkuð skýra verkáætlun og gátu vissulega lagt á ráðin, skipað sína menn á fínustu staði og það allt saman.
Nú horfa þessir sömu menn, og sáu hugsjónir sínar verða að þjóðarböli, á flokkanna kveljast undan vilja almennings. Fólkið er að hafna flokkunum alveg eins og raunveruleikinn hafnaði ákvörðunum þessara manna og ásetningi.
Vegna þessara miklu áfalla ber að sýna þessum mönnum skilning og gera of mikið með orð þeirra og athafnir, sem blessunarlega hafa lítið eða ekkert vægi.

Framsókn í ríkisstjórnina

Siv Friðleifsdóttir lýsti vilja til að Framsókn bætist við ríkisstjórnina. Með skilyrðum. Þetta kom fram á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Hún sagðist reiðubúin til hjálpa ríkisstjórninni við að koma áfram breytingum á stjórnarráðinu, þrátt fyrir andstöðu innan vinstri grænna.
Ljóst er að ríkisstjórnarflokkarnir munu skoða þann möguleika á að fá Framsókn með í formlegt samstarf. Til þessa hefur ríkisstjórnin nánast þurft að díla um öll helstu mál meðal eigin þingmanna.
Það mun eitthvað gerast, á allra næstu dögum.

Mikið högg

Formælandi peningaleigufyrirtækis segir dóm Hæstaréttar vera mikið högg. Sennilega er svo. En það er víst að það er ekki fyrsta höggið. Það hafa margir mátt þola högg vegna þessa, og eflaust hlutfallslega harðara og þyngra en það högg sem hinir brotlegu fá núna.
Ég þekki til fjölskyldu sem gat ekki lengur haldið bílnum. Hann var tekinn á afar lágu verði og eftir stóð milljóna skuld við peningaleigufyrirtækið. Eftir að hafa jafnað sig athugaði fólkið málið betur. Í ljós kom að peningaleigufyrirtækið seldi bílinn á langtum hærra verð en sagði í uppgjörinu, fjölskyldan varð að auki að borga fyrir viðgerð, og á hana var lagður virðisaukaskattur. Eftir einfalda leit fannst sá sem hafði keypt bílinn. Viðgerð? Nei, alls ekki. Kaupandinn hafði sjálfur látið gera við það sem peningaleigufyrirtækið hafði rukkað fyrrverandi eiganda fyrir með virðisaukaskatti og öllu klabbinu.
Þetta var þungt högg. Og ætli fari svo að þetta fólk geti ekki sótt rétt sinn þar sem peningaleigufyrirtækið verði farið, flúið eða dáið.
Steingrímur segir að ræða þurfi dóminn og afleiðingar hans í ríkisstjórn. Fari það hábölvað ef á að sýna gerendum glæpsins skilning en ekki þolendunum hans.

Innmúraðir og innvígðir

Innmúraðir og innvígðir tjá sig nafnlaust á eigin vef. Þar segir núna: „Smáfuglarnir telja að Hanna Birna hafi misstigið sig alvarlega með þátttöku í vitleysisgangi vinstrimanna í Reykjavík.“ Þessi setning sýnir í hugarheim innmúraðra og innvígðra.
Svo eru aðrir, sem eru innmúruðum og innvígðum ekki þóknanlegir, sem eru þeirrar skoðunar að Hanna Birna hafi umfram innmúraðra og innvígðra að skilið að kjósendur kölluðu eftir breytingum. Hefðbundnum stjórnmálaflokkum og hefðbundnum stjórnmálamönnum var hafnað. Það var ákall um breytingar. Hanna Birna áttar sig á því en innmúraðir og innvígðir ekki.

Í fótspor Jóns Gnarr

Svo ber við á þjóðarhátíðardaginn forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hefur tekið upp hætti Jóns Gnarr og freistar þess nú að ná til þjóðarinnar með fyndni. En satt best að segja tekst honum ekkert sérstaklega vel upp. En hann fær allavega einn fyrir viðleitni. Hér bein tilvitnun í tilraun forsetans til fyndni, en þetta má lesa betur í Mogga dagsins:
„…tel ég tvímælalaust að staða Íslands hafi styrkst á afgerandi hátt og þar eigi þjóðaratkvæðagreiðslan kannski mestan hlut.“
Þetta er ágæt tilraun til fyndni. En nær ekki hátt á skala Besta flokksins. Veit ekki hvers vegna mér kom til hugar eftirfarandi: „Hátt hreykir heimskur sér.“ En auðvitað á það ekki við. Ekki um forsetann. Hann er ekki heimskur.

Met á met ofan

Miðað við þessi orð vinar míns Jóns Magnússonar, er ljóst að óhæfir stjórnendur halda áfram að koma okkur illa:
„Hagstjórnartríó ríkisstjórnarinnar, Jóhanna, Steingrímur og Gylfi viðskipta, eru greinilega verst til hagstjórnar fallin af stjórnendum Evrópu. Þetta hagstjórnartríó setur hvert Evrópumetið á eftir öðru í vondri hagstjórn.“
Þeir sem fóru með hagstjórnina áður hafa fengið eftirmæli sem eru ekki mýkri en Jón gefur núverandi. Og miðaða við það allt, er rétt að spyrja, ætlar þessu aldrei að linna?

Fyrst náið samráð

Þegar ég heyri að stjórnarandstaðan segir að ekki verði unnt að breyta ráðuneytum nema eftir náið samráð allra flokka, hljómar það sem ekkert sé hægt að gera nema flokkarnir fái fyrst að tryggja stöðu sína, og sinna. Þegar flokkarnir hafa síðan fengið það sem þeir geta sæst á, þá er hægt að breyta og spara. En fyrst verður að tryggja að flokkarnir fái sitt eða haldi nægilega miklu.
Enginn talar þó skýrar en Jón Bjarnason.