Monthly Archives: maí 2010

Fjórðungur sagði nei takk

Hald manna á Akureyri er að um fjórðungur þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn hafi strikað yfir nafn fyrrum oddvita listans, Sigrún Bjarkar Jakobsdóttur, í kosningunum.
Svo er merkilegt að fylgjast með umræðunni um að hún geti ekki sagt sig frá bæjarstjórninni. Fimm sögðu sig úr borgarstjórn á þessu kjörtímabili. Steinunn Valdís og Stefán Jón í Samfylkingunni, Árni Þór og Svandís í Vinstri grænum og Björn Ingi í Framsókn. Aldrei var rætt  um að mættu ekki fara.
Á Vísi má lesa þetta: „Viðmiðið er að það þurfa að vera einhver lögmæt forföll til þess að þú getir vikið úr sveitastjórn hvort sem það er tímabundið eða til loka kjörtímabils,“ segir Trausti Fannar Valsson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands. Hann segir að sveitastjórnarlögin geri ekki ráð fyrir að menn víki sæti af pólitískum ástæðum, líkt og rætt hefur um t.d. í tilfelli Sigrúnar Bjarkar.

Klofningur

Ekki kæmi á óvart þó undangengnar vikur og kosningaúrslitin kljúfi Vinstri græna. Þetta er enginn gangur hjá flokknum. Heyrir til undantekninga ef flokkurinn er sammála. Ásakanir vegna kosninganna ganga á milli manna. Það virðist margt reka fleyg í samstöðuna, hafi hún þá einhvern tíma verið nokkur. Steingrímur er ekki öfundsverður að berjast á tveimur vígstöðvum samtímis. Í ráðuneytinu og innan flokksins.
Þingflokkurinn er skipaður fólki með mjög ólíkar skoðanir á mörgum veigamiklum málum. Það getur ekki annað en kallað fram uppgjör.
Engum dylst að óeiningin innan þingflokksins hafði áhrif í byggðakosningunum. Steingrímur tók undir það á Sprengisandi í gær. Trúlega berast fleiri fréttir úr herbúðum VG á næstu dögum. Sennilega ekki jákvæðar fyrir flokkinn.

Sótt að Sigmundi

Guðmundur Steingrímsson er ósáttur með framgöngu formanns Framsóknarflokksins og þar sem hann setur svo harkalega út á vinnubrögð formannsins er ekki annað hægt en gera ráð fyrir átökum innan Framsóknarflokksins.
Það kom fram hjá Sigmundi, á Sprengisandi í morgun, að flokkur fékk færri atkvæði í Reykjavík en sem nemur flokksbundnum í Reykjavík.
Framsóknarmenn biðja um kastljósið. Og fá það.

Stressaðri á leigubílnum

Jón Gnarr sagði, á Sprengisandi í morgun, að hann hafi verið stressaðri þegar hann mætti á fyrstu vaktina sem leigubílstjóri á Bæjarleiðum en hann er nú, eftir kosningasigurinn. Þegar hann gerðist leigubílstjóri vissi hann ekki einu sinni hvar Leifsgata var. Hann skýrði einnig kosningaloforð einsog allskonar fyrir aumingja.
Þátturinn er á heimasíðu Bylgjunnar.

Stykkishólmur

Egill bróðir náði kjöri sem fjórði maður L-listans í Stykkishólmi, sem varð til þess að Sjálfstæðisflokkurinn missti meirihluta sem flokkurinn hefur haft frá 1974. Það munaði aðeins sex atkvæðum, en það dugar til að það verða breytingar í bæjarstjórninni í Hólminum.
Sjálfstæðisflokkurinn hélt meirihluta í Snæfellsbæ en missti meirihlutann í Grundarfirði.

Breytingarnar

Það var hjákátlegt að horfa á sjálfstæðisfólk fagna Hönnu Birnu þegar hann gekk inn á samkomu þess. Verri útreið hefur flokkurinn aldrei mátt þola í Reykjavík. Þeirri staðreynd var fagnað vel og lengi. Klappað og stappað. Lítt minni var gleði Samfylkingarfólks þegar Dagur mætti á þeirra samkomu. Fögnuðinum ætlaði aldrei að ljúka.
Bágt er að trúa að fögnuðurinn hafi komið frá hjartanu. Fjórflokkakerfið er dautt, sagði Jóhanna. Bjarni sagði alls ekki. Hann getur bent á marga staði á landinu þar sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur sterkur.

Og, það geta allir fagnað sigri, sem finna sér slök viðmið.

Kannski er það Framsókn sem fer verst út úr þessum kosningum. Væntingar þeirra um upprisu flokksins eftir forystuskiptin ætla ekki að ganga eftir.

Meira á Sprengisandi á eftir, þegar forysta flokkanna mætir, Oddur Helgi, sem sennilega er mesti sigurvegari gærdagsins, verður í símanum og fleiri viðtöl verða. Stjórnmálafræðingar skoða stöðuna.

Hefur Pálmi rétt fyrir sér?

„Það kann að vera að ég sé réttlaus maður að mati Svavars Halldórssonar og fréttastofu Ríkisútvarpsins, þar sem ég tók og tek enn þátt í íslensku atvinnulífi. Svavar og fréttastofa Ríkisútvarpsins séu því í fullum rétti til að bera á borð fyrir alþjóð  í fréttatíma ríkisfjölmiðilsins hvaða aðdróttanir sem er um mig.“
Þetta segir Pálmi Haraldsson. Ef hann hefur rétt fyrir sér er vandi RÚV fjandi mikill. Báðust afsökunar um daginn fyrir að hafa dregið saklausa inn í fréttina. Nú ríður á að botn fáist í málið. Trúverðugleiki er undir, Svavars og RÚV eða Pálma.

Þrír milljarðar

Ef frétt RÚV er rétt, um að þrír menn hafi náð til sín þremur milljörðum ólöglega, hvers vegna er ekkert gert? Þar sem ekki hafa borist fréttir af handtökum, yfirheyrslum og öðru þannig er þægilegast að trúa að fréttin sé röng. Að ekki sé verið að mismuna fólki. Og ef verið er að mismuna fólki, eftir hverju er farið? Hæð, þyngd, fyrri störfum, öðrum vafasömum málum, eða hvað?

100.000

Hef fengið fleiri en eitt hundrað þúsund heimsóknir á bloggið mitt í maí. Nýtt met. Flestir komu 12. maí, eða rétt tæplega 10.000.
Verið í fjórða sæti síðustu vikur, á eftir Agli og Jónasi og ritstjórn DV.

Dagblöðin verða málgögn

Stjórnendur beggja dagblaðanna hafa í lok kosningabaráttunnar ákveðið að gerast málgögn Sjálfstæðisflokksins. Þar er svo sem ágætt. En væri betra ef þau segðu frá því. Vöruðu kjósendur við. Svo er ekki.
Það er hægt að týna til dæmi. Læt duga að bæði dagblöðin hafa gert að fyrirsögnum að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bætt við sig. Þegar við blasir að flokkurinn er að tapa að lágmarki tveimur mönnum og framundan er sennilega lakasta kosning Sjálfstæðisflokksins til þessa.
Það er stóra fréttin, en ekki villandi framsetning, um að Sjálfstæðisflokkurinn hafi aðeins hressts milli tveggja kannanna. Og það er svo fjarri raunveruleikanum að Sjálfstæðisflokkur hafi unnið mann af Besta flokknum. Þetta er fyrsta framboð þess flokks og þess vegna getur hann ekki misst mann. Hann á engan, ekki fyrr en í kvöld.
Svo vantar fréttir um hvernig fylgi gömlu flokkanna hefur breyst frá síðustu könnunum og þar til úrslit liggja fyrir. Man þetta nú ekki, en minnir að það sé Sjálfstæðisflokknum óhagstætt.
Forsíðumynd Moggans í dag, segir meira en þúsund orð.