Monthly Archives: apríl 2009

Blundað á brunastað

johanna-sigurc3b0ardottirMerkilegt að heyra endurekið aftur og aftur að VG og Samfylking taki sér þann tíma sem þarf, við að reyna að mynda ríkisstjórn, og heyra talað einsog ekkert liggi á. Það er sem slökkviliðið hafi blundað á brunastað. Meðan brennur eigið fé almennings, fyrirtækja og félaga. Samt láta Jóhanna, Steingrímur og Ólafur Ragnar sem ekkert liggi á. Þjóðin kallar eftir aðgerðum, eftir stefnu, eftir ráðum en ekki eftir værukærð og aðgerðarleysi.

Svo segir víst í DV Jóhannes í Bónus hafi áhyggjur af syni sínum sem mun hafa tapað peningum. Jóhannes deilir greinilega tilfinningum með þorra þjóðarinnar. Við höfum flest áhyggjur, ef ekki af okkur sjálfum, þá af ástvinum og öllum hinum. Á okkur skall efnahagslegt fárviðri, af mannavöldum.

Gjaldeyrishöftin og vextirnir

peningar1Það er ekki rétt að lækka stýrivextina mikið meðan við erum með gjaldeyrishöft. Þetta sagði Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, þegar hann var gestur á Sprengisandi. „Það þarf að horfa til þess tíma þegar við afnemum höftin. Það er ekki rétt að lækka vextina niður úr öllu valdi til þess að hækka þá aftur þegar höftin verða afnumin,“ sagði Arnór.

Þannig virðist hvað elta annað. Gjaldeyrishöftin halda ekki eins og til stóð, þau koma í veg fyrir að unnt sé að lækka stýrivextina af krafti.Og þetta á að halda gengi krónunnar, en gerir það ekki.

Jón Daníelsson segir ekki víst að króna falli ef gjaldeyrishöftin verða afnumin. Hún allt eins styrkst. „Það verður að horfa til þess að ekkert hundrað prósent og gjaldeyrishöftin halda aldrei alfarið,“ sagði Arnór.

Skot í fótinn

Útgerðarmenn fóru mikinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins og höfðu sitt í gegn.

Flokkurinn er á móti Evrópuaðild og styður og ver kvótakerfið. Meðal sjálfstæðismanna er sagt að þetta sé að koma í fangið á útgerðinni.

Sjálfstæðisflokkurinn beið afhroð og ef fer sem horfir verður hvorutveggja; sótt um aðild og kvótakerfinu verður breytt.

Því er sagt að útgerðin hafi skotið sig í fótinn.

Afleikir Vinstri grænna

Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon formaður Vinstri grænna léku af sér í lok kosningabaráttunnar. Þetta er samdóma álit þeirra sem rætt er við og innan þeirra eigin flokks gætir leiðinda vegna orða þeirra.

Þegar Kolbrún sagðist á móti olíuleit á Drekasvæðinu gusu aftur upp efasemdir um ágæti flokksins. Sem hefur barist gegn þeirri fullyrðingu að einkenni VG sé að vera á móti, vera alltaf á móti.

sitelogoÞegar Steingrímur sagði í kappræðum flokksformannanna á föstudagskvöld að hann fengi flokksráðið aldrei til að samþykkja Evrópuaðild, brá mörgum. Það var tvennt sem hjó meira en annað. Afturkippur hans í Evrópumálum og svo orðalagið, flokksráðið. Ráðið, þykir ekki fínt orð og það orðalag hafði talsverð áhrif. Það er ekki svo að það séu einungis þeirra sem standa utan flokksins sem eru á því að ráðherrarnir Kolbrún og Steingrímur hafi skaðað flokkinn og dregið úr fylginu. Innan þeirra eigin raða gætir óánægju með framgöngu þeirra.

Vangaveltur eru uppi um að Kolbrún hafi fælt það marga frá sem hafi orðið til þess að hún náði ekki kjöri, en Kolbrún hefur verið á þingi frá stofnun flokksins fyrir tíu árum. Meðalfylgi flokksins í síðustu skoðanakönnunum var fjórum prósentustigum hærra en kjörfylgið, eða 25,75% en VG fékk 21,70% í kosningunum.

Uppgjör

Fyrsti gestur Sprengisands verður Ögmundur Jónasson. Síðan verða þrír gestir sem fara yfir úrslitin; Helga Vala Helgadóttir, Gunnar Smári Egilsson og Sveinn Andri Sveinsson. Hringt verður í fjölda stjórnmálamanna og sérfræðinga.

Rykið verður sest klukkan hálf ellefu í fyrramálið og fróðlegt verður að fara yfir úrslitin og hvaða möguleikar verða í stöðunni.

Slökkti vonarljósið

383-220Forysta Vinstri grænna er komin á flótta frá fylginu, ef marka má orð Kolbrúnar Halldórsdóttur umhverfisráðherra. Hún uppástendur að flokkurinn sé á móti olíuleit á Drekasvæðinu. Þessi yfirlýsing getur ekki annað en skaðað flokkinn.
Vissulega er það svo að ekki er auðvelt að trúa að við séum að fara að pumpa upp milljörðum á Drekasvæðinu. Það er eitt, en annað er að vera á móti olíuleitinni. Yfirlýsing ráðherrans getur ekki annað en skaða flokkinn, dregið úr fylgisaukningunni og jafnvel ýtt kjósendum frá.
Fróðlegt verður að sjá næstu skoðanakannanir og hver áhrif orða Kolbrúnar eru. Við eigum ekki mörg vonarljós, en Vinstri grænir hafa nú gert sitt til að slökkva  á einu þeirra.

Milljónin

alc3beingi3Fyrrum áhöfn á Mannlífi gafst ekki tími til að ganga frá grein um greiðslur öflugra fyrirtækja til stjórnmálamanna. Til er hljóðritun, þar sem nú fyrrverandi alþingismaður, segir að forstjóri nafngreinds fyrirtækis hafi boðist til að greiða eina milljón í prófkjörsbaráttu þingmannsins. Á móti sagði forstjórinn að sér þætti betra ef þingmaðurinn breytti málatilbúnaði sínum, í máli sem var fyrirtæki forstjórans mikils virði, en þingmaðurinn hafði talað og skrifað gegn hagsmunum fyrirtækisins.

Þetta er til hljóðritað. Fleiri dæmi hafa flogið milli manna. Það verur kosið á laugardaginn. Það verður ekki fyrr en eftir kosningar sem upplýsist um styrki fyrirtækja og samtaka til stjórnmálamanna.

Geiri á Goldfinger í framboði

Fæ ekki betur séð en Geiri á Goldfinger, Ásgeir Þór Davíðsson, sé í framboði til Alþingis. Skipar þriðja sæti á lista Ástþórs Magnússonar, P-listanum, í Kraganum.

Skítakamarsveggi

Kamarinn við Ingólfstorg er þakin auglýsingum frá Sjálfstæðisflokki og Framsókn. Man ekki orðrétt vísu sem ég sá skrifaða á vegg á Núllinu hér áður fyrr, en hún kom í hugann þegar ég sá kamarinn með auglýsingunum. Vísan var eitthvað á þessa leið:
Það á að hengja þrjóta þá
dóna og saurlífsseggi
sem að skrifa skammir á
skítakamarsveggi.

Plat í Krónunni

kjotFór í Krónuna. Þar voru lærisneiðar á tilboði. Á pakkningunum stóð að það væri 10 prósenta afsláttur, en á stóru spjaldi fyrir ofan, stóð að veittur væri 25 prósenta afsláttur við kassa. Fínn díll og mig langaði í lærisneiðar í raspi og Ora. Við kassann var aðeins veittur 10 prósenta afsláttur. Varð að hafa fyrir því að fá allan afsláttinn. Tilraun til að plata. Tókst ekki, kannski aðrir hafi fallið í gildruna.

Í Dýraríkinu munaði um 1.500 krónum um daginn hvað það sem ég keypti kostaði meira á kassanum en hilluverðið sagði til um. Varð að biðja um leiðréttingu. Kannski gera það ekki allir. Dýraríkið er dýraríkið.