Monthly Archives: mars 2010

Jóhann hættir á DV

Jóhann Hauksson, blaðamaður ársins, upplýsti á Sprengisandi á morgun að hann hafi ákveðið að hætta á DV. Eins að freistaði þess að kaupa blaðið. Og Jóhann verður ekki á starfmannafundi í dag, þar sem upplýst verður hverjir hafa keypt DV ásamt Reyni Traustasyni ritstjóra. „Ég verð í fermingarveislu hjá frænda mínum,“ sagði Jóhann.

Kostnaður vegna Davíðs

Þetta sagði í frétt Stöðvar 2: „Níu starfsmenn hjá utanríkisráðuneytinu starfa þar með sendiherratitil og þiggja laun samkvæmt því. Tveir þeirra hafa aldrei starfað á erlendum vettvangi. Laun þeirra kosta íslenska ríkið tæpar sjötíu og fjórar milljónir króna á ári.
Davíð var utanríkisráðherra í ellefu mánuði og skipaði á þeim tíma tólf sendiherra. Árangurinn sést í frétt Stöðvar 2. Þetta eru 740 milljónir á tíu árum.

Jón Daníelsson, Bjarni Ben og Ögmundur

Jón Daníelsson hagfræðingur, Bjarni Benediktsson og Ögmundur Jónasson verða meðal gesta á Sprengisandi í fyrramálið.
Það verður líka fjallað um ferðamál og svo verður skemmtileg og umfjöllun um vandræðalega víkinga.
Stjórnmál, efnahagsmál, atvinnumál, gagnrýni, skemmtun og fróðleikur.

Skoðanakönnunin

Skoðanakönnun Fréttablaðsins er í raun mjög lík könnuninni sem Plúsinn gerði fyrir Sprengisand fyrir fjórum vikum. Fréttablaðskönnunin segir Sjálfstæðisflokkinn fá 27 þingmenn en Sprengisandskönnunin sagði Sjálfstæðisflokkinn fá 26 þingmenn.
Fréttablaðskönnunin segir Samfylkinguna fá fimmtán þingmenn og Sprengisandskönnunin sagði Samfylkinguna fá fjórtán þingmenn og Fréttablaðskönnunin sagði VG fá þrettán þingmenn en Sprengisandskönnunin sagði VG fá tólf þingmenn. Hvað þessa þrjá flokka varðar munar í öllum tilfellum einum þingmanni milli Fréttablaðsins og Sprengisands.
Meiri er munurinn er hvað varðar Framsóknarflokk, en Fréttablaðskönnunin segir Framsókn fá átta þingmenn en Sprengisandskönnunin segir Framsókn fá ellefu þingmenn.
Sem fyrr segir var það Plúsinn sem vann könnunina fyrir Sprengisand.

5.000 krónur lítrinn

Keypti mér súpu dagsins á Kaffi París í hádeginu. Af aulaskap spurði ég ekki um verð. En eftir að ég settist og bað um súpuna, var vinsamlegast bent á að ég yrði að afgreiða mig sjálfur.
Súpan var eins hlutlaus og hugsast getur, einhverskonar þunn tómatsúpa með lauk. Dæmigerð bátasúpa. Skálin sem mér var gert að ausa súpunni í var svo lítil að ég efast um að hún taki fimmtung úr lítra.
Ekkert sérstök súpa kostar samkvæmt þessu 5.000 krónur lítrinn. Og vel að merkja, þjónustuna annaðist ég sjálfur svo ekki er þjónustugjald í okurverðinu.

Geðlæknir leiðréttir sig

Í beinni útsendingu er stundum farið hratt yfir og skautað á stóru.

Í Silfrinu í dag vitnaði undirritaður í skýrslu þeirra Daniels Svavarssonar og Péturs Arnars Sigurðsonar (http://www.sedlabanki.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=5251). Sýnt var súlurit úr þeirri hagskýrslu.  Skýrslan kom út u.þ.b. ári fyrir Hrun.  Undirrituðum gékk mjög erfiðlega að fá birt efni úr þessari skýrslu í fjölmiðlum á sínum tíma.  Reynt var að fá birt efni úr skýrslunni á eftirfarandi stöðum:  Margsinnis í Morgunblaðinu og “Blaðinu”; á Stöð tvö, fréttastofu RÚV og víðar.  Þegar liðnið var tæpt ár án þess að tekist hefði að koma efninu á framfæri var undirrituðum bent á að til væri eitt tímarit í landinu sem ekki væri undir stjórn eigenda bankanna, var það Mannlíf.  Undirritaður hafði samband við ritstjóra Mannlífs, Sigurjón M. Egilsson; hann brást strax hart við og nýtti efni skýrslunnar í mjög góða umfjöllun þar sem málin voru meðal annars sett í samhengi við kreppuna í Finnlandi og bankahrunið í Svíþjóð á níunda áratugnum.  Undirstrika hin mismunandi viðbrögð það hvílík ógnartök fyrrverandi eigendur bankanna höfðu (og hafa) á upplýsingamiðlun til almennings, og mikilvægi þess að peningamenn ráði ekki öllum fjölmiðlum.  Sigurjón M. Egilsson er beðinn velvirðingar á því að þetta náði ekki að koma fram í viðtalinu.

Andrés Magnússon.

Rangindi geðlæknis

Það var barasta ekki rétt sem Andrés Magnússon geðlæknir sagði í Silfri Egils að enginn fjölmiðill hefði fjallað um þá ótrúlegu þróun sem varð hér í efnahagsmálum. Allt það sem hann sýndi og talaði um að hafi hvergi birst, var í Mannlífi í september 2008, og það veit Andrés. Ég skil ekki hvers vegna hann kýs að fara á svig við eigin vitneskju. Við töluðum saman í síma í ágúst 2008 og í framhaldi af því lagðist ég í lestur gagna sem Andrés benti mér á. Úr varð löng fréttaskýring sem birtist í september 2008.
Svo vill til að í fyrrakvöld var ég að hlusta og horfa á upptökur fyrirlestra á vef Háskóla Íslands. Þar er einn eftir Engilbert Sigurðsson geðlækni, félaga Andrésar, og þar segir Engilbert að Andrés hafi hvergi komið vitneskju sinni á framfæri fyrr en tímaritið Mannlíf birti fréttaskýringu um þetta efni. Fyrirlesturinn nefndi Engilbert Mannlíf í kreppu.


Geri mér grein fyrir að ég er að væla. En þannig er að mér var brugðið við að hlusta á
Andrés fullyrða gegn betri vitund og að auki þykir mér vænt um skrif mín um efnahagsmál á árinu 2008. Vegna þeirra fékk viðurkenningu sem rannsóknarblaðamaður þess árs.

Úttektin var ekki valin til að vera aðalforsíðumál. Var sennilega röng ákvörðun.

Brimborg og borgin

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Brimborg og Reykjavíkurborg deila vegna lóðar í borginni. Nú vill Brimborg skila lóð en þegar ég var pólitískur skríbent á DV, sennilega öðru hvoru megin við 1990, Sjálfstæðisflokkurinn var einn í meirihluta, var mikil deila milli Brimborgar og Reykjavíkurborgar.
Þá snéri deilan á hinn veginn. Borgin tók þá fínustu lóð af Brimborg, en fyrirtækið hafði fengið lóð þar sem McDonaldshúsið er við Suðurlandsbraut. Þegar McDonalds kom til og vildi lóðina var hún tekin af Brimborg og þeim fengin lóðin þar sem höfuðstöðvar fyrirtækisins eru nú.
Mikill hiti var í deilunni og þáverandi forsvarsmenn Brimborgar sáust oftar en einu sinni á pöllum ráðhússins þegar borgarstjórn fundaði. Þeim þótti þetta hið grunsamlegasta mál, sem það var, en aldrei var rannsakað hvers vegna forráðamenn Reykjavíkur sviptu eitt fyrirtæki lóð til að afhenda hana öðru.

Ofmetin staða

Held að margir Íslendingar hafi ofmetið stöðu okkar. Þó einstaka erlendir fjölmiðlar hafi skrifað jákvætt um okkur, dag og dag, skiptir það í raun sáralitlu eða engu máli. Fjölmiðlar hafi ekki völd, þeir geta haft áhrif, en í sumum málum aðeins tímabundin. Svo er sennilega um Icesavemálið.
Betra umtal eða jafnvel stuðningur við okkur er minni nú en fyrir fáum dögum og dægurmálaskríbentar hafa barasta fengið áhuga á öðru en okkur. Hættan er sú að með endalausum frestum fái allir nóg af okkur, líti á okkur sem óþolandi þrasara sem enginn nennir að eiga samskipti við.
Finnst sem hver dagur sem líður án samninga geri stöðu okkar verri.

Hannes er hálft Icesave

Ekki mun vera fjarri að Icesave kosti okkur um 150.000.000.000, eða hundrað og fimmtíu þúsund milljónir. Þetta er svakaleg fjárhæð. En samt ekki eins svimandi og oft hefur verið talað um. Hef svo sem ekki gert neitt til að fá þetta staðfest, en heimildin mín er fín. (Kannski hefur þetta komið fram án þess að ég hafi veitt því athygli).
En svo berast fréttir að skuldir Hannesar Smárasonar við Landsbankann einan, séu 80.000.000.000, eða áttatíu þúsund milljónir króna. Vandræði hans eru samkvæmt þessu, barasta við Landsbankann, helmingur af Icesavedrullunni.
Hvað er hægt að gera? Ef Hannes á peninga eftir verður að ná í þá. Allir kröfuhafar Landsbankans, innlendir sem erlendir, eiga heimtingu á því og reyndar eiga allir siðferðislegan rétt til þess.
Getur verið að Halldór J. Kristjánsson skrifi eina greinina enn. Það var hann, ásamt Sigurjóni, sem lánuðu Hannesi langt umfram greiðslugetu og svo óralangt umfram tryggingar. Siðleysi á hæsta stigi.

e.s. Er á móti nafnlausum skrifum og óska þess að þeir sem ekki vilja skrifa hér undir fullu nafni, sleppi því.