Monthly Archives: júní 2009

Leita að foringja

Hugur er í Samfylkingarfólki í Reykjanesbæ. Afleit fjárhagsstaða bæjarins eflir flokksfólk, þar sem það sér fram á sóknarfæri í kosningunum eftir tæpt ár. Víst er að staða Árna Sigfússonar bæjarstjóra hefur veikst.
Í undirbúningi Samfylkingarsinna er leit að nýjum oddvita. Efst á lista margra félaga er Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, en hún mun ekki hafa svarað tilkallinu.
Síðast var vonlítið sameiginlegt framboð minnihlutaflokkanna með þeim árangri að Sjálfstæðismenn náðu sjö fulltrúum af ellefu.
„Það er vonandi að það verði komin fjarlægð á bankamálið,“ sagði viðmælandi aðspurður um hvort starf Eddu Rósar hjá Landsbankanum kynni að vinna gegn henni.
Fyrir þá sem ekki vita, þá er Edda Rós dóttir Karls Steinars Guðnasonar sem var krataforingi í Keflavík í langan tíma.

Nýr Seðlankastjóri

Þetta var skrifað 31. maí.

Nú segja heimildir að búið sé að ákveða að Már Guðmundsson verði Seðlabankastjóri. Aðrir umsækjendur eigi ekki möguleika. Ef svo er þá er það svo sem ekkert nýtt þegar skipað er í bestu embættin hér hjá okkur, enda hefur fram að þessum síðustu og verstu tímum, verið talið að mesta spillingin á Íslandi sé skipan embætti. Síðustu afrek í viðskiptum og efnahagsmálum slá það vissulega út.
Aðrir umsækjendur, svo sem Arnór Sighvatsson og Þorvaldur Gylfason eiga enga möguleika, reynist heimildirnar réttar.

Hökkuðu og lökkuðu

alþingiFyrir margt löngu vann mamma í bakaríi Jóns Símonarsonar við Bræðraborgarstíg.  Þar var seld mjólk. Svo gerðist það verð á mjólk var lækkað einn dag og hækkað aftur þann næsta. Mamma sagði mér að kona hefði komið í bakaríið undrandi á þessu og hún sagði: „Meiri vitleysan. Þeir lökkuðu mjólkina í gær og hökkuðu hana í dag.“
Veit ekki hvers vegna mér kemur þessi saga alltaf í hug þegar ég heyri þá sem vildu semja um Icesave vilja það alls ekki núna og þeir sem alls ekki vildu semja vilja ekkert frekar núna. Íslensk stjórnmál.
Heyrði þrjá sjálfsæðismenn í sjónvarpsþætti. Þeir aftóku samninga. Voru samt tilbúnir að semja fyrir fáum mánuðum. Einn þeirra var meira að segja ráðherra í ríkisstjórninni sem vildi semja. Þeir vörðu miklum tíma til að minna okkur á hversu harður núverandi fjármálaráðherra var gegn samningum.
Nú er allt á hvolfi. Þeir sem ekki vildu, þeir vilja og þeir sem vildu, vilja ekki.

Ósanngirni i boði hins opinbera

Hér er niðurlag dóms Héraðsdóms Reykjavíkur. Nú verðum við Erla að kanna hvort við getum áfrýjað, þrátt fyrir sýknudóm, eða hvar við getum leitað réttlætis.

„Þegar allt framangreint er virt verða ummælin því ekki talin hafa verið móðgandi eða meiðandi fyrir stefnanda, sbr. 234. gr. almennra hegningarlaga eða falið í sér aðdróttun, sbr. 235. gr. sömu laga.  Þá verða þau ekki talin hafa verið ólögmæt meingerð gegn persónu hans og æru.  Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í málinu.
Þrátt fyrir þessa niðurstöðu málsins þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málinu.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dagsettu 1. desember 2009.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur og greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndu, Sigurjón Magnús Egilsson og Erla Hlynsdóttir, eru sýkn af kröfum stefnanda, Rúnars Þórs Róbertssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, Rúnars Þórs Róbertssonar, 400.000 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hans, Þorsteins Einarssonar hrl., greiðist úr ríkissjóði.

Hervör Þorvaldsdóttir“.

Fyrir hverja er réttlætið?

Sýkna en…

Björn BjarnasonEnn og aftur er ég sýknaður í meiðyrðamáli. Og enn og aftur vinnst sigur í meiðyrðamáli þegar dómsmálaráðuneytið, í ábyrgð fyrrverandi dómsmálaráðherra Björns Bjarnasonar, ákvað að ríkið kostaði málatilbúnaðinn.

Það er eitt að fólk geti stefnt og krafist bóta og hvað eina. En annað þegar ríkið tekur fjárhagslega ábyrgð á málinu. Reyndar mun það vera svo að þó ég, og Erna Hlynsdóttir blaðamaður, höfum verið sýknuð berum við samt fjárhagslega ábyrgð á greiðslu til verjandans. Þetta er ósanngjarnt. Ef rétt er, erum við sýknuð en samt gert að borga.

Það fylgja því leiðindi að vera stefnt, það kostar vinnu, stundum leiðindaumfjöllun, og jafnvel peninga þó sigur vinnist, talsvert vinnutap og mikið ónæði. Þess vegna er það ábyrgðarhluti að ríkið samþykki að fara þannig gegn þegnum sínum. Það á allavega ekki að heimila nema að allt bendi til sektar.

Svo var ekki.

Svindl fyrir opnum tjöldum

IAVHitti múrara sem segir brjálað að gera. „Gæti unnið allan sólahringinn,“ sagði hann.

Svo bætti hann við að iðnaðarmanna bíði ærin verkefni að laga til eftir þá sem unnu sem fagmenn án þess að hafa nein réttindi og skiluðu illa unnu verki. „Æðið var svo mikið að hingað komu menn sem höfðu ekki  reynslu, ekki kunnáttu og alls ekki menntun. Það á eftir að gera við og endurgera mjög mikið af því sem var keyrt áfram í brjálæðinu sem hér var. Við erum þegar byrjaðir á því, þó ekki sé lengra um liðið,“ sagði múrarinn.

Hann sagðist vita um marga sem eru á atvinnuleysisbótum og eru í fullu starfi þrátt fyrir það. „Þetta er svakalegt. Við verðum að borga fyrir svindlið með hærri sköttum og verri afkomu.“

Halldór og hinir

Halldór_ÁsgrímssonHalldór Ásgrímsson sagði, í fréttum Sjónvarpsins, ekki hafa verið rangt að einkavæða bankanna. Hann talaði ekkert um hvernig hann stóð að einkavæðingunni. Hann má ekki gleyma að hann og þrír aðrir ráðherrar tóku verkið af framkvæmdanefndinni og afhentu bankanna þeim mönnum sem nú bera einna þyngstu ábyrgðina á hvernig komið er.
Halldór Ásgrímsson var þjóðinni mjög dýr sem stjórnmálamaður. Hann ber mikla ábyrgð á stöðu okkar. Það var ekkert ljúft að horfa á hann tala einsog sá sem enga ábyrgð ber. Sérstaklega þegar fréttirnar á eftir voru um sérkjör ríkra með séreignarsparnað og að engin lög ná yfir þá sem þurfa ekki að bera ábyrgð á kaupum á hlutabréfum í Kaupþingi.
Þrennt vont í röð. Halldór Ásgrímsson, sérkjör Sigurjón Þ. Árnasonar og eftirgjöf til þeirra sem keyrðu Kaupþing til helvítis.
Nú bíðum við eftir að heyra hvaða skattar hækka og hvað verður skorið niður svo við getum borgað fyrir sérkjaraaðalinn. Borgað fyrir afleiðingar þess að Halldór og hinir afhentu bankanna mönnum sem kunnu greinilega ekkert með þá að fara.

40 milljarðar í mínus

Bjarni BenEkki er úr vegi að gera ráð fyrir að viðbótarhalli á ríkissjóði stefni í 40 milljarða í ár, en ekki 20 einsog oftast er talað um.

Þetta kom meðal annars fram í orðum Bjarna Benediktssonar á Sprengisandi í morgun. Margt bendir til að gatið hafi stækkað verulega og sé enn að stækka, og það verði hugsanlega tvöfalt stærra en í stefndi.

Óvarlegt er að áætla að ríkisstjórninni takist að brúa svo stórt bil með því einu að hækka álögur. Þess vegna verður að grípa til niðurskurðar.

Gylfi Zoega sagði að verja verði ríkissjóði og því sé ekki unnt að fella niður skuldir heimila. Verði það gert veikist bankarnir sem því nemur og þá verði að borga úr ríkissjóði til að mæta því gat sem þar myndast. Hann sagði að við verðum að sætta okkur við þá vondu stöðu sem við erum í. Hann sagði enga pillu vera til gegn eftirköstum glapræðisins.

Tímabundinn hefndarhugur

„Vill dómsmálaráðherra axla ábyrgð á gerðum og verkum Joly þegar sá hefndarhugur sem hún og fylgismenn hennar hér á landi ala nú á, er af þjóðinni runnin?“ Þessi setning í grein Sigurðar G. Guðjónssonar er sérstök.

Vel má vera að mat Sigurðar sé rétt, að þjóðin hafi tímabundinn hefndarhugur sem eigi bara eftir að renna af henni. Held samt ekki.

„Þjóðin heillaðist af málflutningi Joly, enda sagði hún að endurheimta mætti fjármuni, sem geymdir væru á fjarlægum eyjum og væru ávöxtur afbrota óheiðarlegra íslenskra bankamanna og útrásarvíkinga,“ segir líka í grein Sigurðar. Það er einmitt það sem fólk vonar og treystir henni betur en öðrum til að ná árangri. Ef peninga er að finna á fjarlægum eyjum, peninga sem þjóðin getur gert tilkall til, þá er það þess virði að reyna, ekki veitir af. Þannig er landið leikið eftir fáránlega skuldsetningu útrásarvíkinga og annarra.

Held að andinn meðal þjóðarinnar sé dýpri en tímabundinn hefndarhugur.

Á tvöföldum launum

imagesMikil ósköp er gott að vita til þess að Einar Karl Haraldsson fái bæði biðlaun og umbun, þó síðar verði. Hann sinnir nú einhverju nauðsynlegasta starfi á hinu blanka Íslandi. Ráðdeild og ábyrgð einkenna allt þetta mál. Vonandi er að aðrar opinberar stofnanir taki Landspítalann til fyrirmyndar og ráði sér almannatengslaráðgjafa. Svo verður að vera.
Þessi frétt er fín: Hulda Gunnlaugsdóttir, nýr forstjóri Landsspítalans, staðfestir í samtali við Vísi Einar Karl Haraldsson fái ekki greitt á meðan hann þiggur biðlaun sem fyrrverandi aðstoðarmaður Össurar Skarphéðinssonar. Hún útilokar þó ekki að hann fái umbun fyrir undirbúningsvinnuna eftir að hann tekur við starfi almannatengslaráðgjafa spítalans 1. september.
Það er vonandi að svo verði. Ekki er við það unandi að tilvonandi almannatengslaráðgjafi ríkissjúkrahússins þiggi aðeins ein laun, meðan hægt er að borga tvöföld.
Hulda segir að Einar haldi utan um þann tímafjölda sem hann vinnur sem verktaki spítalans og útilokar ekki að hann fái „umbun“ fyrir þá vinnu eftir að hann taki formlega við störfum.
Nú má ekki hika. Nú má ekki bregðast. Einar Karl verður að fá sitt, og það tvöfalt. Enda ekki andskotlaust að vera verðandi almannatengslaráðgjafi.