Monthly Archives: febrúar 2010

Davíð og fjölmiðlarnir

Var að grúska í gömlu efni fann þar fyrsta fjölmiðlafrumvarp Davíðs Oddssonar, frumvarp sem féll í mjög grýttan jarðveg. Strax á ríkisstjórnarfundinum, sem hann dró það fyrirvaralaust upp mótmælti meira að segja Halldór Ásgrímsson.

Í bók Guðna Ágústssonar segir að þegar Davíð kynnti frumvarpið hafi Halldór brugðist hinn versti við. Davíð henti þá frumvarpinu í Halldór og sagði honum að breyta því. Eftir það var aldrei rætt um breytingar á lögum um prentrétt.
En svona var innihaldið:

Dagblaðakaflinn
„Útgefandi dagblaðs skal ekki hafa aðra óskylda starfsemi með höndum. Þá er markaðsráðandi fyrirtæki, félagi eða lögpersónu í öðrum rekstri óheimilt að eiga eignarhlut í fyrirtæki, félagi eða lögpersónu, sem hefur útgáfu dagblaðs með höndum. Sama á við um einstaklinga sem eiga ráðandi hlut í slíkum fyrirtækjum, félögum eða lögpersónum. Útgefendum og eigendum dagblaða er á hverjum tíma skylt að veita dóms- og kirkjumálaráðherra upplýsingar er gera honum kleift að meta hvort skilyrðum málsgreinar þessarar er fullnægt.
Heimilt er dóms- og kirkjumálaráðherra að leggja á dagsektir að fjárhæð kr. 50.000 til 500.000 á dag til að knýja á um að ákvæðum 2. mgr. verði framfylgt. Dagsektir þessar verða lagðar á þá aðila sem með ólögmætt eignarhald fara og eru aðfarahæfar.“

Í greinagerðinni segir:
„Í þessari grein er við það miðað að fyrirtæki, félag eða lögpersóna, sem hefur dagblaðaútgáfu sem meginmarkmið skuli ekki jafnframt hafa aðra óskylda starfsemi með höndum.“ Síðar segir: „Enn fremur er gert ráð fyrir að markaðsráðandi fyrirtækjum í öðrum rekstri sé óheimilt að eiga eignarhlut í fyrirtæki í dagblaðaútgáfu.“ Og að lokum er þessi tilvitnun: „Nauðsynlegt er að dóms- og kirkjumálaráðuneytið sem eftirlitsaðili með framkvæmd laga um prentrétt hafi greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um eignarhald útgefenda og eigenda dagblaða til að meta hvort skilyrðum laganna er fullnægt.“

Ljósvakakaflinn:
Útgáfa útvarpsleyfis er háð eftirfarandi skilyrðum um eignarhald:
a.    Óheimilt er að veita leyfi til útvarps til fyrirtækis, félags eða lögpersónu sem hefur að meginmarkmiði rekstur sem er óskyldur fjölmiðlarekstri. Einnig er óheimilt að veita félagi, fyrirtæki eða lögpersónu útvarpsleyfi sem að hluta eða öllu leyti er í eigu markaðsráðandi fyrirtækis í óskyldum rekstri. Þá er óheimilt að veita útvarpsleyfi félagi, fyrirtæki eða lögpersónu, sem hefur með höndum útgáfu dagblaðs eða á eignarhluti í fyrirtækjum í dagblaðaútgáfu, beint eða í gegnum önnur félög, fyrirtæki eða lögpersónur.
b.    Við veitingu útvarpsleyfa til einstaklinga skal útvarpsréttarnefnd jafnframt hafa það atriði í huga, sem nefnd eru í a-lið, þ.á m. hvort aðili eða fyrirtæki honum tengd, eru markaðsráðandi á öðrum sviðum viðskiptalífs eða í dagblaðaútgáfu.
c.    Með umsóknum um útvarpleyfi skulu fylgja upplýsingar sem gera útvarpsréttarnefnd kleift að meta hvort skilyrðum a- og b-liðar sé fullnægt.
d.    Skylt er þeim aðilum sem útvarpleyfi hafa að tilkynna um allar breytingar sem verða á eignarhaldi leyfishafa eða þeirra félaga, fyrirtækja eða lögpersóna sem eignarhlut eiga í leyfishafa. Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað útvarpsleyfi, ef breytingar verða á eignarhaldi þannig að í bága fari við ákvæði þessarar málsgreinar.

(Dómsmálaráðherra var Björn Bjarnason).

Þrátt fyrir fyrstu afstöðu Halldórs rak hann málið áfram í eigin flokki. Þegar tvær grímur runnu á hvern þingmanninn af öðrum, boðaði hann leynifund og á fundinn kallaði hann alla þingmenn flokksins, nema Kristinn H. Gunnarsson, en honum treysti Halldór ekki. Halldór fundaði með hverjum og einum þingmanni, í von um að fá þá alla til að standa með sér í málinu. Þingmönnum fannst sem þeir þyrftu að velja á milli framtíðar flokksins og þingsins, þeir vildu frekar velja framtíð flokksins. Halldór var í vanda, þingflokkurinn var að snúa við honum baki.

Bara gert til upprifjunar.

Sjálfstæðisflokkurinn bætir mikið við sig

Sjálfstæðisflokkurinn fengi tíu þingmenn til viðbótar við sextán, sem flokkurinn hefur nú, miðað við skoðanakönnun sem Plúsinn gerði fyrir Sprengisand. Samfylkingin missti sex þingmenn, fengi fjórtán í stað tuttugu. Vinstri grænir misstu tvo, fengju tólf í stað fjórtán og Framsókn bætti við sig tveimur, fengi ellefu í stað níu. 2.500 svöruðu.

Þá var spurt hvaða leiðtoga þjóðin treystir best til að leiða okkur út úr vandanum. Þrjátíu prósent treysta Steingrími J. Sigfússyni, 28 prósent Bjarna Benediktssyni, 21 prósent Jóhönnu Sigurðardóttur og tuttugu prósent Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Jónas Haralz á Sprengisandi

Aðalgestur Sprengisands á Bylgjunni á eftir verður Jónas Haralz. Lofa að Jónas segir margt sem öll okkar, sem hafa áhuga á að samfélaginu, höfum gagn og gaman af. Samanburður við fyrri tíma, hver staða okkar og hvað þarf að gera til að endurvinna það sem gera þarf. Þetta allt þekkir Jónas og veit.

Kærðu Landsbankann

Fjárfestar hafa óskað þess að Fjármálaeftirlitið rannsaki söluferli tveggja fyrirtækja hjá Landsbankanum. Annars vegar sölu Slippfélagsins og hins vegar söluna á Bílaleigu Flugleiða.
Það var í fyrrihluta janúar sem hópur manna lýsti yfir áhuga á að kaupa málningarverksmiðju Slippfélagsins, og það gegn staðgreiðslu. Hópurinn átti peninga og þurfti ekki lán til kaupanna. Áður en til þessa kom hafði Slippfélagið misst sinn sterkasta samning, það er framleiðslu og sölu á Hempels skipamálningu.
Í kærunni kemur fram að starfsmaður fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans hafi sagt að bankinn væri ekki tilbúinn til að taka á móti staðgreiðslutilboði í Slippfélagið.
Engin haldbær rök voru færð fyrir þessari afstöðu bankans og ekki var spurt að því hversu mikið fjárfestarnir væru tilbúnir að greiða fyrir Slippfélagið.  Þegar þetta var var Slippfélagið óselt og verið að leita kaupanda.
Haft var samband við  Ásmund Stefánsson, bankastjóra Landsbankans, með tölvupósti vegna málsins, en ég veit að hann svaraði því aldrei.
Ekki löngu síðar var sagt í fjölmiðlum að Landsbankinn hefði selt Málningu hf. allar eigur Slippfélagsins sem og vörumerki, en ekki félagið sjálft.
Hluti af kaupunum var að leggja niður rekstur Slippfélagsins. Og hvað, jú láta það deyja.  Þetta var gert þrátt fyrir ágæta rekstrarafkomu á árinu 2009.
Síðan hefur  Málning hf. sagt upp fjölda starfsmanna sem áður störfuðu hjá Slippfélaginu. Allri framleiðslu hefur verið hætt í húsakynnum Slippfélagsins við Dugguvog.  Fjárfestarnir hafa ekki fengið að vita á hvaða verði Slippfélagið var selt og ekki hvort Landsbankinn, bankinn sem vildi ekki staðgreiðslu, hafi fjármagnaði kaupin.
Sami fjárfestahópur tók þátt í söluferli Bílaleigu Flugleiða. Þar sem Hertz Englandi kom að sölunni treystu menn því að sagan frá Slippfélaginu myndi ekki endurtaka sig.  Í kærunni til Fjármálaeftirlitsins er fullyrt að þar hafi verið gróf mismunun. Gögn voru ekki afhent öllum á sama tíma auk þess sem einstaka þátttakendur fengu upplýsingar varðandi söluna sem aðrir fengu bara alls ekki.
Landsbankinn er kærður fyrir að haf algjörlega brugðist skyldum sínum með því að virða ekki eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og að hafa litið fram hjá því að hámarka söluverð fyrirtækja sem óbeint eru í eigu ríkisins.

Kæra til Fjármálaeftirlitsins

Meðal efnis á Sprengisandi er frétt um kæru til Fjármáleftirlitsins vegna fyrirtækjasölu eins bankanna. Meira um það á morgun. Svo er stutt viðtal við nemenda í Tækniskólanum, strák sem var leiddur framhjá samnemendum sínum og leitað á honum í lokuðu herbergi.
Staða og aðkoma fræðimanna að hruninu verður til umfjöllunar og fram kemur vilji til að rannsaka ágæti menntunar hagfræðinga og viðskiptafræðinga.
Ólöf Nordal, Eiríkur Bergmann, Guðríður Arnardóttir, Ármann Kr. Ólafsson og Eygló Harðardóttir verða gestir þáttarins.

Starfsmennirnir vilja Ólaf Ólafsson

200 manna starfsmannafundur hjá Samskip samþykkti eftirfarandi ályktun:
Starfsmannafundur haldinn í Samskipum þriðjudaginn 16. febrúar 2010 ályktar eftirfarandi: Við skorum á Ólaf Ólafsson stjórnarformann Samskipa að láta ekki bugast undan þeim linnulausu árásum sem á honum dynja þessi misserin. Við flykkjum okkur á bak við hann og saman stöndum við af okkur þann stórsjó og byl sem nú geisar. Samskip munu standa eftir sterkari sem aldrei fyrr, frábær vinnustaður, viðskiptavinum og samfélaginu til góða.
Það var í  lok fundarinn að starfsmaður stóð upp og lagði fram yfirlýsinguna. Hún var samþykkt með lófaklappi og viðstaddir segja starfsmenn hafa risið úr sætum.

Viðhalda atvinnuleysi

Veit að það eru fleiri en ég sem hafa rekið sig á hindrun varðandi reglur Vinnumálastofnunnar. Mögulegt er, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að ráða fólk sem er á atvinnuleysisbótum tímabundið til starfa þar sem launakostnaðurinn skiptist milli fyrirtækis og Vinnumálastofnunnar.
En reglurnar eru þannig að minnstu fyrirtæki hafa ekki þennan möguleika. Að lágmarki verða að vera þrír starfsmenn á launaskrá svo Vinnumálastofnun taki þátt. Með þessu kerfi takmarkast margt. Minnstu fyrirtækjum er gert erfiðara að keppa við stærri og það sem mestu skiptir er að færri atvinnulausir fá vinnu.
Ímyndum okkur að lítið fyrirtæki, sem ekki hefur kjark til að ráða starfsmann, geti með samningi, rétt einsog stærri fyrirtæki, ráðið starfsmann í samvinnu við Vinnumálastofnun, sem verður til þess að framlegð eykst og að loknu takmörkuðum samningstíma verði til starf, og kannski annað.  Eflaust er ömurlegt að vera án atvinnu og örugglega til lengri tíma. Auðvitað munar um hvern og einn sem fær vinnu. En svona er þetta. Engum til góðs.
Vissulega verður að gæta þess að þau fyrirtæki sem ráða starfsmenn með þessum hætti uppfylli skilyrði, svo sem um fjárhaglega stöðu, aðbúnað og fleira þannig og ef verða vanhöld á að samningar haldi, er þeim einfaldlega sagt upp fyrirvaralaust. Þannig á að það vera.
En ekki á Íslandi. Kannski er takmarkið að halda fólki sem lengst án atvinnu.

Eiríkur Stefánsson og Jón Baldvin

Eiríkur Stefánsson gekk skrefi of langt í dag. Það má ekki lemja Guðmund Franklín.
Hitt er annað að nú er unnið að stofnun samtaka sem ætla að berjast fyrir að auðlindir sjávar verði færðar almenningi í stað þess að vera á hendi útgerðarinnar.
Meðal forgöngumanna samtakanna eru Eiríkur Stefánsson og alþingismennirnir fyrrverandi, Jón Baldvin Hannibalsson, Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson.
Ekki er víst að framganga Eiríks fyrr í dag kæti þingmennina fyrrverandi sem standa að hinum nýju samtökum.

…og Mafía skal það heita

Mér barst þetta bréf frá manni sem vill ekki koma fram undir nafni:
Ég er orðinn svolítið leiður á upptalningunni á þeim sem komu okkur á kaldann klakann (enga björgunarsveitir þar).
Upptalningin er = útrásarvíkingar, bankamenn, embættismenn og stjórnmálamenn.
Ég vill stytta þetta í íslensku MAFÍUNA.
Ég var á fundi með samstarfsmönnum úr allri Evrópu og var að reyna að útskýra hvað gerðist en gekk illa þangað til að ég fór að tala úm íslensku mafíuna og benti á að eini munurinn á henni og rússnesku, ítölsku og litháensku er að þeir hafa vit á því að slátra ekki mjólkurkúnni. Þá fóru menn að kveikja.

Mafía er skilgreind í Ensk-Íslenskri orðabók sem= Hagsmunaklíka, samtryggingarklíka.
Hvað er annað hægt en til að þessa nafngift, þegar horft er á fjárgerninga flæða milli banka og fyrirtækja þessara manna. Einnig í kosningasjóði.

Hvað með kúlulán til eiginmanna stjórnmála”foringja” sem síðan hrufu eins og mörg þessara lána!

Annað, er ekki rétt að athuga hverjir eru eigendur af vogunarsjóðunum sem yfirtóku bankanna, mér sýnist allt vera að fara í sama farið.
Er það kannski íslenska Mafían, komin til að úthúta sér feitu bitana aftur án þess að leggja inn nokkurt fé, kúlulán afturgengin?

Íraksstríðið, ég vill að farið sé í saumana á því, mótmælti því að ég og þessi þjóð sé gerð að fjöldamorðingjum (að mig minnir 42.000 manns á 3 sólahringum, ef það er ekki fjöldamorð þá veit ég ekki hvað fjöldamorð er). Ég er mjög ánægður með hvað sjálfstæðismenn og framsóknarmenn vilja svipta allri leynda af öllu mögulegu, þannig að ég get ekki séð að þeir geti hafnað þessu án þess að teljast pólitískir LODDARAR sem þeir eru margir eru.

En Mafía er það og Mafía skal það heita.

Lýðræðið á Sprengisandi

Þema Sprengisands í fyrramálið verður lýðræðið og framkvæmd þess. Spurt verður, er fulltrúalýðræðið það besta og fer saman vilji þeirra sem velja sér fulltrúa og fulltrúanna. Hvað með beint lýðræði? Getur það tekið við? Og hvað með rafrænt lýðræði?

Margar spurningar og vonandi mörg svör. Þátttakendur eru Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur og Þorsteinn Pálsson fyrrverandi forsætisráðherra.

Eftir að þau kveðja koma Guðlaug Kristjánsdóttir formaður BHM, Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður og Ögmundur Jónasson alþingismaður. Þá verður haldið áfram að tala um lýðræðið og svo verður fjallað um það hæst ber.

Bylgjan klukkan 10.00 í fyrramálið.