Monthly Archives: desember 2008

Á ekki krónu

Eftir að hafa hlustað á Geir H. Haarde held ég að hann verði að fletta upp í dagbókunum. Áður en bankarnir hrundu yfir okkur var staða okkar orðin skelfileg. Peningamálastefnan hafði leikið okkur grátt. Verðbólgan var um fimmtán prósent, stýrivextir sömuleiðis og krónan hafði fallið um tugi prósenta á skömmum tíma. Hér var komin gjaldeyriskreppa. Forsætisráðherra kýs að gleyma þessu öllu. Það var nánast móðgun að hlusta á áramótaávarpið hans.

Geir H. Haarde hafði, ásamt kollegum sínum, keyrt allt á versta veg. Síðan bættist bankahrunið við sem samanlagt fleytir okkur í sögubækur heimsins um ókomna tíð. Ekki eitt orð um krónuna, eða stýrivextina, viðskiptahallann sem er að stórum hluta ríkisbákninu að kenna, ekki eitt orð  um verðbólguna sem var eins fjarri markmiðum og hugsast gat.

Vissulega voru viðskiptamennirnir lausir við auðmýkt. Það á sannarlega við um fleiri. Heyra Þorgerði Katrínu, í fréttaannál, tala um erlenda greinirinn sem sagði allt vera fara til verra vegar á Íslandi. Menntamálaráðherra bar upp á blessaðan manninn illar hvatir og að hann þyrfti að fara í endurmenntun. Hvar var auðmýktin hjá menntamálaráðherra?

Gleðilegt ár.

Höfuðstöðvarnar á Íslandi

Mikið er merkilegt að skoða stjórnarsáttmálann, hinnar starfandi framfarasinnuðu umbótastjórnar. Í einum kafla segir: „Ríkisstjórnin stefnir að því að tryggja að slík starfsemi geti áfram vaxið hér á landi og sótt inn á ný svið í samkeppni við önnur markaðssvæði og að útrásarfyrirtæki sjái sér áfram hag í að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Áhersla verður lögð á að efla Fjármálaeftirlitið til þess að íslenski fjármálamarkaðurinn njóti fyllsta trausts. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja. Mikilvægt er að heilbrigð samkeppni og eðlileg verðmyndun þrífist á öllum sviðum atvinnulífsins og að neytendur njóti góðs af þeirri samkeppni. Efla skal samkeppniseftirlit í því skyni.“

Á öðrum stað segir: „Markmið hagstjórnarinnar er að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og áframhaldandi trausta stöðu ríkissjóðs. Stórframkvæmdir, skattkerfisbreytingar og aðrar hagstjórnaraðgerðir verða tímasettar í ljósi þessara markmiða. Tryggja verður að íslensk fyrirtæki búi við bestu samkeppnis- og rekstrarskilyrði sem völ er á. Mikilvægt er að rekstrarumhverfi íslenskra fyrirtækja tryggi vöxt þeirra og laði að starfsemi erlendis frá.“

Hvað gerir fólk sem er svona fjarri markmiðum sínum? Setur sér ný takmörk eða viðurkennir vanmátt sinn? Það kann að vera sigur í uppgjöfinni.

Skagafjarðarflækjan skýrð

slide1Það hafa rétt um þrjú þúsund lesið fréttaskýringuna um félög tengd stjórnendum Kaupfélagsins í Skagafirði. Hún birtist hér fyrir sólarhring og hefur að vonum vakið athygli. Stjórnendur Kaupfélagsins eiga í og sitja í stjórn fjölmargra félaga sem mynda keðju milli einkafélaga þeirra og Kaupfélagsins.

Einn af lesendum síðunnar gerði meðfylgjandi skýringarmynd. Það eru þeir Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri, Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Friðriksson forstjóri Fisk Seafood sem tengjast hinum fjölmörgu félögum.

Sjá nánar bloggfærsluna á undan þessari.

Fjárfestingarfélög kaupfélagsstjórans

Stjórnendur Kaupfélags Skagfirðinga hafa í mörg horn að líta. Þeir tengjast persónulega mörgum fjárfestingarfyrirtækjum sem aftur tengjast Kaupfélaginu. Flókið? Já. En skoðum nánar. Hinn landsfrægi Þórólfur Gíslason er kaupfélagsstjóri og aðstoðarkaupfélagsstjóri er Sigurjón Rúnar Rafnsson. Eitt af helstu fyrirtækjum Kaupfélagsins er Fisk Seafood þar sem Jón Eðvald Friðriksson er forstjóri. Forleikurinn er á enda.

Sagan byrjar í fyrirtæki sem heitir AB 48 ehf. Reyndar hefur verið skipt um nafn á félaginu, og það heitir nú; Fjárfestingafélagið Fell ehf. Stjórnarmaður er bara einn, Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri. Á árinu 2007 var bókfært verð félagsins var einn milljarður króna og eigið fé var tíu milljarðar. Helst eign AB 48 ehf. er AB 50 ehf.

AB 50 ehf. á í Straumi Burðarás. Eigið fé var tæpur milljarður. Stjórnarmaður er bara einn, Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri.

Næsta félag er AB 26 ehf. Aðaleign AB 26 ehf. er tæplega helmingshlutur í AB 48 ehf. Eigið fé var 5,4 milljarðar og bókfært verð einnig. Stjórnarmaður er bara einn, Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri.

Næst kemur að þjóðþekktu fyrirtæki, Hesteyri ehf. En það félag er hluti af S-hópnum, hópnum sem fékk Búnaðarbankann einsog frægt er. Meðal eigna Hesteyrar ehf. er AB 26 ehf. Bókfært verð er 5,4 milljarðar. Stjórnarmenn eru Jón Eðvald Friðriksson, forstjóri Fisk Seafood, Ólafur Kristinn Sigmarsson og Stefán Guðmundsson fyrrverandi alþingismaður.

Þá er komið að Fisk Seafood, þar sem Jón Eðvald er forstjóri. Fisk Seafood á Hesteyri. Og þá kemur að Þórólfi Gíslasyni og Kaupfélagi Skagfirðinga. En Kaupfélagið á Fisk Seafood, sem á Hesteyri, sem á helming í AB 26 ehf., sem á AB 48 ehf., sem á AB 50 ehf.

 

Hinn hlutinn /

Eigendur AB 48 ehf. sem var nefnt að ofan eru AB 26 ehf. og FS3 ehf. Hér kemur nýtt félag, FS3, og leggurinn tekur breytingum. Eigið fé eru 5,4 milljarðar og þrír sitja í stjórn. Sigurjón Rúnar Rafnsson aðstoðarkaupfélagsstjóri, Helgi S. Guðmundsson, sem er einn helsti leikmaður S-hópsins, og Ólafur Friðriksson.

Fjárfestingarfélagið EST ehf. er eini eigandi FS3 ehf. Og eigandi Fjárfestingarfélagið EST ehf. er Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar.

Næst skulum við skoða fyrirtæki sem heitir Gilding. Tveir sitja í stjórn, kaupfélagsstjórinn Þórólfur og aðstoðarkaupfélagsstjórinn Sigurjón. Gilding á þriðjungshlut í Síðasta dropanum ehf. sem kemur við sögu síðar. Þá er komið að Fjárfestingafélaginu Sveinseyri ehf. Þar sitja í stjórn títtnefndur Sigurjón Rúnar aðstoðarkaupfélagsstjóri og Jón Eðvald Friðriksson forstjóri Fisk Seafood. Sveinseyri á hlut í AB 48 ehf. Síðasta dropinn á allt hlutafé Sveinseyrar ehf.

Enn er haldið áfram. Matróna ehf. er eitt félaganna. Eigendur þess eru félög sem ég skýri betur á eftir, en þau heita Háahlið 2 ehf. og Háahlíð 3 ehf. Þau félög, það er Háahlið 2 og Háahlið 3 eiga líka félagið Gullinló ehf. Í stjórn Gullinlóar sitja kaupfélagsstjórarnir báðir, Þórólfur og Sigurjón. Gullinló á síðan hlut í Mundaloga ehf. ásamt Matrónu ehf. Skýrist á eftir. Kaupfélagsstjórarnir sitja í stjórn Mundaloga.

Og næst er það Síðasti dropinn ehf. Þar skipa stjórn Sigurjón aðstoðarkaupfélagsstjóri og Jón Eðvald forstjóri. Eigendur Síðasta dropans eru Háahlíð 2 ehf. Háahlíð 3 ehf. Háahlið 7 ehf. og Gilding ehf. Síðasta dropinn á Sveinseyri sem áður var getið um.

Háahlíð 2 ehf. er einkafirna Þórólfs kaupfélagsstjóra og ber heiti heimilis hans. Félag Þórólfs á helmingshlut í Matrónu, helmingshlut í Gullinló og tæplega fjórðung í Síðasta dropanum auk hluta í öðrum félögum sem tengjast ekki þessum kapli.

Háahlið 3 ehf. er einkafirma Sigurjóns Rúnars Rafnssonar aðstoðarkaupfélagsstjóra. Félag Sigurjóns á helmingshlut í Matrónu, helmingshlut í Gullinló og tæplega fjórðung í Síðasta dropanum auk hluta í öðrum félögum sem tengjast ekki umfjölluninni.

Háahlið 7 ehf. er einkafirma Jóns Eðvalds Friðrikssonar forstjóra Fisk Seafood. Það félag á meðal annars tæplega fjórðungshlut í Síðasta dropanum.

Það sem vekur athygli er að þeir þremenningar tengjast í gegnum fjölda félaga og þegar kapallinn er rakinn endar hann í Kaupfélaginu þar sem þeir hefur verið treyst fyrir félagi í almanna eigu. Af lestri greinarinnar vakna meðal annars spurning um hvort rétt sé að helstu stjórnendur Kaupfélagsins séu um leið viðskiptafélagar þess. Hin mikla flækja, sem hér hefur verið gerð tilraun til að rekja, gerir öllum erfitt fyrir að rekja hver er hvers og hvur er hvurs.

Byggt á ársreikninum áranna 2006 og stundum 2007.

Fjórklofinn þingflokkur

Þingflokk Frjálslynda flokksins skipa fjórir þingmenn; Guðjón Arnar Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson, Jón Magnússon og Kristinn H. Gunnarsson. Nýverið fjórklofnaði flokkur við atkvæðagreiðslu.

Þingmenn nokkurra flokka fluttu mál þar sem þeir ætluðust til að þingmenn og ráðherrar nytu sömu lífeyrisréttinda og aðrir opinberir starfsmenn. Tveir af þingmönnum Frjálslynda voru meðal flutningsmanna, Grétar Mar og Jón. Þegar kom að atkvæðagreiðslu fór hún þannig að Jón sagði já, Guðjón sat hjá, Kristinn sagði nei og Grétar Mar mætti ekki. Meirihluti þingmanna felldi málið og tryggðu sér þannig áframhaldandi forréttindi.

Borgarstjórinn og bæjarstjórinn

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, og Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri í Árborg, verða meðal fjölmargra gesta á Sprengisandi á Bylgjunni á sunnudagsmorguninn. Farið verður yfir það sem hæst bar á árinu, hverjir hafa staðið sig best, hverjir unnu helstu afrekin, hverjir stóði sig verst og svo framvegis.

Þátturinn verður með öðrum blæ en hingað til. Upprifjun og sögur verða í fyrirrúmi.

Í fyrsta þætti nýs árs verður „afneitunin“ á enda og staða okkar skoðuð og spáð fyrir um hvað gerist á næsta ári. Er einhvers að vænta af rannsóknarnefndum, munu mótmæli aukast, verður sótt um aðild að Evrópusambandinu, verður kosið og margt annað verður rætt af hörku. En ekki fyrr en eftir áramót.

Þessi Bubbi Morthens

Bubbi Morthens er óútreiknanlegur. Svo oft hef ég haldið að það sé komið að því að hann tilheyri einungis fortíðinni. Þannig var eftir að hann virtist hafa gefist upp á að snúa til baka til mannheima. Hann kreppti hnefann framan í allsnægtarfólkið. Virtist kominn til baka úr fáránlegri ferð í heim útrásarvíkinga og banka. Spilaði meira að segja í sömu bullveislunni og Elton John.
Kom til baka, hélt ókeypis tónleika, reif kjaft og það glitti í gamla gúanórokkarann. Bara gaman. Svo dugði honum ekkert minna en tæplega átta milljóna króna jeppi. Vonbrigði. Virtist vera kolfallinn í hégómann, aftur.

Svo hlustaði ég á Bylgjuna, Þorláksmessutónleika Bubba. Maðurinn er snillingur. Sé eftir að hafa setið heima. Þetta getur ekki nokkur annar Íslendingur. Takk fyrir mig.

Skulda tvöfalda ársframleiðslu

Skuldir sjávarútvegsins láta nærri að jafngilda tveggja ára framleiðslu. „Sá sem tók 100 milljóna króna lán fyrir ári síðan, skuldar 200 milljónir í dag,“ sagði Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Sprengisandi á sunnudaginn.

Hann fagnar yfirlýsingum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að við munu leggja allt kapp á verja auðlindir okkar í komandi aðildarviðræðum að Evrópusambandinu. Gengismálin er knýjandi og ein helsta ástæða þess að áhugi á aðildarviðræðum hefur aukist.

„Við getum ekki vikið okkur undan því að styrkja krónuna núna. Ég er sammála því almenna sjónarmiði að hún er ekki framtíðargjaldmiðill,“ sagði Einar K. Guðfinnsson.

Illa farið með peninga

Halldór Sævar Guðbergsson, formaður Öryrkjabandalagsins, og Sveinn Magnússon, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, eru báðir þeirrar skoðunar að mun meira sé unnt að gera til að bæta hag öryrkja með þeim peningum sem nú er varið til málaflokksins. Þeir eru báðir ósáttir með hvernig staðið er að málum og einkum að ekki skuli vera meiri samfella í hjúkrun og aðhlynningu.

Sveinn, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, sem dæmi að fólk er sent af geðdeildum án þess að nokkuð taki við. Það leiði til þess að fólki hrakar og þarf síðan að leita til geðdeilda að nýju og sá bati sem fékkst hverfi og sagan endurtaki sig í sífellu. Þeir segja mikinn sparnað í fleiri og ódýrari úrræðum.

Endalok margra

Bændur eru í vanda og margir þeirra eru að gefast upp vegna skulda. Það á sérstaklega við um mjólkurbændur. Margir þeirra hafa fjárfest í mjólkurkvóta og sú fjárfesting er að ganga af mörgum dauðum.

Útgerðarfyrirtæki eiga á hættu að enda í höndum erlendra lánveitenda, sem ekki mega gera út samkvæmt lögum, og verða þess vegna að selja sinn hlut til. Það kann að leiða til verulegra breytinga í útgerð. Margir útgerðarmenn keyptu kvóta á það háu verði að ekki er möguleiki að þeir geta borgað kvótann með afrakstri veiðanna. Þetta sem og annað mun koma fram að auknu afli á komandi vikum.

Þetta kom fram á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, og Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, mættu í þáttinn og þau finna mjög að komandi aðildarviðræðum að Evrópusambandinu.

Einar K. Guðfinnsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, hefur verið andvígur aðildarviðræðum en segist taka þátt í þeim af alhug verði lendingin sú að óskað verði aðildar.

Samningar bænda og ríkisins munu taka miklum breytingum. Vísitöluhækkanir næsta árs verða aftengdar sem mun skerða hlut bænda og á árinu 2010 gera bændur ráð fyrir að greiðslur frá ríkinu lækki svo skipti tugum prósenta