Monthly Archives: nóvember 2009

Verkkvíði

Ég var lengi til sjós. Þegar mest á reyndi voru vinnudagar langir, og oft strangir. Aldrei, aldrei hefði nokkrum manni komið til hugar að þræta við kapteininn um hvenær komið yrði í land að kvöldi, eða nóttu eða bara hvenær sem er.
Alþingismenn virðast ekki geta hafið störf að morgni nema vita hversu lengi þeir verða að vinna þann daginn. Þeir tuða um þetta aftur og aftur. Meira að segja hvenær þeir fá að borða. Ég þekki að fá ekki matartíma, borða standandi í stakknum út á dekki. Vegna þess að það var svo mikið að gera. Þekki sjómann sem þakkar Guði fyrir bananana. Það er nefnilega hægt að borða banana án þess að taka af sér gúmmívettlingana, segir hann, og talar af reynslu.
Ef andi Alþingis væri um borð í fiskiskipum eða á öðrum vinnustöðum þar sem mikið liggur við og ekki er til siðs að kvarta og kveina, væri enn verr fyrir okkur komið.
Það er ekki til siðs að láta verkkvíðann taka af sér skynsemina, og það á útstíminu.

Þekkti mann

Fyrir kannski áttavikum hringdi til mín maður. Við höfðum unnið saman fyrir um þrjátíu árum og síðan höfðum við nánast engin samskipti. Vissi vel af honum þrátt fyrir það. Keyrði eigin vörubil, var duglegur og áræðinn. Meira vissi ég svo sem ekki.
En hann hringdi og sagðist ekki hafa fleiri ráð en hringja í mig, blaðamanninn. Erindið var að hann var búinn að reyna allt annað. Hafði haft nóg að gera, frekar of mikið en hitt, hafði keypt sér nýjan vörubíl og allt var einsog hann helst vildi. Svo féll krónan, skuldin á bílnum var í erlendri mynt og hún hækkaði meira við var ráðið og ofan í allt var öllum verkum hætt. Það var ekki annað að gera en leggja nýja vörubílnum og fylgjast með skuldunum hækka.
Hann sagðist vera búinn að reyna allt. Bankinn vildi ekkert fyrir sig gera og það sama sögðu víst allir aðrir sem hann leitaði til. Ekki mátti frysta lánin og alls ekki fella niður hluta þeirra. Eina ráðið var að taka af honum heimilið. Það var orðið veðsett vegna vörubílsins. Hann hafði engin ráð.
Ég leiddi samtalið að öðru. Eða reyndi það. Jú, hann sagðist hraustur og hafa vilja til að vinna, vantaði bara vinnu.  En vonlaus barátta hans til að halda eigum sínum var honum efst í huga. Sagðist vera að missa sína veiku von um að það tækist.
Fyrir fáum dögum las ég í Mogganum að hann hefði verið jarðaður í kyrrþey.

Ótrúlegar breytingar

MBLLesendum dagblaðanna hefur fækkað óheyrilega. Eigendur þeirra hljóta að ætla að bregðast við með einhverjum hætti. Mogginn fellur, og undran engan. En lestur Fréttablaðsins mælist undir sextíuprósentum. Það getur ekki verið annað en valdið miklum áhyggjum.

En kannski er merkilegast að Mogginn rétt slefar yfir tuttugu prósent hjá fólki á aldrinum 20 til 40 ára. Sem aftur skemmir auglýsingamarkaðinn fyrir Mogganum. Verði ekki gripið til róttækra og vel heppnaðra aðgerða er ljóst að frekari vendingar verða á dagblöðunum.

1.137 prósent ársvextir

logogullBankinn færði ekki greiðslu til Securitas. Fékk kalt bréf frá hinu rómaða fyrirtæki. Og ekki nóg með það. Heldur sektar Securitas mig um sem nemur 1.137 prósent ársvexti. Ég neita og heimta að fá peninginn minn til baka. Enn er svarið nei.
Grunnupphæðin er 6.041 króna. Bankinn færði peninga á milli reikninga fimm dögum eftir eindaga, þrátt fyrir næga innistæðu, og nú á ég að tapa 941 krónu. Ef ég reikna þetta yfir á ár, þá er dagskostnaður rúmar 188 krónur, sem gerir 68.693 í eitt ár, sem samkvæmt mínum útreikningi, og ég held að sé réttur, 1.137 prósent ársvextir.
Sjálftaka af mínum reikningi gengur ekki. Kemur ekki til mála.