Monthly Archives: janúar 2010

Sprengisandur og hrunið

Meðal þess sem kemur fram í fréttaskýringu í Sprengisandi í fyrramálið er þetta:
„Staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur tekið miklum breytingum á síðustu misserum. Erlendar eignir og skuldir Íslendinga hafa margfaldast á aðeins örfáum árum, en erlendar skuldir hafa aukist talsvert meira en erlendar eignir. Hrein erlend staða þjóðarbúsins er því orðin mjög neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu og hrein skuld með því mesta sem dæmi eru um í heiminum. Á sama tíma og erlendar skuldir hafa hækkað hafa hreinar vaxta- og arðgreiðslur til útlanda aukist mikið og vega þungt í viðskiptahallanum.“
Þetta var skrifað í Peningamál Seðlabankans 2007. Skrifa aftur: “Hrein erlend staða þjóðarbúsins er því orðin mjög neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu og hrein skuld með því mesta sem dæmi eru um í heiminum.“ Þrátt fyrir þessa staðreynd var haldið áfram og allt fór á versta veg. Til að ræða það sem var gert, það sem var ekki gert og það sem hefði betur verið látið ógert koma Gylfi Zoega, Þórður Friðjónsson og Katrín Ólafsdóttir.

Kenningar

Koma Bjarni Ben og Sigmundur Davíð auðmjúkir til baka? Upp með sér eftir að hafa fengið að sitja fundi með þeim sem eru okkur erfiðastir? Eftir að hafa fengið að spila með, gera sig breiða verði aðrir menn og léttari í taumi. Þetta sagði ég af gamni við harðan sjálfstæðismann.
Sá var með allt aðra kenningu. Þeir noti ferðina og samveruna með Steingrími til að bjóða honum að verða forsætisráðherra í þriggja flokka stjórn, VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Hvað verður þá um Icesave, spurði ég. Icesave, það verður bara gengið frá því einsog að liggur fyrir ef ekki tekst að lækka vextina.

Davíð þéttir vörnina

Davíð Oddsson er að þétta vörnina. Af lestri leiðara dagsins er ljóst að hann býst við áfelli frá rannsóknarnefndinni og dregur því getu nefndarinnar í efa. Þeir verstu munu sleppa, segir Davíð. Taktur Davíðs, að draga allt í efa og sá tortryggni, verður helsta vopnið þeirra sem fjallað verður um í skýrslu rannsóknarnefndarinnar.
Þetta segir Davíð í lok leiðarans.

„Það eru töluverð tilþrif hjá rannsóknarmönnum þessa dagana. En meðal fólksins í landinu er nagandi efi. Kemur eitthvað raunverulega út úr þessu? Jú, það verða örugglega einhverjir, sem aldrei voru háir í lofti í sölum spillingarinnar, sem finna munu til tevatnsins. En þeir stórtækustu? Við skulum ekki búast við of miklu. Sporin hræða.“
Og aðeins ofar í sama leiðara segir Davíð:
„Dómstólar réðu ekki við Baugsmálin á sínum tíma og lítill vafi er á að sú niðurstaða varð til þess að óprúttnir peningamenn töldu sér alla vegi færa. Lögin væru fyrir litlu kallana. Þeir væru yfir þau hafnir. Meðal annars þess vegna fór sem fór.“
Sko, dómstólum kennt um að hafa hleypt Baugsmönnum lausum. Þar liggur ábyrgð, segir Davíð. Þetta verður takturinn. Það eru erfiðir tímar tortryggni, heiftar, átaka og stóryrða framundan. Því miður.

Guðmundur landsliðsþjálfari

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari var valinn maður ársins 2008 af Mannlífi. Af því tilefni tók ég við hann viðtal. Hér er bútur úr því viðtali og lesa má hversu mikla vinnu hann leggur á sig. Vegna þess treysti ég honum til að sigrast á öllum þrautum.

Hér er kaflinn:

Milli leikja tekur greiningarvinnan um átján klukkustundir. Við skoðum jafnvel þrjá leiki, okkar leik og leiki andstæðinganna, og klippum saman. Þetta gerum við aftur og aftur. Eftir leikina, oftast næturlangt, keyrum við leikina inn í tölvu og klippum til. Þegar þeir sem það gera hafa lokið sinni vinnu sest ég niður og skoða þetta aftur og aftur.“
Hvað ertu að skoða?
„Allar leikaðferðir andstæðinganna. Við flokkum þær niður og ég skoða allar hreyfingar leikmanna og ákveð svo síðan hvernig við ætlum að verjast þeim. Þetta ræðum síðan og eins og ég segi þá lögðum við óhemjuvinnu á okkur á Ólympíuleikunum. Ég hef verið spurður hvort ekki hafi verið gaman á Ólympíuleikunum. Í raun voru þetta þrælabúðir. Ég sá ekkert og gerði ekkert annað en að vinna. Fór aldrei út úr þorpinu. Var inni í íbúðinni, á æfingum eða leikjum. Ég gerði ekkert annað í þessar fjórar vikur. En með þessu vitum við um öll leikkerfi andstæðinganna, skoðum öll skot þeirra, skoðum allan varnarleik þeirra og markmenn. Allt sem skipti máli áttum við þannig á tölvutæku formi. Þetta náðum við að nýta og við héldum óvenjumarga fundi með leikmönnunum þar sem við fórum yfir þetta aftur og aftur og aftur og aftur. Ég veit að það getur verið erfitt að ná athygli allar á vídeófundum. Núna var þessu ekki þannig farið. Hver einasti leikmaður var með fulla athygli á hverjum einasta fundi. Þeir tóku þátt í að ræða hvernig við myndum leysa málin. Það átti sérstaklega við um vörnina en ákvarðanir um sóknina voru meira mínar. Mér tókst að virkja leikmennina í þessa vinnu og þeir voru þátttakendur í undirbúningi leikjanna. Auðvitað er það samt þjálfarans að eiga síðasta orðið. Frá leik til leiks spiluðum við ólíkar varnir. Þetta er óvenjulegt og ég hef ekki gert þetta áður. Við fórum út úr kassanum, gerðum hluti sem ég held að hafi aldrei áður verið gerðir. Þetta varð til þess að við komum andstæðingum okkar ítrekað á óvart. Ég vil nefna leiki gegn Pólverjum. Við lékum gegn þeim í Ólympíuforkeppni og töpuðum fyrir þeim. Síðan lékum við æfingaleik gegn þeim, skömmu fyrir Ólympíuleikanna, og vorum enn í vandræðum. Ég vissi að við yrðum að gera eitthvað óvænt gegn þeim á Ólympíuleikunum til að stoppa skytturnar þeirra. Eftir að hafa stúderað þá í þaula, allar leikaðferðir og allar hreyfingar, tókst okkur að hafa betur.“

Berin eru súr

Það er sárt að tapa. Í hverju sem er. Og sem einlægur stuðningsmaður West Ham er ég hundfúll að Eiður Smári hafi náð samkomulagi við mitt ágæta lið, mætt í læknisskoðun og allt virtist klappað og klárt.
Svo berast fréttir að hann sé að fara til Tottenham. Hann og pabbinn Arnór eru einsog útrásarvíkingar, svara ekki í síma þegar þeir geta ekki stjórnað umræðunni. Og ef þetta hér er rétt er ég meira en undrandi:  BBC segist enn fremur hafa heimildir fyrir því að Eiður sé búinn að vera í viðræðum við Tottenham í margar vikur.
Ja, hver skrambinn. Ef þetta er rétt á ég ekki orð. Hef verið mjög hrifinn af Eiði Smára sem fótboltamanni og finnst hann oft hafa verið til mikils sóma, bæði til orðs og æðis. En hef BBC hefur rétt fyrir sér þá hefur Eiður Smári leikið meira en tveimur skjöldum. Verið í samningsviðræðum við Tottenham meðan hann olli sárum vonbrigðum í Frakklandi, gert samkomulag við West Ham en var alltaf að fara til Tottenham.
Meðan á þessu stendur næst ekki í þá feðga. Kannski hugsa ég svona vegna þess að ég er sár að tapa keppninni um Eið Smára. West Ham er auðvitað mikið stærra og merkilegra en nokkur leikmaður. En ég veit að berin eru súr. Og vona að þessi leynd og fullyrðingar um tvöfeldni sé allt einn misskilningur.

Möppudýr

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari er vanhæfur til að fjalla um efnahagsundrið. Það varð að skipa sérstakan saksóknara til þeirra mála. Nú er hann vanhæfur, án þess að gera sér grein fyrr en eftirá, og Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra þurfti að skipa sérstakan saksóknara til að fjalla um mál mótmælandanna níu.
Vanhæfi ríkissaksóknarans er ekki bara pínlegt. Hún kostar greinilega fullt af peningum.
Kerfið er greinilega frekar fyrir kerfiskalla, en okkur hin. Væri annar mórall væri Valtýr farinn.

Traust umgjörð og góðar reglur

Þennan kafla má lesa heimasíðu á Seðlabanka Íslands:

„Á liðnum árum hafa stjórnvöld byggt upp trausta umgjörð laga, reglna og eftirlits með fjármálastarfsemi sem stenst samanburð við það sem best gerist í nágrannaríkjum. Þann árangur má m.a. sjá af úttektum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á stöðugleika íslenska fjármálakerfisins og umsögnum alþjóðlegra matsfyrirtækja. Í viðauka þessarar skýrslu er
vikið að samstarfi stjórnvalda um fjármálastöðugleika og viðlagamál.

Við eðlilegar aðstæður eru ekki líkur á erfiðleikum í starfsemi banka sem eru traustir og stýra lausafé og áhættu vel. Með fjárfestingu sinni erlendis hafa íslensku bankarnir breytt eðli sínu og dreift áhættu. Þeir hafa sótt á ný mið og skipa nú flokk fjölþjóðlegra banka. Samstæður þeirra eru með höfuðstöðvar á Íslandi og þaðan er stjórnað lausafjárstöðu og áhættu. Sú stjórnun er á ábyrgð eigenda bankanna og þeirra stjórnenda sem þeir ráða. Þeirra er að axla ábyrgð á rekstrinum og rísa undir áföllum sem verða kunna með sama hætti og þeir njóta ávinnings þegar vel gengur. Fjármálaáföll geta á hinn bóginn haft víðtækari afleiðingar. Þess vegna huga stjórnvöld á Íslandi sem annars staðar að viðbúnaði á fjármálamarkaði og gera opinskátt og opinberlega grein fyrir sjónarmiðum sínum.“

Birtist í Fjármálastöðugleika 2005.

Frábær Jónas

Jónas Kristjánsson er oftast góður. Þessi færsla er einstaklega fyndin, og eflaust raunsæ.

Sá ruglaði, sá siðblindi og sá lati

Vörn Steingríms Wernerssonar er, að hann sé svo ruglaður, að hann viti ekki neitt í sinn haus. Siðblindur bróðir hans hafi misnotað þessa aðstöðu til að valta yfir hann. Bróðirinn, Karl Wernersson, segir Þór Sigfússon vera sekan, hafa skrifað undir alla pappírana. Þór hafði þrjár milljónir á mánuði fyrir að vera í forstjóraleik. Segist ekki hafa nennt að lesa pappíra, sem lagðir voru fyrir hann. Þá leti hafi Karl notfært sér. Svipuð verður vörn Bjarna Benediktssonar flokksformanns. Það er upphafið að harmleik fyrir dómstólum um stuldinn á bótasjóði Sjóvá. Vörn Steingríms er líklegust til árangurs.

Kysi Gísla Martein

Byggi ég í Reykjavík kysi ég Gísla Martein í prófkjörinu. Júlíus Vífill, Þorbjörg Helga og Kjartan Magnússon hafi ekki greint frá rekstri síðasta prófkjörs og koma því ekki til greina. Þá er valið milli Gísla Marteins og Geirs Sveinssonar.
Geir er eflaust fínn, en tónninn hjá Gísla Marteini um breytt skipulag eru fínar. Að bæta stöðu hjólreiða er eitt það brýnasta af öllu. Auðvitað á Gísli Marteinn að gjalda Endiborgarvistarinnar og þess að hafa verið á launum frá skattgreiðendum meðan hann var í útivistinni.
Reyndi að ferðast um á hjóli, en gloppurnar í kerfinu eru alltof margar til að það sé hægt. Það þarf að finna leiðir til að koma fleiri hjólum með strætó, grindar utan á vagnana eða einhverja aðra leið.
En semsagt, mér finnst Gísli Martein ekki vera steyptur í sama mót og allir hinir.  Þrátt fyrir Edinborgardvölina kysi ég hann í 2. sætið,

Risarækjurnar

Átti samtal við Alfreð Þorsteinsson. Hann vildi ekki gera mikið úr glannaakstri arftaka sinna í Orkuveitunni. Eftir að Alfreð hætti stjórnarformennskunni hafa erlendar skuldir Orkuveitunnar margfaldast, mest á þeim sem Guðlaugur Þór Þórðarson var stjórnarformaður.
Alfreð var umdeildur og sagður spilltur. Bygging Orkuveituhússins var talið til og ekki síður tilraun með risarækjur. Sem kostaði víst um tíu milljónir. Slíkt vekti ekki athygli núna.
Reyndar þyrfti að skoða betur hvernig farið hefur verið með fjárhag þessa ágæta fyrirtækis. Kannski gerir borgin það, held samt ekki þar sem ljóst er að borgarfulltrúar hafa mjólkað þar marga spena, og verða því seint viljugir til að upplýsa um eigin græðgi. Þá er spurning hvort rannsóknarfjölmiðlar, ef þeir eru í raun til, kíki á hvað hefur gerst innanhúss hjá Orkuveitunni.