Category Archives: Almennt

Óskar Hrafn á hliðarlínunni

Meðal KR-inga er vilji til þess að Óskar Hrafn Þorvaldsson, fyrrverandi fréttastjóri á Stöð 2 og fyrrum leikmaður KR, taki við þjálfun KR. Óskar Hrafn hefur ekki næg réttindi til að taka við, það er að segja ef Logi Ólafsson verður rekinn. Hætti Logi hins vegar má Óskar taka við.
Óskar ætlar að mennta sig í haust og öðlast full réttindi. Hann var áður þjálfari 2. flokks með fínasta árangri.

Mikið högg

Formælandi peningaleigufyrirtækis segir dóm Hæstaréttar vera mikið högg. Sennilega er svo. En það er víst að það er ekki fyrsta höggið. Það hafa margir mátt þola högg vegna þessa, og eflaust hlutfallslega harðara og þyngra en það högg sem hinir brotlegu fá núna.
Ég þekki til fjölskyldu sem gat ekki lengur haldið bílnum. Hann var tekinn á afar lágu verði og eftir stóð milljóna skuld við peningaleigufyrirtækið. Eftir að hafa jafnað sig athugaði fólkið málið betur. Í ljós kom að peningaleigufyrirtækið seldi bílinn á langtum hærra verð en sagði í uppgjörinu, fjölskyldan varð að auki að borga fyrir viðgerð, og á hana var lagður virðisaukaskattur. Eftir einfalda leit fannst sá sem hafði keypt bílinn. Viðgerð? Nei, alls ekki. Kaupandinn hafði sjálfur látið gera við það sem peningaleigufyrirtækið hafði rukkað fyrrverandi eiganda fyrir með virðisaukaskatti og öllu klabbinu.
Þetta var þungt högg. Og ætli fari svo að þetta fólk geti ekki sótt rétt sinn þar sem peningaleigufyrirtækið verði farið, flúið eða dáið.
Steingrímur segir að ræða þurfi dóminn og afleiðingar hans í ríkisstjórn. Fari það hábölvað ef á að sýna gerendum glæpsins skilning en ekki þolendunum hans.

Lauslegur útreikningur

Það þarf að veita nýjum valdhöfum í Reykjavík aðhald. Þar er þáttur fjölmiðla veigamikill. Ríkisfréttastofan reyndi í gær, en skilaði af sér vondri frétt. Páll sjálfur las og tilkynnti að lauslegur útreikningur fréttastofu sýndi að það myndi kosta milljarða að uppfylla stefnumál nýja meirihlutans og gaf boltann yfir á Svavar Halldórsson. Hann endurtók, aðeins ítarlegra, það sem útvarpsstjórinn hafði sagt.
Það var engin niðurstaða í fréttinni, bara nokkrir milljarðar, ekkert hvernig þetta var reiknað, hvað eitt og annað myndi kosta, bara ekkert. RÚV bauð upp á reikningsdæmi þar sem ekki var sagt hvað var reiknað, hvernig og enga útkomu.
Þetta var einhver slappast frétt sem ég hef séð. Man ekki hvort þetta var fyrsta eða önnur frétt.
Það þarf að gera betur.

Bindast samtökum

Flestir þeirra þingmanna sem voru kjörnir í síðustu kosningum, það er vorið 2009, eru ekki sáttir um hvernig störfum á  þingi er hagað. Vonbrigðin þeirra er mikil.
Ásmundur Einar Daðason upplýsti, á Sprengisandi á Bylgjunni í gær, að nýir þingmenn eru að tala sig saman um að mynda félagsskap, þvert á flokka, til að freista þess að fá þá eldri til að láta af þrætuáráttunni og gamaldags vinnubrögðum.
Mynda einhverskonar andóf innan þings vegna þeirra vinnubragða sem þar hafa tíðkast, og eru enn ráðandi.

Eitrað fyrir Árna Johnsen

Hitti Árna Johnsen og sá að hann var einstaklega bólgin á handarbökunum. Spurði hvort hann hefði slegið einhvern og bólgnað. Þingmaðurinn neitaði. Var þögull. Ég gekk á hann. Samt ekki bókstaflega. Loks kom skýringin. Árni sagði að eitrað hafi verið fyrir sér. „Menn þurfa ekki að vera í Úkraínu til að þurfa að þola þess háttar,“ sagði Árni.
Sagði lífsbjörg sína vera þá að hann hafi borðað minna af þeim mat sem óþokkarnir eitruðu en efni stóðu til. „Finns þetta bara ekki gott,“ svaraði Árni og varð svo þögull. Meira veit ég ekki, en sem betur fer nær þessi hressi og skemmtilegi lífskúnstner sér að fullu.

Allskonar fyrir aumingja

Að venju hitti ég fína félaga í KR í hádeginu í dag, svo er alla fimmtudaga. Vonbrigðin með liðið okkar leyndi sér ekki. Menn voru daprir. Einhver sagði leikmenn og þjálfara vera aumingja, að geta ekki betur.
Allir voru sammála um að allt sé gert til að létta leikmönnum og þjálfurum lífið. Fínasta aðstaða, margir áhorfendur, fín laun, mikill stuðningur og allt það. Niðurstaðan var því sú að KR geri allskonar fyrir aumingja.

Vantar bíla

Bílasali sagði mér að það vanti margar tegundir bíla og barist sé um suma þeirra. Bílaleigur hafa keypt til sín eða leigt nánast alla bestu notuðu bílana. Svo mikil er þörfin fyrir bíla að reynt er að fá fólk sem á að skila af sér rekstrarleigubílum í sumar, til að skila bílunum fyrr.
Þetta sýnir að í haust á fólk að geta gert góð kaup, þegar bílarnir koma aftur á bílasölurnar. En í dag er fátt verra en að reyna að kaupa nýlegan bíl. Ef hann finnst, er verðið sennilega alltof hátt.

Þurrt

Tek eftir á göngum hversu þurr jörðin er. Mýrlendi er þurrt, lækir vatnslausir og meira að segja er Kaldá nánast vatnslaus. Eins sér á Rauðavatni.
Hef ekki rannsakað eitt né neitt né spurst fyrir. Sé bara að jörðin er mjög þurr og þegar öskureykið bætist við minnir þetta helst á göngu við Miðjarðarhafið. Þurrt, ryk og endalaust góðviðri.

Verðandi borgarstjóri

Jón Gnarr, verðandi borgarstjóri í Reykjavik, verður meðal gesta á Sprengisandi á Bylgjunni á eftir. Margir fleiri gestir koma. Rætt verður um nýsköpun, efnahagsmál, stjórnmál og heitustu fréttirnar.

Morgundagurinn

Ég var til sjós hér áður fyrr. Hafði gaman af mörgum skipsfélögum og sumt sem ég heyrði man ég enn. Hér er ein sjóarasaga.
Það var bræla, vont veður og tvísýnt um hvort yrði róið. Þetta var á þeim árum sem bátar voru opnir, lítið eða ekkert skjól á dekkinu, og því gat verið kulsamt að standa daglangt á vetrarvertíðinni þegar var kalt og hvass vindur. Aftur að sögunni.
Það var um borð í venjulegum vertíðarbát sem sagan gerðist. Sem fyrr segir var hvasst, það heyrðist í vindinum og þó báturinn væri bundinn við bryggju hreyfðist hann nóg til að gera meðalfólk sjóveikt. Allir voru upp í brú, stýrishúsi. Þeir verkkvíðnustu til að fylgjast með hvort aðrir bátar færu á sjó, því það var og er eflaust enn, staðreynd að þegar tvísýnt var um veður áttu skipstjórar, sem samt voru ekki vissir um hvort þeir áttu að róa, til með að fara á sjó eftir að sá fyrsti réri. Eldri og reyndari og þeir óreyndu stóðu í einum hnapp í brúnni.
Góðri klukkustund eftir venjulegan róðratíma sást hreyfing. Einn bátanna var að fara á sjó. Það var janúar og það var kalt og það var hvasst. Eftir að það var augljóst að bátur væri að fara á sjó, sagði skipstjórinn: „Sleppa.“ Sem þýðir að það átti að róa.
Einn þeirra óreyndu og sennilega sá verkkvíðnasti heyrðist tauta: „Djöfull, þegar ein belja mígur fara allir á sjó.“