Monthly Archives: janúar 2009

Jón & Jón

Jón Daníelsson og Jón Baldvin Hannibalsson verða gestir á Sprengisandi á Bylgjunni í fyrramálið. Þeir ræða stöðu samfélagsins, skuldirnar, afborganirnar, vextina, möguleikana, krónuna og allt hitt sem okkur vantar að vita.

Áður en þeir byrja mun Ágúst Þór Árnason segja okkur hvað stjórnlagaþing er og hvers er að vænta af því.

Í lok þáttarins koma Árni M. Mathiesen og Kristján Þór Júlíusson. Flokkurinn þeirra er í vanda og viðskilnaðurinn er ekki einsog þeir hefðu kosið. Ef Ögmundur Jónasson hefur tíma verður hann í kallfæri, en á morgun verður hann ráðherra í fyrsta sinn.

Hægt er að hlusta á bylgjan.is – en eins eru þar vistuð öll samtöl úr þáttunum og þess vegna er hægt að hlusta á einfaldan hátt á eldra efni.

Mogginn að stöðvast

Heimildir segja að rekstur Morgunblaðsins sé á allra síðasta snúningi og ekki sé langt að bíða þess að rof komi í útgáfu blaðsins. Starfsmenn áttu allt eins von á því að síðastliðinn föstudagur kynni að vera síðasti starfsdagurinn. Eymdarhljóðið mun vera það sterkt að búist er við endalokum hvern dag.

Verið er að reyna að selja Moggann, eða réttara sagt Árvakur, útgáfufélags Moggans og Landsprent, sem er heitið á prentsmiðjunni. Gangi sala ekki í gegn á allra næstu dögum segja heimildir að endalokin séu framundan.

Meiri breytingar hjá Framsókn

Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrum félagsmálaráðherra, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til Alþingis í komandi kosningum. Guðmundur Steingrímsson hefur ákveðið að sækjast eftir fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í kjördæmi Magnúsar, norðvesturkjördæmi.

Magnús hefur verið ágætlega vinsæll í kjördæminu. Hann er Ólsari en var sveitarstjóri í Grundarfirði áður en hann settist á þing. Hann er einn þeirra Framsóknarmanna sem hefur ekki tekið þátt í illdeilum innan flokksins og kannski þess vegna kemur ákvörðun hans á óvart.

Magnús segist ekki viss um hvað taki við hjá honum. „Ég leita mér bara að vinnu,“ sagði Magnús.

Hatur, ótti og Framsókn

Vel má vera að rétt sé hjá Geir H. Haarde að aðaldrifkraftur Samfylkingarinnar sé hatur í garð Davíðs Oddssonar. Nær er samt að halda að Geir H. Haarde og Sjálfstæðisflokkurinn stjórnist af ótta við þennan sama mann.

Frá því að þáverandi ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ákvað að hafa hér verðbólgumarkmið og fljótandi krónu á árinu 2001 hefur ekkert gengið eftir. Öll markmið eru og hafa verið fjarri því að nást. Davíð Oddsson og Geir Haarde hafa verið í aðalhlutverkum í þessu gangvirki allan tímann. Þrátt fyrir greinilegar hrakfarir Davíðs Oddssonar í störfum sínum virðist sem hann ráði því sem hann vill ráða. Hann stjórnar enn. Vegna hans er hlegið af okkur Íslendingum í alþjóðasamfélaginu. Samt hefur hann öll tök á Geir og á Sjálfstæðisflokknum. Merkilegt.

Framsóknarflokkurinn er á bjargbrúninni. Fór vel af stað eftir forystuskiptin en virðist vera að ofmetnast eftir jákvæða umfjöllun eftir flokksþingið og fylgisaukningu. Flokkurinn bauð upp á minnihlutastjórn og ef hann svo kemur í veg fyrir að hún verði mynduð hefði betur verið heima setið en af stað farið. Það er helst framtíð Framsóknarflokksins sem nú er í hættu. Þjóðin mun þola stjórnleysi eitthvað lengur, hefur hvort eð er búið við það áður, Samfylkingin og VG þola biðina betur en Framsókn.

Framsókn virkar einsog foreldri sem leyfir unglingi að fara á fyrsta ballið. Samkomulag er gert um að unglingurinn eigi að koma heim á réttum tíma, ekki drekka áfengi og allt virðist klappað og klárt en þegar kemur að ballinu afræður framsóknarmaddaman að fara með á ballið. Vantraustið er algjört. Þetta er háskaleikur Framsóknarflokksins. Minnihlutastjórn er háð þinginu og það færir henni ekki alræðisvald einsog ríkisstjórnir hér hafa haft. Þess vegna mun þingið hafa meira að segja en áður.

Framtíð Framsóknarflokksins ræðs af því hvernig og hversu hratt Sigmundi D. Gunnlaugssyni tekst að sigla þessu máli í höfn. Hann kastaði boltanum á loft og er nú með sjóðandi heita kartöflu í höndunum.

Framsókn hreinsar til

Fjarri er að Framsóknarflokkurinn hafi lokið endurnýjuninni sem hófst svo eftirminnilega á flokksþinginu þegar öll forysta flokksins var endurnýjuð. Stefnt er að nýir leiðtogar verði í öllum kjördæmum. Það þýðir að fyrrum ráðherrar og afhrifafólk í flokknum; Valgerður Sverrisdóttir, Siv Friðleifsdóttir og Magnús Stefánsson munu eiga mjög erfitt framundan til að tryggja sér áframhaldandi þingsetu.

Birkir Jón Jónsson, sem var kjörinn varaformaður flokksins, er líklegri en Höskuldur Þór Þórhallsson formannsframbjóðandi til að leiða í norðausturkjördæmi. Þó getur brugðið til beggja vona þar. En það þýðir að Valgerður Sverrisdóttir mun eiga erfitt í kjördæminu. En þar sem flokkurinn hefur mikið fylgi í þessu kjördæmi er ekki útilokað að hún komist aftur á þing langi hana til. En hún verður ekki leiðtogi flokksins í kjördæminu.

Siv Friðleifsdóttir sem er eini þingmaður flokksins á suðvesturhorninu verður fjarri sjálfkjörin í efsta sæti í Kraganum. Þeir sem rætt var við eru ekki vissir hver fer gegn henni. Samúel Örn Erlingsson, sem er varamaður Sivjar, er líklegur. Eftir ósigur Páls Magnússonar í formannskjörinu er hann ekki líklegur. Hvaða frambjóðendur er líklegir skýrist á allra næstu dögum.

Magnús Stefánsson þarf að takast á við Guðmund Steingrímsson. Það verður á brattann að sækja hjá Magnúsi. Guðmundur er náinn forystu flokksins. Trúlegast er að Guðmundur hafi betur og verði leiðtogi Framsóknarflokksins í norðvesturkjördæmi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verður í efsta sæti í öðru Reykjavíkurkjördæminu og af viðmælendum má ætla að annað hvort Helga Sigrún Harðardóttir eða Eygló Harðardóttir, nýkjörin ritari flokksins, leiði í hinu í Reykjavíkurkjördæminu. Þær eru núna þingmenn Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi, en þær tóku sæti á Alþingi þegar Bjarni Harðarson og Guðni Ágústsson hættu. Þær hafa komið nokkuð sterkar inn og hafa klárlega sannað sig sem verðugir frambjóðendur.

Hreinsunum í Framsókn er ekki lokið og innan flokksins er mikill vilji til að loka á fortíðina eins kröftugt og hugsast getur.

Biðla til Davíðs

Fullyrt er að unnið sé að fá Davíð Oddsson til að gefa kost á sér formaður Sjálfsæðisflokksins á komandi landsfundi. „Sá sem er óvinsæll í dag getur orðið vinsæll á morgun,“ sagði annar þeirra sjálfstæðismanna sem rætt var við vegna þessa möguleika.

Vitað er að Davíð hefur opnað möguleika á að koma aftur í stjórnmálin. Sjálfur hefur hann sagt það í viðtali við danskt blað og fyrir frægan Kastljósþátt var uppleggið það að hann sýndi þar að hann væri það sem þjóðin þyrfti helst á að halda.

Davíðssinnar sjá fram á að ekki verði átakakosningar um næsta formann gefi Davíð kost á sér. Hann yrði sjálfkjörinn.

Sjálfráða þingmenn

Í ljósi þess að skammt er til kosninga sendi ég fyrirspurn til forseta Alþingis, Sturlu Böðvarssonar, og skrifstofustjóra þingsins, Helga Bernódussonar. Ég vildi fá að vita hvernig þingmenn stunda vinnuna sína, hversu vel þeir mæta á þingfundi og nefndarfundi.

Ekkert er fylgst með ástundun þingmanna. Þeim er í sjálfsvald sett hvernig þeir rækja skyldur sínar. Í svari þingsins segir meðal annars: „Það er aldrei gerð grein fyrir því, né um það beðið, af hvaða ástæðum fjarvistin er. Það er jafnan litið svo á að það sé í hendi þingmannsins hvernig hann hagar fundarsókn sinni - með hliðsjón af þeirri lagaskyldu sem á honum hvílir.“

Hér er fyrirspurnin:

Beiðni um upplýsingar

 

Undirritaður óskar eftir eftirfarandi upplýsingum.

1.       Fjarvistir þingmanna frá þingfundum á þinginu sem starfaði frá október og til jóla.

2.       Hvaða skýringar eru gefnar á fjarvistum.

3.       Hvaða þingmenn og í hvaða tilfellum og hversu oft gefa þingmenn engar skýringar á fjarveru sinni.

4.       Hversu oft voru  varaþingmenn kallaðir til starfa og hversu lengi starfið hver og einn þeirra og í stað hvers sátu varaþingmenn á þingi og hver var ástæða þess að kalla þurfti til varaþingmann.

5.       Hver var kostnaðurinn af setu varaþingmanna á haustþinginu.

6.       Fjarvistir þingmanna frá nefndarfundum á þinginu sem starfaði frá október og til jóla.

7.       Hvaða skýringar eru gefnar á fjarvistum.

8.       Hvaða þingmenn og í hvaða tilfellum og hversu oft gefa þingmenn engar skýringar á fjarveru sinni.

9.       Hvaða reglur eða lög segja til um mætingaskyldu þingmanna og hvaða takmarkanir eru gerðar um fjarvistir þeirra.

Svar barst fáum dögum síðar:

Sæll, Sigurjón,
forseti Alþingis, Sturla Böðvarsson, hefur beðið mig að svara skeyti þínu um fjarvistir þingmanna o.fl.
Í 53. gr. þingskapa segir að "skylt [sé] þingmönnum að sækja alla þingfundi nema nauðsyn banni". Þótt síðar í greininni segi að forseti meti nauðsynina er fyrir því mjög löng þingvenja (sennilega nær aldarlöng) að matið liggi hjá þingmönnum sjálfum. Langalgengast er að þingmenn séu fjarverandi vegna fundahalda annars staðar, annaðhvort í kjördæmi eða þá erlendis. Framkvæmdin er sú að þingmaður lætur skrifstofuna vita um fjarvistir sínar og er hann þá settur á "fjarvistarskrá" fyrir þann dag. Fjarvistarskráin var lengi lesin í upphafi fundar, en því var hætt fyrir allmörgum árum. Fjarvistarskráin er hins vegar fyrirliggjandi á skrifstofunni og enn fremur prentuð í Alþingistíðindum (og birtist m.a. í vef-útgáfunni).
Það er aldrei gerð grein fyrir því, né um það beðið, af hvaða ástæðum fjarvistin er. Það er jafnan litið svo á að það sé í hendi þingmannsins hvernig hann hagar fundarsókn sinni - með hliðsjón af þeirri lagaskyldu sem á honum hvílir. Þetta kom hvað skýrast í ljós þegar Alþingi samþykkti fyrir meira en tveim áratugum að kjörinn alþingismaður léti varaþingmann sitja fyrir sig án þess að fyrir því væru venjulegar ástæður, svo sem veikindi, störf erlendis o.fl., heldur aðeins pólitískar ástæður. - En hafa verður í huga að þingmaðurinn fer með pólitískt umboð sem hann hefur fengið í kosningum og ber fyrst og fremst sjálfur ábyrgð á störfum sínum.
Það er útbreitt viðhorf, ekki aðeins hér á landi heldur víðar, að störf þingmanna fara aðeins fram í þingsal; og þeir sem eru ekki þar meðan þingfundur stendur séu að svíkjast um í vinnunni. En þessu fer fjarri; fjarvistir eru hins vegar enn aðeins skráðar og birtar að því er þingfundi varðar, en ekki á öðrum starfssviðum þingmannsins.
Nánari upplýsingar um þetta má finna í Alþingtíðindum. Um fjarvistir frá þingnefndafundum má m.a. finna í nefndarálitum (sem birt eru á vef þingsins).
Alþingsmaður á rétt á því að lögum að kalla inn varaþingmann fyrir sig að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Er það aðallega vegna fjarvista erlendis í opinberum erindum (langoftast erindum Alþingis) eða vegna veikinda, fæðingarorlofs o.þ.h. Réttara væri þó að orða það svo þingmaðurinn geti í þessum tilfellum "tekið inn varamann" eins og það er kallað en jafnframt haldið launum (gildir þó ekki um fæðingarorlof). Varaþingmaðurinn situr þá a.m.k. tvær vikur. Fjarvistirnar hafa síðan sl. rúman áratug þurft að vara samfellt í 5 þingfundadaga sem í raun merkir meira en eina viku (yfirleitt 4 fundadagar í viku). Nú hefur forsætisnefnd samþykkt að á árinu 2009 sé þetta skilyrði þrengt og fjarvistir þurfi að vara a.m.k. 8 þingfundadaga (yfirleitt fullar tvær þingvikur) til þess að aðalmaður haldi þingfararkaupi á meðan.
Ætla má að kostnaður við þingsetu varamanns í hálfan mánuð sé meira en 300 þús. kr. (með öllum kostnaði; þó breytilegt eftir kjördæmum). Upplýsingar um þingsetu varamanna er að finna í Alþingistíðindum sem eru á netinu.
Á hverju þingi gerist það að aðalmaður hverfur af þingi "af persónulegum ástæðum" eins og það er kallað og kemur þá varaþingmaður í hans stað. Aðalmaður missir þá þingfararkaups og annarra greiðslna á meðan hann er utan þings. Alþingi hefur því ekki beinan kostnað af því.

Vona að þetta svari spurningum þínum.
Með kveðju,
Helgi Bernódusson,
skrifstofustjóri Alþingis.

Mildi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins

Þorvaldur Gylfason prófessor sagðist, á Sprengisandi um síðustu helgi, vera sáttur við efnahagsáætlun ríkisstjórnarinnar. „Svo langt sem hún nær. Þorvaldur segir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi leyft hér talsverðan halla á ríkisbúskapnum á þessu ári. Jafnvel til að komast hjá þeirri miklu gagnrýni sem hann fékk í Asíu þegar strax var ráðist í harkalegar ráðstafanir.

„Sumum finnst að þeir hefðu átt að leggja þyngri byrðar á þjóðina strax. Þegar hann hefur gert það hefur hann verið gagnrýndur. Þess vegna fóru þeir hina mildari leið að leyfa umtalsverðan halla á þessu ári og vindan síðan ofan honum á árinu á eftir.“

Hér er enn staðfest að okkar bíður verulega meiri vandi en nú er. Stjórnmálabaráttan verður að snúast um hvað verður gert það sem lifir þessa árs og á því næsta.

Lítil lygasaga

Heyrði ótrúlega lygasögu. Hún var á þá leið að þrýst væri á skilanefnd Kaupþings um að afskrifa um 500 milljarða skuldir. Skuldir sem Exista og Kjalar, félag Ólafs Ólafssonar, eiga að borga. Sagan hermir að skilanefndin hafi sagt nei. Og bætt við að ef það ætti að gera færi betur að ríkisstjórnin tæki ákvörðun um það.

Auðvitað er þetta lygasaga. Stemmir engan veginn við siðferðið á Íslandi. Kannski myndi svona nokkuð gerast í öðrum löndum. En ekki á Íslandi.

Stóru bitarnir og tengslin

Spennan er meðal lögmanna um hverjir fá feitu bitanna þegar skipa þarf skiptastjóra með gjaldþrota fyrirtækjum. Eins og dæmin sanna ráða þeir miklu þegar þeir selja búin, jafnvel aftur til þeirra sem ráku þau í þrot. Þannig að eigendurnir fá fyrirtækin til baka á lágu verði en sleppa við skuldirnar.

Í fámennissamfélaginu okkar, fríríkinu Íslandi, eru tengsl viðskiptalífsins og lögmanna oft hrópandi. Eins tengjast stærstu lögmannsstofurnar líka stjórnmálaflokkunum.

Lógos er einn þessara stofa. Lógos var með skrifstofur í London og Kaupmannahöfn þar sem unnið var í þágu útrásarvíkinga. Þar fer fremstur Gunnar Sturluson, sonur Sturlu Böðvarssonar þingforseta. Gunnar er núna aðstoðarmaður Stoða í greiðslustöðvuninni. Fullyrt er að stofan hafi góð tengsl við stjórnsýsluna.

Jakob Möller verjandi Tryggva Jónssonar í Baugsmálinu. Hann hefur góð tengsl í stjórnsýsluna gegnum Sjálfstæðisflokkinn.

Árni Vilhjálmsson hefur annast samninga, fyrir erlenda fjárfesta, varðandi stóriðjur hér á landi. Árni er sonur Vilhjálms Árnasonar sem var aðallögmaður Íslenskra aðalverktaka. Góð tengsl í stjórnsýsluna gegnum Framsóknarflokkinn.

Othar Petersen er helsti lögmaður Íslenskra aðalverktaka. Tengdur Sjálfstæðisflokknum.

Lex lögmannastofa hefur þjónað bæði bönkum og útrásarvíkingum. Þar fer fremstur Helgi Jóhannesson. Helgi hefur unnið mikið fyrir Baug og tengd fyrirtæki og bar síðast skiptastjóri BT.

Kristín Edwald hefur náin tengsl við Kristínu Jóhannesdóttur og var í stjórn gamla Glitnis. Vinnur nú fyrir Sjóvá. Tengist Sjálfstæðisflokknum.

Jóhannes Sigurðsson er nú sérfræðingur hjá Háskólanum í Reykjavík, en hefur lengst af unnið fyrir Wernersbræður.

Aðalsteinn Jónsson var aðallögmaður gamla Glitnis. Vann einnig hjá Straumi. Hann mun hafa mikil tengsl við Lex þar sem faðir hans, Jónas Aðalsteinsson er meðal helstu eigenda stofunnar.

Bjarni Benediktsson og Sigurður Kári Kristjánsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, störfuðu á Lex áður en þeir snéru sér að stjórnmálunum.

Karl Axelsson fyrrum sameigandi Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Hefur unnið talsvert fyrir stjórnvöld, einkum meðan Davíð Oddsson var þeim megin borðsins.

Þórunn Guðmundsdóttir er eða hefur verið persónulegur ráðgjafi Björgólfs Guðmundssonar.

Fulltingi lögmannsstofa hefur unnið mikið fyrir Finn Ingólfsson, Þórólf Gíslason, Helga S. Guðmundsson, Ólaf Ólafsson, Existu og fleiri félög sem tengjast þessum hópi.

Kristinn Hallgrímsson er fremstur á þessari stofu. Meðal félaga sem hann vinnur fyrir eru Gift og Goði.

Óðinn Elíasson er félagi Finns Ingólfssonar í hestamennsku ásamt Þorgeiri Örlygssyni, dómara við Eftadómstólinn í Lúxemborg, sem er og vinur Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis og nefndarmann í rannsóknarnefnd Alþingis. Sagt er að Óðinn reki einnig innheimtufyrirtæki sem rukkar fyrir VÍS.

Mörkin lögmannstofa, en þar er fyrirliði Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og er einnig sagður lögmaður Ögmundar Jónassonar alþingismanns. Gestur er sagður tengdur Framsóknarflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum.Systir hans er Helga Jónsdóttir, bæjarstjóri í Neskaupstað, og fyrrum einn nánasti samstarfsmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Gestur stofnaði stofuna með Hallgrími Gestssyni, syni Geirs Hallgrímssonar, fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins og ráðherra.

Einar Sverrisson hefur unnið mikið fyrir Jóhannes Jónsson og Baug.

Landslög lögmannsstofa. Jón Sveinsson var aðalmaður þar. Hann var áður aðstoðarmaður Steingríms Hermannssonar og hefur unnið mikið fyrir flokkinn. Hann var formaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu og seldi sjálfum sér Íslenska aðalverktaka sem Hæstiréttur hefur dæmt ólögmæta.

Á stofunni starfa einnig Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Garðar Garðarsson. Vilhjálmur hefur tengst Samfylkingunni og Garðar, sem er meðal annars formaður kjaranefndar, er sagður náinn Sjálfstæðisflokki.

Lögfræðiskrifstofa Reykjavíkur er nefnd til. Ólafur Garðarsson er skiptastjóri gamla Kaupþings, Steinar Guðgeirsson er í skilaefnd banka.

Guðrún Brynleifsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins á Seltjarnarnesi. Er sögð vera vinkona Þorgerðar Erlendsdóttur héraðsdómara sem mun meðal annars úthluta þrotabúum til lögmanna.