Monthly Archives: desember 2009

Sækið Svavar

Eftir að hafa hlustað á Árna Þór Sigurðsson og Siv Friðleifsdóttur finnst mér eitt koma til greina. Það á að sækja Svavar Gestsson og færa hann fyrir fjárlaganefnd. Þetta er meira mál en svo að hann hafi sjálfdæmi um hvort hann sendi frá sér yfirlýsingu eða ekki, einsog Árni Þór nefndi. Sækið manninn.
Ef minnsti grunur er um að Svavar hafi blekkt utanríkisráðherra þá er málið alvarlegt og það verður að finna lausnina á því. Fyrsta skrefið er að sækja manninn og færa hann fyrir þingnefndina. Meðan er ekkert hægt að gera.
Ég sé í anda hver viðbrögð sumra væru snéri málið á hinn kantinn, þann hægri í samfélaginu. Þá væri ekki tala um storm í vatnsglasi.

Davíðsskattar

Getur verið að Jóhanna Sigurðardóttir hafi reiknað rétt þegar hún segir að allar skattahækkanir dugi naumast fyrir vöxtum og verðbótum vegna skussaskapar Davíðs í Seðlabankanum? Ef rétt er þá er svakalegt að hugsa til þess hvað það kostar að troða úrsérgengnum stjórnmálamönnum í þýðingarmikil embætti. Fjandans vesen.
Reiknideildin i Hádegismóum er eflaust upptekin í dag . Og á morgun skýrir Mogginn frá annarri niðurstöðu. Svo má víst telja að hnýtt verði í Jóhönnu í Staksteinum. Það sem hörðust fylgismenn Davíðs kalla kommaskatta eru á eftir allt saman Davíðsskattar. Þar til á morgun. Mogginn mun eiga síðasta orðið.

Séra Gunnlaugur og gestrisnin

„Ég er gestrisinn maður og alinn upp við góða mannasiði,“ segir séra Gunnlaugur Stefánsson, formaður Flugráðs, sem bauð ráðsmönnum og öðrum gestum í veglegt jólahlaðborð í Perlunni síðastliðið fimmtudagskvöld. Þetta er úr Fréttablaðinu í dag.
Það er mannkostur að vera gestrisinn. En það er kúkalegt að vera það á annarra kostnað. Auðvitað borgaði ekki Gunnlaugur sjálfur þessa tuttugu manna veislu. Hann bauð, við borgum. Þetta er fólkið sem við verðum að losna við. Formaðurinn upplýsir að nefndarmenn fái 300 þúsund á ári. Okkur hinum þykir það nóg.

Kristján Möller verður að gera breytingar á flugráði. Strax.

Hvað gerir Mogginn?

Eftir að hafa lesið Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um Icesave er spennandi að bíða þar til Mogginn kemur í fyrramálið. Blaðið þarf að svara þessum kafla:
„Fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra höfðu báðir sagt við bresk stjórnvöld að Ísland myndi reyna að ábyrgjast lágmarksgreiðslur á innistæðureikningum. Seðlabankastjóri sagði aftur á móti í Kastljósi hinn 7. október að Ísland myndi hundsa með öllu erlendar skuldir bankanna. Í kjölfarið gaf forsætisráðherra út yfirlýsingu þann 8. október þar sem hann ítrekaði að ríkisstjórnin myndi styðja Tryggingasjóð innistæðueigenda við öflun nægilegs fjár. Yfirlýsingar seðlabankastjóra birtust hins vegar orðréttar í víðlesnum blöðum svo sem Wall Street Journal og víðar og höfðu víðtæk neikvæð áhrif og sköpuðu vantraust á að hjá íslenskum stjórnvöldum væri raunverulegur vilji til að leysa mál innistæðueigenda í erlendum útibúum bankanna.“
Og svo er eitt enn sem verður gaman að sjá hvernig Mogginn tekur á:
„Ekki bætti úr skák að fréttir voru mjög neikvæðar af lánlausum erindum Seðlabanka Íslands til bandaríska seðlabankans og rússneskra stjórnvalda en í Rússlandi kom það m.a. fram hjá fulltrúum Seðlabankans að lán frá Rússum gæti komið í stað aðstoðar AGS.“
Mogginn má ekki láta þessu ósvarað. Það væri stílbrot.

Frekjur

Kemst ekki yfir yfirganginn í formanni Læknafélagsins. Hún sagði á Bylgjunni að læknar muni streyma til útlanda og koma aftur þegar þrengingarnar verða að baki. Þvílíkt fjandans hugarfar.
Niðurstaða formannsins er sem sagt sú að læknar eigi ekki að taka til hendinni, ekki sætta sig við verri kjör, ekki vera með í endurreisninni, ekki vera þátttakendur í því samfélagi sem menntaði þá, ól þá og kom þeim áfram.
Margir hafa flutt úr landi þar sem þeir hafa ekki vinnu. Svo er ekki með lækna. Þá vantar ekki vinnu. Andinn þeirra á milli, samkvæmt formanninum, er sá að taka ekki þátt í neinu. En þeir eru tilbúnir að koma aftur þegar við hin höfum endurreist samfélagið. Lengra ná heilindin ekki, allavega ekki hjá formanni Læknafélagsins.

Það er málið

„Hefði Seðlabankinn hert þessar reglur, þá hefðu bankarnir líklega hrunið talsvert fyrr.“ Þetta skrifar fyrrverandi bankaráðsmaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson um dauðadóm Ríkisendurskoðunar yfir bankastjóratíð Davíðs Oddssonar. Þetta er hárrétt hjá Hannesi.
Ef svo hefði orðið væri ekkert Iceave og vandi okkar væri allt annar og minni. Það er einmitt vegna gáleysis eða bara vanhæfis sem haldið var áfram og vandinn aukinn langt umfram efni. Það sem þessir gæjar skilja ekki að það getur verið sigur í uppgjöf.
Því nú fjandans verr héldu þeir áfram og tjónið af þeirri vitleysu er þjóðarinnar. Því miður.

Icesave og bilað sjónvarp

Hef sennilega hlustað meira á Icesave á Alþingi meira en flestir þingmenn. Hef ekki heyrt neitt nýtt. Hef alla vega ekki tekið eftir því. Kannski eru andsvörin  ný. Skil ekki hvernig fólkið finnur allar þessar gagnslausu spurningar.  Svo er það kurteisin. Það telst undantekning ef andsvar hefst ekki á þessum orðum; ég vil þakka háttvirtum þingmanni fyrir einstaklega góða og efnisríka ræðu.
En í morgun þegar Sigmundur Davíð reyndi að skýra Icesavemálið eða hluta þess með ímynduðu biluðu sjónvarpstæki, svissaði ég frá Alþingi og skipti yfir á Simma og Jóa. Skildi ekki í baun í samlíkingu formanns Framsóknarflokksins. Bara alls ekki.