Category Archives: Fréttaskýringar

Gamlir og súrir

Merkilegt er að heyra og lesa viðbrögð gömlu stjórnmálamannanna, manna sem þjóðin hefur afþakkað, yfir gengi Besta flokksins.
Jón Baldvin Hannibalsson, sem hefur að síðustu verið hafnað sem stjórnmálamanni, fann allt að Jóni Gnarr í útvarpsviðtali, en man ekki á hvaða stöð, og ekki síður að kjósendum.
Davíð Oddsson, sem svo eftirminnilega hrökklaðist úr stjórnmálum, nær sér ekki í nafnklausum pistlum dagsins.
Guðni Ágústsson, sem varð að hætta í stjórnmálum þar sem honum tókst ekki ætlunarverk sitt, finnur mikið að Jóni Gnarr. Guðni verður að átta sig á að hann sjálfur var vinsælli sem skemmtikraftur eða trúður, en sem stjórnmálamaður.
Það er hægt að telja upp fleiri sára gamla stjórnmálamenn sem hafa hrokkið í fýlu.
Vel má vera að það sé allt rétt sem þessir gömlu sáru menn segja. En það vita þeir ekkert um. Eru bara súrir. Svo er alveg víst, og hefur verið sagt hér, að verið er að gera mynd um framboð Besta flokksins. Þetta snýst ekki bara um Besta flokkinn, framboð utan flokka eru sigurvegarar kosninganna. Flokkarnir eru þeir sem töpuðu. En hvers vegna?
Svavar Gestsson áttar sig á því í grein í Fréttablaðinu í dag.
Svo er einn möguleiki enn. Hann er sá að flokkarnir nái ekki til fólks, fólk telji einfaldlega Jón Gnarr betri kost, þó svo hann hafi ekki opinbera stefnumál, því kannski er það betra en segja eitthvað og lofa og standa svo ekki við nema hluta þess. Kannski er staða Besta flokksins ákall um breytingar og lök kjörsókn og auðir seðlar eru líka merki um þreytta stjórnmálamenn, á öllum aldri. Sérstaklega hjá þeim elstu sem greinilega hræðast það óþekkta og bregðast við með upphrópunum og látum.
Það þarf að gefa breytingunum tíma áður en við gagnrýnum. Það er bara kurteisi.

Kosningarnar / Sjálfstæðisflokkur

D-listi Sjálfstæðisflokks er víðast að fara í erfiðar kosningar. Útlit er fyrir viðunandi niðurstöðu í Reykjanesbæ, Vestmannaeyjum og á einhverjum minni stöðum. Sótt er að flokknum í Garðabæ og á Seltjarnarnesi. Það yrðu mikil tíðindi ef flokkurinn missir meirihluta á þessum stöðum.
Í Reykjavík verður að búast við að Sjálfstæðisflokkur missi tvo af sjö borgarfulltrúum. Og fái fimm. Allt er gert til að sýna góða mynd af Hönnu Birnu borgarstjóra. Það kann að duga eitthvað, en bjargar ekki miklu falli. Sjálfstæðisflokkurinn býr við að hafa verið ráðandi flokkur hér á landi þegar verstu ákvarðanir íslenska stjórnmála voru teknar. Styrkir til flokks og flokksmanna hjálpar örugglega ekki og við bætast nú sérlega óheppileg ummæli. Flokkurinn er laskaður og hefur ekki endurnýjað neitt sem heitir getur. Eftir að hafa verið í þremur af fjórum meirihlutum kjörtímabilsins, kjörtímabils fáránleikans, dugar ekki að fella Jórunni Frímannsdóttur. Kjósendur vilja sýnilega meiri endurnýjun. Þrátt fyrir að Hanna Birna sé ótvíræður foringi í sínum hópi, hefur hún enn ekki sigrað neinar kosningar. Þetta verða fyrstu kosningar hennar sem oddviti. Við mjög erfiðar ástæður.
Sjálfstæðisflokkurinn á bágt á Akureyri. Sigrún Björk Jakobsdóttir fór illa að ráði sínu þegar hún svaraði fyrir kaupmála hennar og eiginmannsins. Framkoma hennar eykur á vandann og flokkurinn missir tvo af fjórum á Akureyri.
Í Hafnarfirði held ég að það hafi verið óráð að hafna Rósu Guðbjartsdóttur, en þar á flokkurinn samt tækifæri. Meirihluti Samfylkingar berst fyrir lífi sínu. Það er mikil spenna í Firðinum.
Í Kópavogi eru blikur á lofti. Ekki er minnsti möguleiki að Sjálfstæðisflokkurinn haldi fimm bæjarfulltrúum þar. Fjármál oddvitans, Ármanns Kr. Ólafssonar, og efasemdir um Gunnars I. Birgisson og löng seta í meirihluta, fortíð flokksins og annað sem Sjálfstæðisflokkurinn þarf að draga á eftir sér mun kosta flokkinn tvo bæjarfulltrúa í Kópavogi.
Sjálfstæðisflokkurinn tapar örugglega á landsvísu. Það mun hafa mikil áhrif á komandi vikum. Það er stutt í landsfund. Hvort Hanna Birna komi til greina sem varaformaður og staða Bjarna Benediktssonar getur líka ráðist í kosningunum. Tapi flokkurinn mjög miklu verður horft til formannsins. Ef illa fer í Garðabæ verður það Bjarna sérlega sárt.

(Byggt á samtölum og eigin hugleiðingum).

Kosningarnar / Framsókn

Spennan vegna komandi kosninga er eðlilega að ná hámarki. Fjórflokkarnir eiga í vanda. Mismiklum og mismunandi eftir sveitarfélögum. Ég ætla að byrja á að horfa til B-lista, Framsóknarflokks.
Framsóknarflokkurinn átti erfitt fyrir síðustu kosningar. Átakaprófkjör varð til þess að Annar Kristinsdóttir afþakkaði annað sæti listans, en sigurvegar var Björn Ingi Hrafnsson. Hann er talinn hafa varið meiri peningum, annarra manna peningum, til prófkjörsins en áður hafði þekkst. Spillingarumræða skyggði á flokkinn og að lokum hrökklaðist Björn Ingi frá og Óskar Bergsson, sem hafði verið þriðji í prófkjörinu tók við. Björn Ingi lék lykilhlutverk í fyrsta og öðrum meirihluta kjörtímabilsins og Óskar í þeim fjórða.
Búið er að skipta út fleira fólki í Framsókn en öðrum flokkum. Nú á flokkurinn þingmenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum. Samt virðist sem flokkurinn eigi erfitt uppdráttar víðast hvar. Þó flokksmenn segist vissir um að fylgi við flokkinn eigi eftir að aukast er öruggt að hversu hægt gengur að lyfta flokknum úr þeim lægðum sem Halldór Ásgrímsson kom honum, reynir á þolinmæði. Núverandi forystu hefur ekki tekist svo vel. Kosningarnar eru því afar mikilvægar fyrir flokkinn. Sérstaklega Sigmund Davíð Gunnlaugsson formann.
Nýr leiðtogi er á framboðslista Framsóknar í Reykjavík, Einar Skúlason. Honum hefur ekki tekist að koma sér eða flokknum almennilega á framfæri. Og fylgið er eftir því. Auðvitað býr Framsókn sem aðrir við tilvist Besta flokksins. Og eigin fortíð. Og stöðu fjórflokksins. Allt þetta verður til þess að Framsókn kemst ekki að í borgarstjórn.
Í Kópavogi er trúlegt að Ómar Stefánsson nái kjöri. En lengra fer flokkurinn ekki. Þeir hafa stjórnað með Sjálfstæðisflokki í tuttugu ár. Kjósendur munu ekki flykkjast að Ómari og félögum. Kannski vinnur Framsókn í Kópavogi varnarsigur og halda einum manni.
Guðmundur Guðmundsson, nýr leiðtogi Framsóknar á Akureyri, mun ná kjöri ásamt einum öðrum. Þar er endurnýjun. Guðmundur er vinsæll og var áberandi handboltamaður fyrir ekki svo mörgum árum. Framsókn fær tvo á Akureyri.
Í Hafnarfirði fær Framsókn ekki mikið fylgi og enga bæjarfulltrúa.
Niðurstaðan frá fjórum stærstu sveitarfélögunum verður Framsókn miður að skapi. Bara viðunandi kosning á Akureyri, sem samt er langt frá þeim dýrðartímum Framsóknar þar í bæ.
(Byggt á eigin vangaveltum og samtölum við fólk, innan og utan Framsóknarflokksins.)

 

Hverjir eru bestir?

Fimm dagar eru til kosninga. Alvaran hellist yfir okkur og nú er komið að því að spyrja, hvaða kostir eru bestir. Í Reykjavík er afar sérstök staða. Átta framboð. Fimm þeirra eiga aðild að stjórn borgarinnar á þessu kjörtímabili. Öll hafa verið í meirihluta hluta kjörtímabilsins. Þrjú ekki. Stjórn borgarinnar náði áður óþekktum lægðum á kjörtímabilinu. Nokkrir þeirra sem tóku þátt í prófkjörum fyrir fjórum árum þáðu mikla peninga frá auðmönnum. Og hafa jafnvel ekki gefið upp hvaðan peningarnir komu. Flokkarnir hafa líka komið að stjórn landsmála, fyrir og eftir hrun. Og ollið vonbrigðum. Þess vegna er skásti kosturinn, Besti flokkurinn, það framboð sem fær mest fylgi. Það verður gaman og forvitnilegt að fylgjast með tilraunum gömlu flokkanna til að ná til sín því fylgi sem nú er hjá Besta flokknum. Hingað til hafa allar tilraunir verið máttlitlar.
Hér er eitt sýnishorn, sótt í sjóði hægri manna: „Smáfuglarnir heyra, að innan kaþólska safnaðarins í Reykjavík sé takmarkaður áhugi á að kjósa Jón Gnarr til forystu í borgarstjórn Reykjavíkur. Jón Gnarr snerist til kaþólskrar trúar fyrir nokkrum árum. Lét hann að sér kveða í safnaðarstarfi, las guðsorð fyrir kirkjugesti í messum og tók að sér rekstur bókaverslunar kaþólskra, sem hafði áratugum saman lotið traustri stjórn Torfa Ólafssonar. Eftir að Jón Gnarr tók við bóksölunni, hallaði fljótt undan fæti. Hefur versluninni nú verið lokað. Jón Gnarr les ekki heldur lengur fyrir kirkjugesti.“
Þessar ávirðingar komast ekki nærri því að meðal frambjóðenda hægri manna er einn sem þáði persónulega milljóna styrki, og þegir um hvaðan peningarnir komu og hvert þeir fóru.
Einn af þeim sem var kjörinn sem borgarfulltrúi síðast, en fór af vettvangi, Árni Þór Sigurðsson, talar nú um trúmennsku og samviskusemi. Gefum honum orðið:„ Kosningar eru alvörumál.  Þær snúast um framtíðina, hvaða stefna við viljum að verði ráðandi og hverjum við treystum best fyrir sameiginlegum málum okkar… Á tímum sem kalla á erfiðar ákvarðanir sem fæstar eru etv. til vinsælda fallnar en óhjákvæmilegar, ekki síst ef við ætlum ekki að velta öllum byrðum yfir á komandi kynslóðir, börnin okkar og barnabörn.  Það er slík einurð, samviskusemi og trúmennska sem við þurfum á að halda í borgarstjórn Reykjavíkur næsta kjörtímabil.“.
Það er ekki síst vegna svona framsetningar sem Besti flokkurinn er nú með mesta fylgið. Næstu daga mun svo skýrast hvort flokkarnir og hin framboðin muni ná að sýna að þar fari gott og traust framboð. Fjórflokkurinn á undir högg að sækja. Ekki bara í Reykjavík. Líka víða um land. Enn hefur engu framboði tekist eins vel upp og Besta flokknum, nema staðan sú að hann sé ekki svo sterkur, heldur séu andstæðingarnir bara svona veikir.
Það eru miklir hagsmunir undir. Fyrir framjóðendur og sérstaklega fyrir kjósendur.Þess vegna fara í hönd sérstökustu dagar nokkurrar kosningabaráttu.

Skrapa botninn

Smánarleg útkoma flokksformannanna Bjarna Benediktssonar og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í könnun um traust er eftirtektarverð. Einkum sökum þess að þeir leiða stjórnarandstöðuflokka og núverandi ríkisstjórn er að vinna erfiðari verk en dæmi eru um. Og ríkisstjórnin gefur á sér marga höggstaði.
Steingrímur og Jóhanna sigri tvímenningana svo örugglega sem raun er á, er merkilegt. Andstæðingar Steingríms gagnrýna hann sem mest þeir geta, samt ber hann höfuð og herðar yfir aðra. Jóhanna er sérkapítuli. Forsætisráðherra í kyrrþey.
Sigmundi Davíð hefur ekki tekist að auka fylgi flokksins og sjálfur hefur hann takmarkað traust. Hljóta að vera vonbrigði. Innan flokksátök eru erfið, en Framsóknarflokkurinn fer ekki varhluta af þeim. Áberandi flokksmenn hafa hætt í flokknum og Jón Sigurðsson fyrrverandi formaður gagnrýnir flokkinn. Afturgangan í Köben jók á vandann.Auki flokkurinn fylgi sitt drjúgt frá því fyrir fjórum árum, er formaðurinn í miklum vanda. Mjög miklum.
Bjarni Ben er líka í vanda. Þingmenn hafa hrökklast burt og krafa er um fleiri geri það. Jafnvel að formaðurinn sjálfur víki af þingi. Styrkirnir reynast Bjarna og flokknum erfið. Næstsíðasti formaðurinn flokksins hefur enn stjórn á því sem hann kýs. Það veikir Bjarna enn frekar. Komandi kosningar kunna að marka veginn fyrir Bjarna. Fari illa, fer hann, fari vel á hann möguleika að vera áfram, en ekkert umfram það.
58 prósent vantreysta Sigmundi Davíð og 67 prósent Bjarna. Þetta er vond staða fyrir unga formenn sem starfa í kjörlendi stjórnarandstæðinga. Flokksmenn þeirra hljóta að vera efins um þeir séu réttu mennirnir til að leiða flokka sinna í næstu þingkosningunum, sem líklegast verða síðar á þessu ári. Augnsvipur Jóhönnu til Steingríms á blaðamannafundinum á þriðjudaginn upplýsti um hug hennar til hans. Þetta er búið. Bara eftir að gefa út dánarvottorðið.

Stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins

„Allir þessir atburðir, stærsta fjármálahneyksli í sögu lýðveldisins, þar situr stærsti flokkur þjóðarinnar í hverri ábyrgðarstöðunni á fætur annarri með svo margbrotnum hætti að það er sama hvar maður kemur að þessu máli, það er ekki þverfótað fyrir þingmönnum og forráðamönnum Sjálfstæðisflokksins.“
Þetta eru ekki ný ummæli. En hann er öllum þekktur sem sagði þetta á Alþingi í desember 1985. Höldum áfram í sömu ræðu:
„ Allir þessir atburðir hafa orðið til þess að þjóðina skortir nú traust á forustu landsins, skortir traust á fjármálastofnunum landsins, skortir traust á þeim fyrirtækjum sem eiga að tryggja atvinnu og lífsafkomu fólksins í landinu. Það er því eðlilegt að almenningur krefjist uppgjörs í þessu máli, krefjist þess að öll gögn séu lögð á borðið, krefjist þess að með opinberum hætti, fyrir opnum tjöldum, þar sem hver og einn hefur aðgang að því sem fram kemur, fái þjóðin að vita allt – bókstaflega allt – og sjá öll gögn sem þessu máli tengjast.“
Þetta er úr ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar á Alþingi um Hafskipsmálið í desember 1985. Sumt breytist greinilega ekki.

Lygarinn í Köben

Ekki er gott að segja hvort Halldór Ásgrímsson sé illhaldinn af afneitun eða hann hafi bara ekki verið með meðvitund síðustu árin sem hann starfaði í pólitík. Svo margt sem hann sagði í Kastljósinu er svo galið.
Nokkur dæmi.

Hann gat ekki einu sinni sagt rangt að hafa aukið íbúðalánin. Aðrir vita að afleiðingin varð mikil skuldaaukning heimila, hækkun fasteignaverðs, aukin neysla, mikill innflutningur og tilheyrandi viðskiptahalli.
Hann sagðist ekki hafa heyrt af pólitískum afskiptum af bankasölunum fyrr en í rannsóknarskýrslunni. Honum til upprifjunar skal bent á eftirfarandi bréf Steingríms Ara Arasonar þegar hann sagði sig úr framkvæmdanefndinni:

 „Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu.
Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.
Þar sem ég er bundinn trúnaði um einstaka þætti þessa máls treysti ég því að óhlutdrægur aðili verði fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem eru orsök afsagnar minnar.“

Síðan er rétt að minnast þess að margoft hefur komið fram að Davíð og Halldór áttu sannarlega beina aðkomu að sölu beggja bankanna, þeir tóku völdin af framkvæmdanefnd um einkavæðingu og sáu til þess að bönkunum væri komið í hendurnar á réttum eigendum; Landsbankanum til Björgólfsfeðga fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Búnaðarbankanum til S-hópsins fyrir hönd Framsóknarflokksins. Framkvæmdanefnd að einkavæðingu hafði vorið 2002 unnið að því að allur eftirstandandi hlutur ríkisins í Landsbankanum, tæpur helmingur, yrði seldur á almennum markaði eftir vel heppnað hlutafjárútboð til almennings fyrr á árinu og misheppnaða sölu á kjölfestuhlut í bankanum til erlends aðila haustið 2001.
Ráðherranefndin, sem í sátu Davíð Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, hafði gefið framkvæmdanefndinni fyrirskipanir um að undirbúa sölu hlutarins á almennum markaði. Dreifð eignaraðild, sem Davíð Oddsson hafði áður talað fyrir, yrði tryggð með því að leyfa engum að kaupa meira en þriggja til fjögurra prósenta hlut í bankanum. Ekki átti að selja Búnaðarbankann fyrr en að fenginni reynslu við söluna á Landsbankanum, en stefnt var að því að salan yrði með sama hætti.
Það er bara ekki hægt að trúa að Halldór hafi farið á mis við þetta allt saman. Hann sést á myndum og það sannar að hann var viðstaddur þetta allt saman. En kannski tók hann bara ekki eftir hvað var að gerast, er búinn að gleyma eða er svona hraðlyginn. Halldór kom sjálfur til leiðar, og tók þátt í, fundum með Kaldbaksmönnum og fulltrúum S-hópsins í því skyni að reyna að koma á samvinnu þeirra á milli. Þetta er ekkert leyndarmál, hefur oft verið nefnt og aldrei mótmælt.
Og að lokum. Það er búið að hegna Framsóknarflokknum vegna pólitískra starfa Halldórs Ásgrímssonar, núverandi forysta flokksins hefur gert það líka. En ekki skaðvaldurinn sjálfur. Hann hrökklaðist úr stjórnmálunum og siturnú  í eigin heimi í Kaupmannahöfn. Allt á annarra manna kostnað.

Vissu allt en gerðu ekkert

(Bara fyrir þá sem nenna)’

Meðal þess sem ég skrifaði þegar ég var ritstjóri Mannlífs var löng grein með þessu heiti: Vissu allt en gerðu ekkert. Hennar vegna og annarra greina um efnahagsmál var ég fenginn til Noregs, þar sem norrænir blaðamenn sýndu greinunum áhuga.

Endurtek að ég birt þetta hér fyrir þá sem hafa beðið mig um að birta þetta. Og svo sem aðra líka. Atugið að það vantar gröfin.

Tilvísun:
Í tengslum við einkavæðingu bankanna, sem hófst á ný árið 1998 og lauk árið 2003, jukust bæði eignir og skuldir innlendra aðila erlendis gífurlega. Seðlabanki Íslands.

Tilvísun:
Aukin alþjóðavæðing og gríðarleg aukning í fjármagnsflæði milli landa hefur gert öflun upplýsinga frá mörgum ólíkum aðilum erfiða og úrvinnslu þeirra tímafreka. Því getur í mörgum tilvikum verið erfitt að uppfylla hina alþjóðlegu staðla. Seðlabanki Íslands.

Tilvísun:
„Færst hefur í vöxt að íslensk fyrirtæki og einstaklingar færi hlutabréfaeign sína til útlanda beinlínis í því skyni að komast hjá því að greiða skatt af söluhagnaði hlutabréfa. Seðlabanki Íslands.

Vissu allt en gerðu ekkert

Stjórnmálamenn og Seðlabankinn vissu mætavel hvað beið okkar. Það þunga högg sem hefur dunið á Íslandi átti ekki að koma neinum á óvart. Og alls ekki Seðlabankanum, ríkisstjórn og Alþingi. Vandséð er að kenna megi vandræðum erlendis um hvernig komið er. Frá einkavæðingu bankanna hefur staða þjóðarbúsins tekið stökkbreytingum. Staða okkar er í stuttu máli sú, að við erum efst á neikvæðum mælikvörðum og lægst á jákvæðum mælikvörðum. Með ólíkindum er að fyrirliggjandi staðreyndir hafi ekki kallað á viðbrögð áður en íslenskur efnahagur steytti á skeri. Við flutum sofandi að feigðarósi.
„Ríkisstjórn Íslands og Seðlabanki eru engu hæfari sem stjórnendur nútímahagkerfis en þau væru sem stjarnvísindamenn. Þau skildu ekki að uppsveifla íslenska hagkerfisins árin 2005 og 2006 byggðist á skuldasöfnun, lán voru tekin til þess að standa í skilum með önnur lán, og nú vita þau ekki hvernig unnt er að ná jafnvægi aftur eftir að pappírsauðurinn er horfinn. Það er ólíklegt að nýir leiðtogar sem væru valdir af handahófi í símaskrá gætu valdið jafnmiklum efnahagslegum glundroða og núverandi stjórnvöld.“
Þetta sagði Robert Aliber, prófessor emeritus í alþjóðahagfræði og fjármálum við Viðskiptaháskólann í Chicago, í grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið. Þetta eru stórorð en þegar lagst er yfir lestur útgefins efnis frá Seðlabankanum bendir margt til þess að auðvelt sé að finna gagnrýninni stað.
Eignir margfaldast /
Skoðum orðrétt úr Peningamálum Seðlabankans:
„Staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum hefur tekið miklum breytingum á síðustu misserum. Erlendar eignir og skuldir Íslendinga hafa margfaldast á aðeins örfáum árum, en erlendar skuldir hafa aukist talsvert meira en erlendar eignir. Hrein erlend staða þjóðarbúsins er því orðin mjög neikvæð í hlutfalli við landsframleiðslu og hrein skuld með því mesta sem dæmi eru um í heiminum. Á sama tíma og erlendar skuldir hafa hækkað hafa hreinar vaxta- og arðgreiðslur til útlanda aukist mikið og vega þungt í viðskiptahallanum.“
Á skýringarmyndinni má sjá hver þróunin hefur verið. Eftir einkavæðingu bankanna breyttist margt eins og sjá má og sérstaklega á allra síðustu árum. Seðlabankinn tók þetta saman og ríkisstjórnin las. Öllum átti að vera ljóst í hvað stefndi. En ekkert var gert. Meira um þetta á eftir. Von er að spurt sé hvers vegna við höguðum okkur svona og hvers vegna ekkert var gert til að forða okkur frá því þunga höggi sem nú hefur dunið yfir. Sem fyrr segir höfðu ráðamenn, bæði í ríkisstjórn og Seðlabanka, alla vitneskju í hvað stefndi og hvaða miklu breytingar höfðu orðið á stoðum íslensks efnahagslífs. Ljóst er að margoft var farið yfir á rauðu ljósi. Ekki er vandaverk að benda á það fólk sem bar og á að bera mesta ábyrgðina á því hvernig komið er. Það verður gert hér á eftir. Eins skulum við beina sjónum okkar að þeim tíma sem Samson keypti Landsbankann og S-hópurinn Búnaðarbankann. Við sölu bankanna var horfið frá öllum þeim prinsippum sem höfðu verið sett. Ráðherrar tóku fram fyrir hendur framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Ráðherra handstýrðu hverjir fengu banka – hverjir fengu að kaupa bankana.
„Íslenska þjóðríkið er þannig vaxið að það er ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum,“ sagði Davíð í fréttum Sjónvarpsins í ágúst 1998. Hann átti eftir að kokgleypa þessa skoðun sína. Og horfa aðgerðalaus á hvernig Ísland steyptist fram af bjargbrúninni.

Að gera upp sakir /
„Eðlilega vilja menn gera upp sakir við forystumenn í stjórnmálum og atvinnulífi,“ sagði Þorsteinn Pálsson ritstjóri í Fréttablaðinu. Það eru eflaust fleiri en Þorsteinn sem vilja að uppgjör verði gert. Hvert er upphafið að endinum? Einkavæðing bankanna skiptir mestu.
„Mikið hefur verið lagt á peningastefnuna á undanförnum árum. Ráðist var í fjárfestingu, sem var nærri þriðjungur af landsframleiðslu. Okkar mat var að Seðlabankinn myndi ráða við verðbólguna, þ.e.a.s. að frávik frá markmiði yrðu skammvinn, ef ríkisfjármálin legðust á sömu sveif. Þetta varð okkur miklu erfiðara viðfangs en okkur óraði fyrir í upphafi. Við bættust breytingar sem juku útlánagetu  Íbúðalánasjóðs og viðskiptabankarnir voru einkavæddir. Allt á sama tíma og þessar miklu framkvæmdir voru að hefjast. Við þekkjum það af reynslu annarra þjóða að í kjölfar einkavæðingar banka hefur oft orðið veruleg útlánaaukning. Gera mátti ráð fyrir að þetta myndi einnig gerast hér,“ sagði Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, í síðasta hefti Mannlífs.
Einkavæðing ríkisbanka var metið hættuspil. En samt voru báðir ríkisviðskiptabankarnir einkavæddir, á sama tíma. Annar var sannarlega seldur mönnum tengdum Sjálfstæðisflokknum, mönnum sem sannarlega buðu lægst af þeim sem vildu kaupa. Hinn bankinn var að sama skapi sannarlega seldur mönnum tengdum Framsóknarflokknum, mönnum sem sannarlega áttu ekki fyrir bankanum. Öllum fyrirheitum um dreifða eignaraðild var hent fyrir róða. Stuðningsmenn ríkisstjórnarflokkanna fengu banka, þrátt fyrir að aðrir borguðu minna en aðrir vildu og hinir þrátt fyrir að þeir höfðu ekki efni á bankanum. Ógæfan hófst.
Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, boðaði áður en til þessa kom að farið yrði varlega og að eignarhald í bönkunum yrði dreift og að þeir yrðu sem hlutlausastir gagnvart viðskiptalífinu. Hann benti á að ef viðskiptamönnum tækist að ná sterkum tökum á bönkum yrði hætt á að einkasjónarmið og skammtímahagsmunir gætu bitnað á arðsemiskröfum sem bankinn ætti að lúta.

Bankarnir seldir /
Áður en kom til sölu ríkisbankanna deildu Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson svo lá við stjórnarslitum. Mest var deilt um sölu Landsbankans á hluta sínum í VÍS haustið 2002, en Landsbankinn átti helminginn í VÍS á móti S-hópnum, sem síðar keypti Búnaðarbankann. Davíð og Halldór áttu sannarlega beina aðkomu að sölu beggja bankanna, þeir tóku völdin af framkvæmdanefnd um einkavæðingu og sáu til þess að bönkunum væri komið í hendurnar á réttum eigendum; Landsbankanum til Björgólfsfeðga fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins og Búnaðarbankanum til S-hópsins fyrir hönd Framsóknarflokksins. Framkvæmdanefnd að einkavæðingu hafði vorið 2002 unnið að því að allur eftirstandandi hlutur ríkisins í Landsbankanum, tæpur helmingur, yrði seldur á almennum markaði eftir vel heppnað hlutafjárútboð til almennings fyrr á árinu og misheppnaða sölu á kjölfestuhlut í bankanum til erlends aðila haustið 2001.
Ráðherranefndin, sem í sátu Davíð Oddsson forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, hafði gefið framkvæmdanefndinni fyrirskipanir um að undirbúa sölu hlutarins á almennum markaði. Dreifð eignaraðild, sem Davíð Oddsson hafði áður talað fyrir, yrði tryggð með því að leyfa engum að kaupa meira en þriggja til fjögurra prósenta hlut í bankanum. Ekki átti að selja Búnaðarbankann fyrr en að fenginni reynslu við söluna á Landsbankanum, en stefnt var að því að salan yrði með sama hætti.

Viðsnúningur /
Davíð Oddsson skipti snögglega um skoðun. Í verðlaunaðri úttekt Sigríðar Daggar Auðunsdóttur um einkavæðingu bankanna segir: „Með einu símtali Björgólfs Guðmundssonar til Davíðs Oddssonar í júní 2002 var einkavæðingarferli bankanna kippt úr höndunum á framkvæmdanefndinni. Ráðherranefndin tók U-beygju í afstöðu sinni til sölunnar og lagði nýjar línur fyrir framkvæmdanefndina. Selja ætti allan eignarhlut beggja bankanna til eins fjárfestis.
Bankarnir voru auglýstir og sendu fimm inn tilkynningar um áhuga: Samson, sem var samsettur af Björgólfi Guðmundssyni, syni hans Björgólfi Thor Björgólfssyni og Magnúsi Þorsteinssyni; Kaldbakur sem samanstóð af Eiríki Jóhannessyni og Þorsteini Má Baldvinssyni; S-hópurinn, sem Ólafur Ólafsson stýrði; Íslandsbanki og Þórður Magnússon fyrir hönd fjárfesta.
Samson, Kaldbakur og S-hópurinn voru valdir til frekari viðræðna um kaupin á Landsbankanum, sem fara áttu fram fyrst. Öllum þeim sem komu að einkavæðingarferlinu, hvorum megin við borðið sem þeir sátu, var frá upphafi ljóst að ætlun ráðherranna væri sú að Björgólfsfeðgar fengju Landsbankann.
Þá gerðu ráðherrar Framsóknarflokksins, þau Halldór Ásgrímsson og Valgerður Sverrisdóttir, ítarlegar tilraunir til þess að fá Kaldbak og S-hópinn til að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum. Halldór Ásgrímsson kom sjálfur til leiðar, og tók þátt í, fundum með Kaldbaksmönnum og fulltrúum S-hópsins í því skyni að reyna að koma á samvinnu þeirra á milli.“

Samson bauð lægst /
Þegar Landsbankinn var seldur átti Kaldbakur hæsta tilboðið, 4,16 á hlut, S-hópurinn næsthæsta með 4,10 á hlut og Samson var með lægsta tilboðið, sem var á verðbilinu 3,10 til 3,90 á hlut með ýmsum tilgreindum fyrirvörum. Í viðræðum framkvæmdanefndarinnar
við hópana hafði Samson ítrekað lýst því yfir að hópurinn væri ekki tilbúinn að greiða hærra verð en sem samsvaraði 3,50 fyrir hlutinn. Framkvæmdanefndin og ráðherranefndin höfðu þó gert grein fyrir því að ekki yrði hægt að taka tilboði undir 3,90 á hlut.
Áður en framkvæmdanefndin tilkynnti að farið yrði í viðræður við Samson um kaupin á Landsbankanum höfðu farið fram óformlegar viðræður um verð milli framkvæmdanefndarinnar og Samson. Samson stóð þó fastur á því að ekki kæmi til greina að greiða meira en 3,50 á hlutinn. Niðurstöðurnar úr hinum óformlegu viðræðum urðu þær að Samson myndi skila inn tilboði á verðbilinu 3,10 til 3,90 með ýmsum tilgreindum fyrirvörum og í samningaviðræðum yrði tekið tillit til þeirra fyrirvara sem settir væru fram í tilboðinu.
Þetta kemur fram í greinarflokki Sigríðar Daggar.

Reiknilíkan sniðið að tilboði Samson /
„Þegar tilboðin voru komin inn var ljóst að Samson var með lægsta tilboðið. Ekki hafði enn verið ákveðið hvernig meta ætti hvern þátt tilboðsins samkvæmt auglýsingunni, það er að segja hvaða vægi hver þeirra fimm þátta sem tilgreindir voru í auglýsingunni ætti að hafa.
Leitað var til ráðgjafans, HSBC, til að útfæra matið. Starfsmaður framkvæmdanefndarinnar, Skarphéðinn Berg Steinarsson, fór því til London í því skyni og kom til baka með tilbúið reiknilíkan um það hve mikið vægi hver þáttur ætti að hafa.
Hinn 8. september kynnti ráðgjafinn frá HSBC matið og forsendur þess á fundi framkvæmdanefndar. Niðurstaðan var sú að miðað við hinar gefnu forsendur væri Samson líklegast til þess að uppfylla markmið ríkisins með sölunni.
Ágreiningur kom upp í nefndinni um matið, ekki síst um vægi verðsins í reiknilíkaninu og hinar huglægu forsendur sem lægju að baki mati annarra þátta líkansins. Bent var á að nær ómögulegt væri að gefa framtíðaráætlunum hópanna einkunn út frá öðrum forsendum en huglægu mati. Því væri óverjandi að þáttur á borð við framtíðaráætlanir yrði jafnveigamikill í reiknilíkaninu og verð,“ segir í úttektinni.

Verðið í þriðja sæti /
Í áliti HSBC, sem var ráðgjafi við söluna, voru eftirfarandi þættir í tilboðum bjóðendanna þriggja teknir til athugunar: Fjárhagsstaða fjárfestis, framtíðaráform um rekstur bankans, hugmyndir um staðgreiðsluverð, þekking og reynsla fjárfestis á fjármálamarkaði og skilyrði af hálfu kaupenda.
Í reiknilíkani HSBC höfðu tveir fyrstnefndu þættirnir, fjárhagsstaða fjárfestis og framtíðaráform um rekstur bankans, hlutfallslega mesta vægið af þáttunum fimm og jafnframt jafnmikið vægi.
Á fundi framkvæmdanefndar var síðasttalda atriðið, skilyrði af hálfu kaupenda, fellt niður sem sérstakt matsatriði áður en reiknilíkanið var sett upp. Þess má geta að Samson hafði sett mun ítarlegri skilyrði en hinir tveir bjóðendurnir um þætti sem gætu haft áhrif til lækkunar á lokaverði á hlut ríkisins í Landsbankanum.
HSBC var falið að gera næmnigreiningu á reiknilíkaninu en komst að þeirri niðurstöðu að henni lokinni að tilboð Samson væri það áhugaverðasta að því gefnu að miðað yrði við efri mörk þess verðbils sem fram kom í tilboði Samson, eða 3,90.
Í áliti sem HSBC vann fyrir framkvæmdanefndina um niðurstöðurnar úr reiknilíkaninu var lögð rík áhersla á að Samson yrði meðal annars gerð skýr grein fyrir því að boð sem væri lægra en efstu mörk tilboðs hans, 3,90, yrði ekki talið viðunandi fyrir ríkið.
Framkvæmdanefndin lagði niðurstöðurnar fyrir ráðherranefndina án þess að gera tillögu um hvaða tilboði skyldi tekið. Í kjölfarið tók ráðherranefndin þá ákvörðun að á grundvalli mats HSBC skyldi Samson boðið til beinna viðræðna um kaup á hlut ríkisins í Landsbankanum.
Næstu þrír kaflar eru nánast orðréttir úr úttekt Sigríðar Daggar Auðunsdóttur.

Steingrímur Ari sagði sig úr nefndinni /
Eftir ákvörðun ráðherranefndarinnar var framkvæmdanefndinni falið að ganga frá bréfi þar að lútandi. Skoðanaskipti urðu um orðalag bréfsins og lagði einn nefndarmanna, Steingrímur Ari Arason, áherslu á að í bréfinu yrði sett ákveðið lágmarksverð á hluta ríkisins líkt og HSBC hefði mælt með. Aðrir nefndarmenn vildu ekki fallast á tillögu hans og sögðu að tillaga þeirra, sem síðan varð ofan á, tryggði efnislega það sem Steingrímur Ari vildi segja svart á hvítu, að gengið væri til viðræðnanna með því skilyrði að ekki yrði samið um lægra verð á hverjum hlut en 3,90, sem voru efri mörk verðtilboðs Samson.
Næsta dag, hinn 10. september 2002, sagði Steingrímur Ari sig úr framkvæmdanefnd með bréfi til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Bréf Steingríms Ara var svohljóðandi:
„Í framhaldi af þeirri ákvörðun ráðherranefndar um einkavæðingu að ganga til viðræðna við Samson ehf. um kaup á umtalsverðum hlut í Landsbanka Íslands hf. hef ég ákveðið að segja mig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu.
Ástæðan eru þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið í aðdraganda þessarar ákvörðunar og hafa nú leitt til þess að aðrir áhugasamir kaupendur eru sniðgengnir þrátt fyrir hagstæðari tilboð fyrir ríkissjóð á alla hefðbundna mælikvarða. Ég hef setið sem fulltrúi fjármálaráðherra í framkvæmdanefnd um einkavæðingu frá árinu 1991 og aldrei kynnst öðrum eins vinnubrögðum.
Þar sem ég er bundinn trúnaði um einstaka þætti þessa máls treysti ég því að óhlutdrægur aðili verði fenginn til að fara ofan í saumana á þeim vinnubrögðum sem eru orsök afsagnar minnar.“
Í greinargerð Ríkisendurskoðunar um Landsbankasöluna frá því í október 2002 kemur fram það samdóma álit fjárfestanna þriggja, Kaldbaks, S-hópsins og Samson, að ekki hafi verið staðið nægilega faglega að verki við söluna. Söluferillinn hafi verið óskýr nánast allan tímann og sömuleiðis markmiðin sem voru að baki. Fjárfestunum þremur hafi fundist að ekki hafi verið fullljóst í upphafi í hvaða farveg málið færi heldur hafi ferlið jafnvel að einhverju leyti verið spunnið eftir því sem á leið.

Björgólfur Thor neitaði að taka við bréfi /
Sama dag og Steingrímur Ari sagði af sér, hinn 10. september, var Björgólfur Thor kallaður á fund Ólafs Davíðssonar í Stjórnarráðinu. Ætlunin var að afhenda
honum bréf frá framkvæmdanefnd þar sem tilkynnt yrði um það að nefndin myndi ganga til viðræðna við Samson um söluna á Landsbankanum.
Björgólfur Thor mætti í Stjórnarráðið þar sem hluti framkvæmdanefndar var staddur. Ólafur Davíðsson rétti Björgólfi Thor umslag með bréfi þar sem tilkynnt var um ákvörðun framkvæmdanefndar.
Um leið og Ólafur rétti Björgólfi Thor bréfið sagði hann eitthvað á þann veg að það yrði að vera ljóst að Samson þyrfti að greiða 3,90 fyrir hlutinn, annað væri ekki ásættanlegt.
Björgólfur Thor ítrekaði þá stefnu Samson að greiða ekki hærra verð en 3,50 á hlut. Ólafur endurtók þá að það verð sem endanlega yrði samið um yrði að vera við efri mörk tilboðs Samson, eða 3,90. Sagðist Björgólfur Thor ekki geta samþykkt það, neitaði að taka við bréfinu og yfirgaf Stjórnarráðið.

Ólafur skammaði Halldór /
Þegar Ólafur Ólafsson, einn forkólfanna í S-hópnum, sem bitust á við Samson og Kaldbak um Landsbankann, fékk fréttirnar um að Samson hefði verið valinn til viðræðna við framkvæmdanefnd um söluna á Landsbankanum var hann staddur á hreindýraveiðum austur á landi. Hann hringdi umsvifalaust í Halldór Ásgrímsson, öskureiður, og hellti sér yfir hann fyrir að hafa gert sig að fífli með þátttöku sinni í söluferlinu á Landsbankanum. Hann hefði varið miklum tíma og fjármunum í undirbúning að kaupunum og væri ósáttur við að hafa ekki fengið að kaupa bankann þrátt fyrir að hafa verið með besta tilboðið þegar á heildina væri litið.

Mörkuð leið /
Af þessu má sjá að ráðherrarnir, einkum Davíð og Halldór, voru illa flæktir í sölu bankanna. Þeir höfðu beygt svo af leið að einstakt hlýtur að teljast. Halldór var svo illa leikinn að einn helsti gerandi Framsóknarmegin, Ólafur Ólafsson, skammaði hann eins og smábarn.
Sama er að segja um samskipti Davíðs og hans manna. Björgólfur Thor óttaðist ekkert. Virtist viss um að hann fengi Landsbankann, neitaði að taka við bréfi framkvæmdanefndarinnar og gekk af fundi, í Stjórnarráðinu. Hann átti eftir að ganga aftur af fundi í því sama húsi. Sex árum síðar tók ríkið bankann af honum. Með stórkostlegu tapi.
Aftur til fortíðar.

Ferlið spunnið eftir því sem á leið /
Hinn 18. október 2002 var tilkynnt um samkomulag Samson og framkvæmdanefndar um heildarsöluverð hlutar ríkisins í Landsbankanum, sem var rúmar 139 milljónir Bandaríkjadala, sem samsvaraði rúmum 12,3 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dalsins á þeim tíma. Verð á hlut var miðað við það 3,92.
Greiningardeild Búnaðarbankans hafði gefið út verðmat á Landsbankanum 8. ágúst 2002 og 24. febrúar 2003. Þar var gengið metið á 4,2 í bæði skiptin.
Samkvæmt kaupsamningnum yrði greiðsla fyrir bréfin tvískipt. Greitt yrði fyrir 33,3 prósenta hluta innan 30 daga frá kaupsamningi, eða sem samsvaraði um 8,9 milljörðum króna, og fyrir 12,5 prósent, eða 3,4 milljarða króna, að ári liðnu. Í kaupsamningnum voru ákvæði um verðaðlögun, það er að segja að afsláttur allt að 700 milljónum yrði veittur af lokagreiðslu ef þróun efnahagsliða yrði önnur en gengið hefði verið út frá í áætlunum sem lágu til grundvallar við undirritun samkomulagsins frá 18. október.
Í kjölfar áreiðanleikakönnunar sem KPMG vann á Landsbankanum og birt var 15. desember kom upp ágreiningur milli Samson og framkvæmdanefndar um gæði lána í lánastokki bankans. Sú varð raunin að öll upphæðin sem tiltekin var í samningunum, 700 milljónir, kom til frádráttar frá lokagreiðslunni og nam hún því sem samsvarar 2,7 milljörðum króna. Endanlegt kaupgengi hlutar Samson í Landsbankanum var því 3,7.
Nýir eigendur tóku við stjórn  Landsbankans á aðalfundi 14. febrúar 2003. Í nýju bankaráði áttu sæti Björgólfur Guðmundsson, Einar Benediktsson, Andri Sveinsson, Þorgeir Baldursson og Kjartan Gunnarsson.

Halldór skipuleggur símafund /
Áður en ákvörðun framkvæmdanefndarinnar um valið á Samson til viðræðna um kaupin á Landsbankanum, hinn 10. september, var tilkynnt hafði Halldór Ásgrímsson haft milligöngu um það að hinir hóparnir tveir, Kaldbakur og S-hópurinn, sameinuðust um kaupin á Búnaðarbankanum. Allt frá því að söluferlið fór af stað höfðu hópunum tveimur borist skilaboð, bæði beint og óbeint, frá framkvæmdanefndinni um að reyna að sameinast í einn fjárfestahóp.
S-hópnum hugnaðist fyrst og fremst ekki að vinna með Þorsteini Má Baldvinssyni. Fulltrúar hópanna áttu samtöl um hugsanlega samvinnu sín á milli, en ekkert varð úr því að þeir ræddu málið af fullri alvöru fyrr en Halldór Ásgrímsson skipulagði símafund þar sem hann, ásamt helstu fulltrúum beggja hópanna, ræddi um hugsanlega sameiningu hópanna.
Ólafur Ólafsson í Keri var sá eini sem ekki tók þátt í fundinum og gaf þá skýringu á fjarvist sinni að hann væri á leið austur á firði á hreindýraveiðar og því ekki í öruggu símasambandi. Símafundurinn átti sér því stað áður en tilkynnt var um val framkvæmdanefndar á Samson til viðræðna um Landbankann.
Auk Halldórs Ásgrímssonar voru á símafundinum Jóhannes Geir Sigurgeirsson og Eiríkur Jóhannesson frá Kaldbaki og fulltrúar S-hópsins; Axel Gíslason, forstjóri VÍS, Margeir Daníelsson, Geir Magnússon, Óskar Gunnarsson og Þórólfur Gíslason.
Á fundinum bað Halldór Ásgrímsson hópana tvo að reyna að sameinast um kaupin á Búnaðarbankanum, þeir yrðu að gera það ef hann ætti að geta hjálpað þeim. Það gekk ekki eftir.

Ein eða fleiri erlendar fjármálastofnanir /
Hinn 5. nóvember sendi framkvæmdanefnd frá sér tilkynningu um að ákveðið hefði verið að ganga til viðræðna við hóp fjárfesta sem samanstæði af Eignarhaldsfélaginu Andvöku, Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum, VÍS, Kaupfélagi Skagfirðinga og Samvinnulífeyrissjóðnum „auk einnar eða fleiri erlendra fjármálastofnana“, eins og fram kom í tilkynningunni.
Ekki var því enn ljóst á þessum tíma hverjar hinar tilgreindu erlendu fjármálastofnanir voru. S-hópurinn átti á þessum tíma í viðræðum við útibú franska bankans Societe General í Frankfurt, en önnur stofnun bankans veitti S-hópnum ráðgjöf varðandi kaupin. Framkvæmdanefndin hafði á þessum tíma ekki enn fengið uppgefið frá S-hópnum hver eða hverjir hinir erlendu fjárfestar væru. Skýringar S-hópsins voru þær að erlendi fjárfestirinn vildi ekki koma fram fyrr en samningar hefðu verið undirritaðir. Til þess að skera úr um það hvort erlendi fjárfestirinn væri áreiðanlegur var samið um það við S-hópinn að hann myndi gefa ráðgjöfum framkvæmdanefndarinnar, HSBC, upp nafnið á fjárfestinum og HSBC myndi síðan upplýsa nefndina um hvort hann væri áreiðanlegur. Niðurstaða HSBC var jákvæð í garð fjárfestisins.

Umsögn HSBC vakti spurningar eftir á /
Umsögn HSBC um erlenda fjárfestinn vakti ekki spurningar meðal framkvæmdanefndarinnar fyrr en daginn sem skrifað var undir samninginn við S-hópinn og tilkynnt var hver erlendi fjárfestirinn væri, þýski einkabankinn Hauck & Aufhauser. Nefndarmönnum fannst þá að umsögn HSBC hefði ekki getað átt við
Hauck & Aufhauser því hún hefði dregið upp mynd af stórum alþjóðlegum fjárfestingabanka, sem Hauck & Aufhauser er ekki. Umsögn HSBC hefði mun frekar átt við Société Générale, sem var sjötti stærsti banki í Evrópu, en S-hópurinn átti á þessum tíma í viðræðum við bankann um að taka þátt í kaupunum.
S-hópurinn neitar því að hafa gefið upp annað nafn en Hauck & Aufhauser, en Fréttablaðið hefur meðal annars óskað eftir því á grundvelli upplýsingalaga að fá
afhent afrit af umsögn HSBC um hinn ónefnda erlenda banka.

Eignatilfærslur innan S-hópsins /
Hinn 12. nóvember 2002 áttu sér stað talsverð viðskipti innan félaga í S-hópnum. Þórólf Gíslason, kaupfélagsstjóra Kaupfélags Skagfirðinga, og Ólaf Ólafsson,
þáverandi forstjóra Samskipa, greindi á um rekstur Kers, sem þeir voru báðir stjórnarmenn í. Tvær fylkingar höfðu tekist á innan S-hópsins en þær deilur voru
leystar með tilfærslum eigna þennan dag. Norvik, eignarhaldsfélag BYKO, keypti 25 prósent hlutafjár í VÍS af Keri fyrir 3,4 milljarða króna en seldi hlutinn til
Hesteyrar nokkrum dögum síðar í skiptum fyrir hlut Hesteyrar í Keri. Hesteyri var í eigu Kaupfélags Skagfirðinga og Skinneyjar Þinganess, sem Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra á hlut í. Norvik var að stórum hluta í eigu Jóns Helga Guðmundssonar í BYKO, sem tilheyrði jafnframt Gildingarhópnum svokallaða, en Gildingarhópurinn átti orðið stóran hlut í Búnaðarbankanum.
Með þessum viðskiptum tók Ólafur Ólafsson við stjórnartaumunum í Keri og Þórólfur Gíslason í VÍS. Þá var innkoma Norvikur í Ker sögð styrkja S-hópinn fyrir kaupin á Búnaðarbankanum.
Hannes Smárason var kjörinn í stjórn Kers fyrir hönd Norvikur á stjórnarfundi félagsins sem haldinn var stuttu síðar, en Jón Helgi hafði jafnframt mikil völd innan Kers.

Frestun á samningum vegna óvissu um erlenda fjárfestinn /
Hinn 19. nóvember 2002, tveimur vikum eftir að framkvæmdanefnd hafði tilkynnt um viðræður við S-hópinn um Búnaðarbankann, setti Kauphöll Íslands Búnaðarbankann á athugunarlista vegna þess að ekki væri enn ljóst hvernig aðkomu franska bankans, Société Générale, yrði háttað.
Franski bankinn ætlaði að taka sér frest til 6. desember til að ákveða hvernig hann kæmi að málinu. Fulltrúi HSBC-bankans í London sem sá um úttekt á kaupendum bankanna staðfesti við Fréttablaðið á þessum tíma að yfirgnæfandi líkur væru á aðkomu alþjóðlegs banka að kaupum S-hópsins.
S-hópurinn fékk að minnsta kosti tvívegis frest hjá framkvæmdanefnd til að staðfesta aðild erlenda fjárfestisins að kaupunum á Búnaðarbankanum.
Fyrri fresturinn var veittur 19. nóvember og átti að gilda til 6. desember. Hinn 9. desember tilkynnti framkvæmdanefnd að fresturinn hefði verið framlengdur til 13. desember. Áfram væri þó stefnt að því að kaupsamningar yrðu frágengnir fyrir lok ársins.

Máttu selja 12,5 prósent strax /
Hinn 16. janúar 2003 var skrifað undir kaupsamning við S-hópinn á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum. Söluverðið var rúmlega 11,2 milljarðar króna. Ekki var samið um að öll upphæðin yrði staðgreidd, en um leið og búið var að skrifa undir samninginn fór S-hópurinn með valdið sem fylgdi eignarhlutnum þó svo að ekki væri búið að afhenda hann formlega. Ríkið átti því í raun 18,32 prósent í Búnaðarbankanum þegar hann sameinaðist Kaupþingi í maí 2003.
Samkvæmt kaupsamningi ríkisins og S-hópsins var nýju eigendunum frjálst að selja 12,5 prósent af hlutnum, sem var alls 45,8 prósent, og sameinast öðru fyrirtæki. Samkvæmt samningnum átti að greiða fyrir 27,48 prósent útgefins hlutafjár innan 30 daga og var upphæðin um 6,7 milljarðar. Hinn hlutann, 18,32 prósent af útgefnu hlutafé, skyldi greiða fyrir 20. desember 2003. Verðmæti hans var um 4,5 milljarðar. Hlutir S-hópsins skiptust á eftirfarandi hátt: Egla átti 71,2 prósent, en eigendur Eglu voru þýski bankinn Hauck & Aufhauser sem átti 50 prósent í félaginu, Ker 49,5 prósent og VÍS 0,5 prósent. VÍS átti að auki 12,7 prósent, Samvinnulífeyrissjóðurinn 8,5 prósent og Eignarhaldsfélagið Samvinnutryggingar 7,6 prósent.
Hauck & Aufhauser var því stærsti hluthafinn í Búnaðarbankanum með 16,3 prósent, hlutur Kers var 16,1 prósent, samanlagður hlutur VÍS 6 prósent, hlutur
Samvinnulífeyrissjóðsins 3,9 prósent og Eignarhaldsfélagsins
Samvinnutrygginga 3,5 prósent.

S-hópur fékk lán hjá Landsbankanum /
Skömmu áður en Samson tók við Landsbankanum og gengið var frá samningum milli ríkisins og S-hópsins um Búnaðarbankann var félögum innan S-hópsins veitt
lán upp á 6 til 8 milljarða króna. Lánið var á hagstæðum kjörum, eða 1,4 yfir LIBOR, og var veitt til þess að greiða fyrir greiðslu S-hópsins til ríkisins fyrir Búnaðarbankann. Sú greiðsla hljóðaði upp á 6,7 milljarða.
Um þrír milljarðar af lánsupphæðinni fóru til Eglu, sem þýski bankinn Hauck & Aufhauser átti helmingshlut í, Ker 49,5 prósent og VÍS 0,5 prósent. Hauck & Aufhauser hafði því tekið um 1,5 milljarða króna lán á Íslandi til að fjármagna kaupin á Búnaðarbankanum en S-hópurinn var meðal annars valinn til kaupanna vegna þess að erlendur fjárfestir var þar á meðal.

Sameining við Kaupþing /
Í mars 2003, um tveimur mánuðum eftir að S-hópurinn skrifaði undir kaupsamning um Búnaðarbankann, var tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu Kaupþings og Búnaðarbankans.
S-hópurinn hafði þá átt í margra mánaða viðræðum við Kaupþing um hugsanlega sameiningu og hafði Ólafur Ólafsson átt fundi með Sigurði Einarssyni mánuðum áður en kaupsamningurinn um Búnaðarbankann var undirritaður.
Áður en tilkynnt var um sameiningu Búnaðarbankans og Kaupþings höfðu S-hópsmenn einnig átt í viðræðum við Samson um hugsanlega sameiningu Búnaðarbankans og Landsbankans.
Daginn sem tilkynnt var um fyrirhugaða sameiningu Búnaðarbanka og Kaupþings höfðu Ólafur Ólafsson og Jón Helgi Guðmundsson, fulltrúar S-hópsins, verið á
fundi með Landsbankamönnunum Björgólfi Guðmundssyni, Kjartani Gunnarssyni og Halldóri J. Kristjánssyni um hugsanlega sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans.

Þýski bankinn selur /
Í kaupsamningi milli ríkisins og S-hópsins kom fram að hluthöfum Eglu var óheimilt að selja, eða ráðstafa á annan hátt, hlutum sínum í Eglu í tuttugu og einn mánuð frá undirritun samningsins 16. janúar 2003, nema að fengnu skriflegu samþykki viðskiptaráðherra.
Peter Gatti, fulltrúi Hauck & Aufhauser sem átti helmingshlut í Eglu, sagði við fjölmiðla við undirskrift kaupsamningsins að bankinn myndi halda eignarhlut
sínum í Búnaðarbankanum í að minnsta kosti tvö ár líkt og kveðið væri á um í kaupsamningnum. Að þeim tíma liðnum yrði ávöxtunin metin og fjárfestingin endurskoðuð.
Þrettán mánuðum eftir undirritun kaupsamnings, eða 20. febrúar 2004, keypti Ker þriðjung af hlutafé Hauck & Aufhauser í sameinuðum KB banka. Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra veitti leyfi fyrir viðskiptunum.
Lokagreiðsla S-hópsins fyrir hlut ríkisins í Búnaðarbankanum var reidd af hendi í desember 2003, og þar með lauk einkavæðingu ríkisbankanna.
Alltaf lék mikill vafi um Hauck & Aufhauser. Margir töldu hann fjarri því að vera alþjóðlegan fjárfestingarbanka. Fréttablaðið sendi blaðamann til Þýskalands. Sá sat dag eftir dag á skrifstofu bankans. Enginn bankastjóri sýndi eða annar sem gat talist ábyrgðarmaður bankans. Allt benti til að Hauck & Aufhauser væri ekki umsvifamikill banki.

Þá breyttist allt /
Eftir að ríkisbankarnir voru seldir gjörbreyttist Ísland. Einkum þegar íbúðalánasjóður jók lán og veitti níutíu prósenta veðhlutfall. Viðskiptabankarnir fylgdu eftir og buðu allt að hundrað prósent veðhlutfall. Til að geta keppt tóku bankarnir skammtímalán og lánuðu þau áfram, jafnvel í fjörutíu ár. Öllum átti að vera ljóst að bankarnir gætu ekki endurfjármagnað sömu lánin, jafnvel tuttugu sinnum.
Ísland tók að skera sig frá öðrum löndum. Erlend lán stórjukust. Seðlabankinn varð sýnilega alltof veikur til að vera það afl sem hann átti að vera. Gjaldeyrisforðinn var aðeins brot af því sem nauðsynlegt var. Ekkert var gert.

(GRAF 6)
Á grafinu má sjá hversu mikið við skárum okkar frá öðrum löndum. Samt var haldið áfram. „Hlutfall áhættufjárfestingar Íslands af vergri landsframleiðslu er mjög hátt. Aðeins eitt land hefur hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu bundið í erlendri áhættufjárfestingu, en það eru Sameinuðu arabísku furstadæmin,“ sagði Seðlabanki Íslands.

Skuldir jukust og jukust /
Eftir einkavæðingu beggja bankanna gjörbreyttust innviðir íslensks efnahagslífs. Í 2. hefti 2007 Peningamála Seðlabankans má lesa að þróunin var stöðug og neikvæð. Aðvörunarljós blikkuðu, en lítið var aðgert.
„Íslensku bankarnir hafa að stórum hluta haft milligöngu um útvegun erlends fjármagns til innlendra fjárfesta en bankarnir hafa einnig sjálfir verið umsvifamiklir í fjárfestingu erlendis. Auk þess hefur talsverður hluti af erlendri skuldaaukningu bankanna fjármagnað innlend útlán sem að hluta til hafa verið nýtt af innlendum fjárfestum til fjárfestingar erlendis. Erlend skuldaaukning verður hins vegar ekki rakin til ríkis og sveitarfélaga þar sem hið opinbera greiddi þvert á móti upp talsvert af erlendum skuldum á tímabilinu,“ segir Seðlabankinn.

Og áfram skal skoða gögn Seðlabankans, gögn sem ráðamenn höfðu lesið fram og til baka, en ekkert gert með.
Afgangur á viðskiptajöfnuði er vísbending um að hluti af sparnaði landsmanna hafi verið notaður til að fjárfesta erlendis eða til þess að greiða niður erlendar skuldir. Sé hins vegar halli á viðskiptajöfnuði eru landsmenn aftur á móti að eyða um efni fram og safna erlendum skuldum. Með réttu ætti uppsafnaður viðskiptajöfnuður því að endurspeglast nákvæmlega í þróun hreinnar erlendrar stöðu þjóðarbúsins. Nokkuð gott samræmi var á milli uppsafnaðs viðskiptahalla og hreinnar erlendrar stöðu þjóðarbúsins fram til ársins 2000.
Fram til ársins 1995 var erlendri lántöku og eignamyndun stýrt af opinberum aðilum og lítið um hvort tveggja beina fjárfestingu erlendis og fjárfestingu í erlendum verðbréfum. Með EES-samkomulaginu varð gjörbreyting á heimildum innlendra aðila til erlendra fjárfestinga. Í tengslum við einkavæðingu bankanna, sem hófst á ný árið 1998 og lauk árið 2003, jukust bæði eignir og skuldir innlendra aðila erlendis gífurlega. Þróun skuldastöðunnar frá og með árinu 2000 er talsvert óhagstæðari en uppsafnaður viðskiptajöfnuður virðist gefa tilefni til. Á myndinni sést uppsafnaður viðskiptahalli ásamt þróun hreinnar erlendrar stöðu frá árinu 1996, en það ár var um það bil jafnvægi í viðskiptum Íslands við útlönd. Helsta skýringin á þessu ósamræmi liggur í virðisbreytingum eigna og skulda. Á árunum 2000 til 2002 var til að mynda talsvert verðfall á erlendum hlutabréfamörkuðum sem ætla má að hafi rýrt virði erlendrar verðbréfaeignar Íslendinga um rúmlega sjötíu og tvo milljarða. Á móti vegur að á sama tíma jókst virði erlendra verðbréfa í krónum talið um rúmlega tuttugu og einn milljarð vegna veikingar krónunnar.

Gengu um gleðinnar dyr /
Það er með ólíkindum að lesa útgefið efni Seðlabankans. Frelsi auðmanna var mikið. Þeir höguðu sér greinilega með þeim hætti að stjórnvöld máttu gera athugasemdir, hefja rannsókn eða hvað sem þurfti til að vita hvað var að gerast. Gefum Seðlabankanum aftur orðið:
„Færst hefur í vöxt að íslensk fyrirtæki og einstaklingar færi hlutabréfaeign sína til útlanda beinlínis í því skyni að komast hjá því að greiða skatt af söluhagnaði hlutabréfa, sem er skattskyldur hér á landi en þó eru ákveðnar frestunarheimildir fyrir hendi. Söluhagnaður hlutabréfa er hins vegar almennt undanþeginn skattlagningu í öðrum Evrópuríkjum að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Sem dæmi má nefna Noreg, Svíþjóð, Danmörku og Holland. Þrátt fyrir að slíkur hagnaður sé skattfrjáls í mörgum Evrópulöndum hefur Holland orðið fyrir valinu hjá mörgum innlendum aðilum á síðustu misserum. Ástæðan fyrir því að Holland er vinsælla en önnur lönd er sú að hollensku reglurnar eru rýmri og þægilegri en annars staðar auk þess sem boðið er upp á annars konar skatthagræði. Lágt tekjuskattsþrep á fyrirtæki á Íslandi virðist því ekki duga eitt og sér þegar innlendir fjárfestar taka ákvörðun um hvar lögheimili félaga þeirra eigi að vera.“
Enn er allt á huldu um hversu mikið íslenskir auðmenn hafa flutt út af eignum með þessum hætti.

Hlutur auðmanna /
Talsvert hefur verið fjallað um glannaskap íslenskra auðmanna og fjárfesta. Þegar sex ár eru frá einkavæðingu bankanna kemur í ljós að sú frelsisferð sem þjóðin fór í reynist okkur dýrari en tárum tekur. Sem dæmi þá var Landsbankinn seldur á tólf milljarða, hann borgaði væna skatta og starfsfólkið líka. Það er sennilega aðeins lítill hluti þess sem þjóðin þarf að borga eftir axarsköft stjórnenda og eigenda. En það sem var gert var gert í skjóli stjórnvalda. Sennilegast með afskiptaleysi þeirra.
Íslenskir fjárfestar og kaupsýslumenn keyptu fyrirtæki eftir fyrirtæki, jafnvel aftur og aftur og sífellt varð viðskiptavildin stærri hluti eigna þess sem höndlað var með.

Hér má sjá hvernig íslenska úrvalsvísitalan rauk fram úr þeim norrænu. Við héldum okkur geta meira og kunna meira en fólk annarra þjóða. Helstu ráðamenn sögðu svo, viðskiptamenn sögðu svo og fjölmiðlarnir sem kusu dýrustu útrásarvíkingana menn ársins, ár eftir ár.
Sex árum síðar er Snorrabúð stekkur.
Forsætisráðherrar þessa tíma hafa verið Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde. Þeir sungu útrásinni lof, forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, gerði það, flestir ráðherrar og þeir sem djarfast gengu gerðu það líka. Fjölmiðlar sváfu og þjóðin var teymd áfram. Það er hennar að borga. Hinir komast eflaust undan.

Afleikirnir hjá West Ham

Þegar ég var á Mannlífi skrifaði ég úttekt á aðkomu Íslendinganna hjá West Ham. Þá var Björgólfur enn stjórnarformaður. Vegna umræðunnar birti ég úttektina aftur. Hún er svona:

Eggert Magnússon naut sín sem stjórnarformaður West Ham. Hann varð vinsæll meðal stuðningsmanna og þeir létu meira að segja gera sérstaka boli honum til heiðurs. Þeir kölluðu hann kexbaróninn, en Eggert var aðaleigandi Kexverskmiðjunnar Frón áður en hann söðlaði um, flutti til Lundúna og tók að stýra rekstri West Ham. Á yfirborðinu lék allt í lyndi milli Eggerts og Björgólfs Guðmundssonar. Undir kraumaði hins vegar. Áralöng vinátta Eggerts og Björgólfs, meðeiganda hans, breyttist og samband þeirra er með allt öðrum hætti en áður. Báðir segja fátt en Mannlíf leit undir lokið.

Það var í nóvember 2006 sem þáverandi eigendur enska úrvalsdeildarliðsins West Ham United tóku tilboði Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar í félagið. Kaupverðið var 85 milljónir punda eða nærri sautján milljarðar íslesnkra króna á núgildandi verðlagi.
West Ham var þá í vanda í úrvalsdeildinni. Liðinu hafði ekki tekist að fylgja eftir ágætu gengi fyrri leiktíðar. Stuðningsmenn voru ósáttir og þeir fögnuðu hinum nýju eigendum, ríku Íslendingunum. Eggert varð stjórnarformaður og Björgólfur varð heiðursformaður. Eggert kom fram í fjölmiðlum og hann lofaði að allt yrði gert til að snúa spilinu við. Lofað var að leikmannahópurinn yrði styrktur við fyrsta tækifæri.
BBC tók viðtal við Eggert skömmu eftir yfirtökuna. Þar sagði Eggert:
„Ég geri mér að fullu grein fyrir þeirri persónulegu ábyrgð sem fylgir stöðu stjórnarformanns West Ham og ég heiti starfsfólki og leikmönnum að ég sé hér til að þjóna og gera allt sem ég get til þess að ná árangri, bæði innan og utan vallar.“
Eggert sagðist hafa fullt traust og stuðning frá Björgólfi til að stýra félaginu. „Ég og hann höfum þekkst í gegnum fótbolta í mörg ár og deilum ástríðu á leiknum, sérstaklega hér í Englandi.“
Þessir gömlu vinir nýttu afl hvor annars. Eggert hafði sambönd eftir að hafa verið formaður Knattspyrnusambands Íslands í áraraðir og innan Knattspyrnusambands Evrópu var hann vel þekktur, á þar marga vini og félaga. Það var ekki síst vegna þessara tengsla Eggerts að hugmyndin að kaupunum á West Ham kom til. Eggert hafði ekki bolmagn til að kaupa félagið. Afl Björgólfs voru peningar. Úr varð að þeir keyptu félagið, Björgólfur borgaði. Eggert kom fram út á við og var ekki bara stjórnarformaður heldur einnig forstjóri.
Snemma varð Eggert það þekktur í Lundúnum að hann var víða stöðvaður á götum úti eins og hver önnur stórstjarna. Athyglin var mikil og það var ekki bara vegna Eggerts, yfirlýsinga hans og útlits. Staða West Ham var erfið í deildinni, vafasöm félagaskipti tveggja Argentínumanna skömmu fyrir komu Íslendinganna og fleira varð til þess að augu fjölmiðla og almennings voru á West Ham – og Eggerti.

Umgjörðin /
Nýir tímar voru á Upton Park, heimavelli West Ham.
West Ham er gamalt og vinsælt félag í austurhluta Lundúna. Heimavöllurinn tekur um 35.000 áhorfendur en það er ekki nóg til að reka stórt félag. Eggert setti strax fram hugmyndir um stækkun vallarins, byggingu nýs vallar eða að West Ham kæmi að Ólympíuleikvanginum sem verður byggður, þar sem næstu Ólympíuleikar verða í Lundúnum, 2012.
Lengi vel leit út fyrir að ekki kæmi til greina að West Ham fengi Ólympíuleikvanginn að loknum leikunum en það hefur breyst og ekki er langur tími þar til ræðst hvort svo verði eða ekki. Bygging nýs vallar yrði dýr og stækkun á Upton Park yrði helst til erfið sökum þess að þá þyrfti að rífa niður blokkir þar sem nú eru félagslegar íbúðir. Það gæti lagst illa í þá sem þar búa og aðra stuðningsmenn félagsins. West Ham er ágætlega vinsælt félag með trygga áhorfendur. Uppselt er á flesta ef ekki alla heimaleiki og þess vegna yrði unnt að fylla stærri völl.
Umræðan um nýjan völl hefur haft truflandi áhrif á annað starf innan West Ham en mestu skiptir að félagið festi sig í sessi og sæki fram í keppni meðal bestu liða Englands.

Flottheit /
Áður en lengra er haldið er rétt að stökkva aðeins til baka í sögunni. Eftir að störfin hlóðust á Eggert sýndi hann snemma að hann kunni vel við sig í sviðsljósinu og eftir því sem það varð skærara varð skugginn stærri og kaldari. Í honum stóð Björgólfur, sá sem borgaði allt. Seinna fann Björgólfur að þessu í viðtali, sagði að líta mætti á Eggert sem tákn, frekar en annað. Björgólfur hefur víða sýnt ráðdeild í eigin lífi. Hann eldar sér stundum sjálfur hafragraut í morgunmat.
Þegar West Ham barðist fyrir lífi sínu í Úrvalsdeildinni fór Björgólfur á leik, ásamt félögum sínum í KR, þar sem West Ham mætti á Emirates, nýjan völl Arsenal. Björgólfur hafði afráðið að bjóða gömlum vinum í hóf á Upton Park að loknum leik Arsenal og West Ham. Hann leigði rútu til að aka þeim milli borgarhverfa. Svo fór að West Ham vann leikinn öllum að óvörum og enn er þetta eina tap Arsenal á nýja heimavellinum.
Eftir leikinn, þegar Björgólfur og gestir hans höfðu sest í rútuna, var ferð hennar stöðvuð. Hleypa varð áfram þremur svörtum eðalvögnum. Eggert sat í þeim fyrsta og í hinum tveimur sátu gestir hans. Þegar Björgólfur sá hvers kyns var og gerði sér grein fyrir að óhófið var á reikning West Ham, fauk í hann. Sjálfur var hann, aðaleigandinn, í rútu en Eggert leigði þrjá eðalvagna. Sú staðreynd að Eggert átti til að leigja einkaflugvélar eða þotur til að ferðast á útileiki jók á pirring Björgólfs.
Þetta og annað varð til þess að Björgólfi var nóg boðið og leiðir þeirra skildu. Í dag er samband þeirra breytt, þeir talast við en sameiginleg verkefni eru engin. Auk þess sem hér hefur verið talið fór rekstur Eggerts á annan hátt en að var stefnt. Hann var stjórnarformaður og forstjóri og ábyrgðin því helst hans.

Alan Pardew rekinn /
Þrátt fyrir nýja eigendur tókst ekki að snúa gengi West Ham við. Svo fór að framkvæmdstjórinn, Alan Pardew, var rekinn. Það var gert þrátt fyrir að Eggert hefði ítrekað í fjölmiðlum að Alan nyti fulls trausts stjórnarinnar. En Alan Pardew olli vonbrigðum meðal stuðningsmanna þar sem hann notaði Argentínumennina Carlos Tevez og Javier Mascherano lítið sem ekkert. Ferill þeirra fram að þeim tíma var með þeim hætti að ómögulegt þótti annað en þeir myndu styrkja vængbrotið lið West Ham. Eftirmálar urðu af veru þeirra hjá West Ham.
Eftir að Pardew var látinn fara skiptust hann og Eggert á ónotum í fjölmiðlum. „Það hafði greinilega skapast mikil spenna á milli leikmanna og knattspyrnustjórans en það var ekki tímabært að ræða þessa hluti opinberlega,“ sagði Eggert við News of the World. Alan Pardew, sem varð knattspyrnustjóri Charlton, svaraði í viðtali við breska blaðið The Mirror. Hann sagðist aldrei sætta sig við að hafa verið rekinn úr starfi knattspyrnustjóra hjá West Ham og hann segir það hafa verið ranga ákvörðun hjá Eggerti Magnússyni, stjórnarformanni West Ham, að láta sig fá reisupassann og bætti við að hann vildi ekki fara í orðaskak við Eggert. ,,Ég tel það ekki við hæfi að fara út í eitthvert stríð við Magnússon. Þetta var hans ákvörðun að láta mig fara og hann verður að lifa við það, hvort sem það var rétt eða rangt. Að mínu mati tók hann ranga ákvörðun. Ég var afar vonsvikinn því ég taldi mig geta rétt við gengi liðsins,“ sagði Pardew í viðtalinu. Pardew sagðist hafa fengið stuðning frá fjölmörgum áhangendum West Ham eftir að íslensku eigendurnir tóku þá ákvörðun að skipta um knattspyrnustjóra. „Ég fékk hundruði bréfa og korta frá stuðningsmönnum félagsins sem óskuðu mér velgengni og þökkuðu mér fyrir störfin hjá West Ham.“
Þrátt fyrir að Eggert Magnússon hafi sagt Pardew njóta fyllsta trausts aðeins viku á undan, sannfærði uppgjöf liðsins gegn Bolton hann um að breytinga væri þörf.
Eggert kallaði Pardew á teppið á Upton Park þar sem hann var látinn taka pokann sinn og komust þeir að samkomulagi um að Pardew fengi greidda eina milljón punda fyrir þau þrjú ár sem eftir voru af samningi hans við félagið.
Eggert Manússon lét ekkert hafa eftir sér varðandi brottrekstur Pardew en í yfirlýsingu frá West Ham sagði: „Framlag Alans hefur verið mikilvægt síðan hann kom til félagsins í september árið 2003 en árangurinn þetta tímabil hefur valdið vonbrigðum og skilur hann við liðið í erfiðri stöðu. Slakur árangur liðsins hefur valdið Eggerti Magnússyni og stjórninni miklum áhyggjum síðustu vikur og telur hann réttan tíma til þess að gera breytingar.“
Pardew sagði: „Þegar ég tók við keflinu var liðið stefnulaust í fyrstu deild. Tvö tímabil í röð komumst við í úrslitaleikinn um að komast upp í úrvalsdeildina og komumst upp seinna árið eins og liðið átti skilið. Stuðningsmennirnir hafa staðið með mér og ég mun ávallt minnast stuðningsins og þeirrar tryggðar sem þeir hafa sýnt mér í gegnum erfiðleika þessa tímabils.“

Enskir fjölmiðlar höfðu áhuga á West Ham og ekki síst á Eggerti. Hér er eitt viðtalanna sem voru höfð við hann áður en Pardew var rekinn.
„Ég hef sagt Alan að þetta sé hans lið,“ sagði Eggert, en þetta sagði hann líka í síðustu viku. „Það er ekki mitt að segja þér hvaða leikmenn eiga að vera inni á vellinum því þú verður dæmdur eftir árangri liðsins. Þannig að það er þinn háls sem er á höggstokknum og verður höggvinn ef þú nærð ekki árangri á endanum.“ Þetta var ekkert grín, jafnvel þó að spunameistarar hans hafi reynt að koma því að. Skilaboðin voru skýr. Háls Pardews var þegar á höggstokknum og verið var að brýna hnífinn. Svo mörg og ákveðin voru þau orð.

Alan Curbishley ráðinn /
Alan Curbishley, sem hafði áður náð eftirtektarverðum árangri með Charlton sem Hermann Hreiðarsson lék sem lengst með, var á lausu. Eftir að hann hætti með Charlton hafði hann ekki tekið að sér nýtt starf. Alan er stuðningsmaður West Ham frá blautu barnsbeini. Fjölskylda hans styður öll West Ham og hann lék með West Ham á árum áður. Sjálfur hefur hann sagt að hann hafi ekki verið góður í fótbolta en hann nýtur virðingar fyrir árangurinn með Charlton.
Eftir að Alan Curbishley var ráðinn sagði hann svo frá í viðtali að hann hafi verið á bensínstöð þegar eldri maður, stuðningsmaður West Ham, vék sér að honum og spurði hvort hann ætlaði ekkert að gera til bjargar félaginu sem var í skammarlegri stöðu í deildinni að mati stuðningsmannanna.
Breska blaðið Telegraph sagði fréttir af tíðindunum hjá West Ham. Í einni af fréttum blaðsins sagði: „Alan Curbishley hefur verið ráðinn til þess að taka við stöðu þjálfara hjá West Ham eftir að hinir nýju íslensku eigendur ráku Alan Pardew fyrir að hafa misst liðið í fallbaráttuna og staðnæmst þar.
Hinn nýi stjórnarformaður Eggert Magnússon og hans fjárhagslegi bakhjarl, Björgólfur Guðmundsson, tóku ákvörðunina eftir niðurlægjandi tap gegn Bolton 4-0. Eftir að hafa svo tapað 2-0 fyrir Wigan á heimavelli þremur dögum seinna var West Ham komið í þriðja neðsta sæti deildarinnar og fram undan leikur gegn efsta liðið deildarinnar, Manchester United.“
Eftir að hafa keypt liðið fyrir átján milljarða króna höfðu þeir Eggert og Björgólfur ákveðið að láta Pardew ekki fá meira en þrjá milljarða til leikmannakaupa í janúar.
Curbishley, fyrrum stjóri Charlton, var undir eins nefndur til þess að taka við af Pardew þrátt fyrir að heimildarmenn innan félagsins hefðu fullyrt að ekkert samband hefði verið haft við hann.
Curbishley hóf feril sinn hjá West Ham og var tilbúinn til að taka við stöðu þjálfara eftir sex mánaða frí. Eigendur West Ham vildu helst finna arftaka sem alist hefði upp hjá félaginu í stað þess að leita langt yfir skammt eftir þjálfara. Þar til Curbishley kom til starfa stýrði aðstoðarmaður Pardew, Kevin Kenn, liðinu.
Eftir að Alan Curbishley tók við fór ýmislegt að gerast. Áður höfðu komið, á sérstökum leigusamningum, til West Ham tveir af helstu leikmönnum argentínska landsliðsins, sóknarmaðurinn Carlos Tevez og miðjumaðurinn Javi Mascherano en eins og sagði fyrr þá hafði Alan Pardew ekki notað þá að neinu ráði. Mascherano fór til Liverpool þar sem hann leikur veigamikið hlutverk. Tevez lék hins vegar leiktímabilið á enda, fékk fasta stöðu í liðinu og var sá leikmaður sem mest munaði um. Hann til að mynda skoraði sigurmarkið í síðustu umferð deildarinnar en þá lék West Ham á Old Trafford gegn Manchester United. West Ham varð að vinna leikinn og gerði það. Carlos Tevez hafði þar leikið síðasta leikinn fyrir West Ham. Hann gekk til liðs við Manchester United og varð Englands– og Evrópumeistari með þeim. Hvorugur þeirra, Mascherano Tevez komust í liðið hjá Alan Pardew.
Svo fór að Alan Pardew féll með sitt lið milli deilda en West Ham bjargaði sér með undraverðum hætti.
„Margt varð að koma til svo West Ham félli ekki milli deilda vorið 2007. Ekkert virtist geta bjargað félaginu frá falli. Það var kraftaverk margra þátta sem varð til þess að liðið féll ekki. Eggert með sitt keppnisskap skipti eflaust miklu máli,“ sagði einn af viðmælendunum.
Sheffield United féll einnig. Forsvarsmenn þess félags undu því ekki að West Ham hafi ekki verið dæmt milli deilda fyrir að hafa notað Argentínumennina en þeir voru á loðnum leigu- eða lánssamningum. Sheffield United höfðaði mál sem enn er í gangi. Til þess hafa allir úrskurðir fallið West Ham í vil. Ljóst er að West Ham verður ekki sett niður um deild nokkrum árum síðar en Sheffield er ekki síst að freista þess að fá peninga í bætur.

Út með forverann /
Fyrrum stjórnarformaður, Terry Brown, gerði samning við nýju eigendurna, Eggert og Björgólf. Þar var meðal annars ákvæði um að hann fengi fjóra ársmiða í heiðursstúkuna og fleira af því sem þykir fínast. Þegar hnúturinn hertist vegna þess hvernig hann hafði staðið að komu Argentínumannanna urðu samskipti hans og nýju eigendanna erfiðari en ella hefði verið.
Eggert fékk sig fullsaddan og skrifaði Terry Brown bréf þar sem hann rifti samningnum um hlunnindin. Ef Brown vildi á völlinn gæti hann barasta keypt sér miða rétt eins og aðrir stuðningsmenn. Eftir að Eggert hvarf frá Upton Park hefur verið ákveðið að slíðra sverðin. Terry Brown hefur nú aðgang að heiðursstúkunni.

Upp með veskið /
Áfram að keppnisliðinu og þrengingum þess. Ákveðnar reglur eru um hvenær félög í ensku knattspyrnunni mega kaupa leikmenn. Eftir 1. september og til 1. janúar er bannað að kaupa leikmenn en í janúarmánuði er heimilt að kaupa leikmenn. Þekkt er að þau félög sem verst standa um áramótin nýti sér þetta svigrúm og bæti við sig leikmönnum. Það er dýrt að falla milli deilda og öll félög reyna að forðast fall. Oftast er tvennt til ráða, reka þjálfarann eða kaupa nýja leikmenn.
Eggert Magnússon var búinn að reka þjálfarann og ráða nýjan þegar félagsskiptaglugginn var opnaður, það er 1. janúar 2007. West Ham var í erfiðri stöðu og til að bjarga því sem bjargað varð var farið á stúfana. Með troðfullt veski keyptu Alan Curbishley og Eggert nokkra leikmenn. Fæstir þeirra hafa gagnast félaginu sem nokkru nemur og fjárhagslegt tap af kaupunum er mikið og yfirþyrmandi.
Leikmannakaupin í janúar 2007 og sumarið sama ár hafa reynst félaginu erfið. Ekki einungis vegna þess hversu margir leikmenn voru keyptir heldur ekki síður vegna þess að Eggert Magnússon var örlátur í samningum og laun leikmanna hækkuðu. Tekjur West Ham drógust saman um rétt 390 milljónir króna á síðasta ári, en launakostnaðurinn jókst um rétt tvo milljarða króna.
Margt fór öðru vísi en ætlað var. Ekki gekk að selja leikmenn eins og til stóð. Alan Curbishley, stjóri West Ham, óttaðist stöðu mála. Lykilleikmenn voru meiddir og þá helst þeir sem höfðu verið keyptir til félagsins. Kunnugir segja þetta hafa breytt miklu. Ekki hafi verið talið þorandi að fækka mikið í leikmannahópnum eins og planað var og þess vegna hafi reksturinn verið dýrari en ætlað var.

Það er gott að vera vitur eftir á. Einn af leikmönnunum sem Alan og Eggert keyptu var Skotinn Nigel Quashie. Hann kostaði 320 milljónir íslenskra króna og vegna þess hversu örlátur Eggert var í samningum var Skotanum boðið að hafa um 260 milljónir króna á ári í laun. Nú er eitt og hálft ár frá því Nigel Quashie kom frá West Brom. Hann hefur samtals kostað, laun og kaupverð, um 750 milljónir íslenskra króna. Nigel hefur spilað átta leiki fyrir West Ham. Þátttaka Nigels hefur því kostað West Ham meira en áttatíu milljónir í hverjum leik sem hann hefur spilað.

Freddie Ljungberg /
Björgólfur Guðmundsson og meðráðendur hans hafa gert starfslokasamning við Svíann Freddie Ljungberg. Kaupin á honum eru eflaust þau sem mest er búið að gagnrýna. Ekki nóg með að Freddie, sem hafði gefið talsvert eftir sem leikmaður, hafi verið keyptur frá Arsenal fyrir 585 milljónir heldur var og gerður við hann risasamningur sem tryggði Svíanum laun á við það hæsta sem gerist í fótboltanum. Freddie Ljungberg hafði setið fyrir í nærfataauglýsingum og þótti mikill kroppur. Eggert rökstuddi launin meðal annars með því hversu vel Freddie hefði tekist upp sem fyrirsætu. Svo fór að Svíinn lék ekki marga leiki fyrir West Ham og framlag hans verður seint talið mikið. Hann fékk um einn milljarð í starfslokasamning en áður var búið að borga Arsenal um 585 milljónir fyrir hann og borga honum laun í eitt ár. Þegar starfslokasamningurinn var gerður lifðu þrjú ár af samningi Freddie Ljungberg og West Ham. Talsmenn félagsins telja sig því hafa afstýrt enn frekara tapi með því að borga Freddie milljarð og kveðja fyrir fullt og allt.
Þegar Mannlíf leitaði til annarra sem þekkja söguna vel kemur fram að framkvæmdastjórinn, Alan Curbishley, hafi lagt áherslu á að fá Svíann Freddie Ljungberg. Eggert hafi ásamt sínum aðstoðarmanni náð samningnum en til þess á Eggert að hafa beitt sér af krafti þar sem erfitt er að fá bestu leikmenn til að ganga til liðs við önnur félög en þau fjögur bestu. Eftir að Eggert hitti umboðsmann Freddie tókust samningar. Viðmælandinn segist viss um að það hafi ekki bara verið vegna peninganna sem Ljungberg gekk til liðs við West Ham. „Eggert sannfærði Freddie og umboðsmanninn um að eigendur og stjórnendur West Ham ætluðu sér að ná árangri. Það var helst vegna sannfæringarkrafts Eggerts að hægt var að uppfylla ósk framkvæmdastjóra West Ham um að fá Freddie Ljungberg.“
Einn af viðmælendunum benti á hversu stutt sé á milli öfganna. Hafi Freddie Ljugnberg ekki meiðst og náð að spila fína leiki fyrir West Ham væri umræðan önnur. Og vont sé við því að gera þegar leikmenn standa ekki undir vætningum eða meiðast. „Það er gott að vera vitur eftir á.“

Milljarðarnir fuku /
Eggert keypti marga leikmenn í janúar 2007. Búið er að nefna Nigel Quashie en kaupin á honum eru um margt sérstök. Hann var keyptur fyrir háar fjárhæðir og honum borguð há laun eða um 260 milljónir á ári.
Aðrir leikmenn sem voru keyptir við fyrsta tækifæri voru varnarmaðurinn Calum Davenport. Hann var áður hjá Tottenham og hafði lítið spilað, þótti ekki nógu góður. West Ham borgaði um 585 milljónir króna fyrir Davenport og hann hefur nærri tuttugu  milljónir á mánuði. Rétt er að taka fram að hann hefur nánast ekkert spilað fyrir West Ham og fjárfestingin í honum, sem lætur nærri að vera milljarður þegar allt er reiknað með, hefur engu skilað hingað til.
Varnarmaðurinn Matthew Upson var keyptur frá Birmingham fyrir nærri 1.700 milljónir. Hann hefur um 470 milljónir íslenskra króna í árslaun. Matthew hefur spilað marga leiki eftir að hann  kom til West Ham. Hann hefur staðið sig með ágætum og meðal annars hefur hann spilað landsleiki fyrir England eftir að hann kom til West Ham. Ljóst er að miðað við svo margt annað, hafa kaupin á Upson reynst ágæt.
Síðast ber að nefna Carlton Cole, sóknarmann sem var á mála hjá Chelsea. Hann kostaði 300 milljónir og honum eru borgaðar nokkuð á annað hundrað milljónir á ári.
Samtals keypti West Ham á þessum tíma sjö leikmenn fyrir rétt um fimm milljarða króna og borgaði svo há laun að jafnvel ríkustu félög, samanber Liverpool, kepptu ekki við Íslendingana.

Úr hagnaði í mikið tap /
Ágætur hagnaður varð af rekstri West Ham síðasta heila starfsár fyrrverandi eigenda, sex milljónir punda, eða um milljarður íslenskra króna. Á starfsárinu 2006 til 2007, en Björgólfur og Eggert keyptu West Ham í nóvember 2006, var hins vegar verulegt tap á rekstrinum, 22 milljónir punda, eða meira en fjórum milljarði króna. Tekjur drógust saman, mestur samdrátturinn varð í sýningarrétti og í greiðslum frá styrktaraðilum.
Gjöldin stórhækkuðu. Launakostnaður jókst úr 31 milljón punda, tæpum sex milljörðum króna, í 44 milljónir punda, nærri sjö milljarða íslenskra króna.
Annar rekstrarkostnaður jókst verulega á milli ára, úr fimmtán og hálfri milljón punda í tæplega 24 milljónir, eða úr tveimur milljörðum íslenskra króna í hátt í fimm milljarða. Þar munar talsvert um sektargreiðslur vegna Carlos Tevez, sem voru um fimm milljónir punda, rétt um 980 milljónir íslenskra króna. Það er kannski ekki mikið þegar horft er til þess að Tevez lék stærsta hlutverk allra leikmannanna til að forða félaginu frá falli eins og áður var getið um.

Veskið galopið /
Eftir að félagið bjargaði sér frá falli á ögurstund var hafist handa við að styrkja leikmannahópinn fyrir leiktímabilið 2007 til 2008.
Frægust eru kaupin á Freddie Ljungberg sem getið var um hér að ofan. Eftir að hann var leystur undan samningi hefur West Ham sent frá sér yfirlýsingu þar sem allri ábyrgð á kaupverði og kjörum er skellt á Eggert.
Frá Newcastle voru keyptir tveir leikmenn; Scott Parker og Kieron Dyer. Scott kostaði sjö milljónir punda, á annan milljarð, og Kieron kostaði sex milljónir punda, eða rétt um 1.300 milljónir íslenskra króna. Heimildir segja Eggert hafa verið rausnarlegan þegar hann samdi um laun við þá félaga. Scott Parker mun hafa um átta milljónir á viku, eða meira en fjögur hundruð milljónir íslenskra króna á ári og Kieron Dyer hefur víst vel yfir hálfan milljarð á ári. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa meiðst og gagnast lítið eða ekkert. Scott Parker byrjaði ekki að leika með West Ham fyrr en vel var liðið á leiktímabilið og Kieron Dyer lék rétt í upphafi, þá fótbrotnaði hann illa og hefur síðan ekkert gagn gert.
Welski sóknarmaðurinn Graig Bellamy hafði víða farið og unnið sér það til frægðar að vera til vandræða. Þegar Eggert og Alan Curbishley keyptu Bellamy greiddu þeir Liverpool nærri 1.300 milljónir íslenskra króna og árslaunin voru ekkert slor, eða vel á sjö hundrað milljónir á ári. Bellamy þykir ágætur fótboltamaður en West Ham hefur haft takmarkað gagn af honum vegna þrálátra meiðsla.
Ástralski varnarmaðurinn, Lucas Neill, var keyptur frá Blackburn. Fullyrt er að hann hefði getað farið til Liverpool en Eggert bauð laun sem Liverpool réð ekki við, eða um 250 milljónir króna á ári. Lucas kostaði nærri 325 milljónir króna. Hann er fyrirliði West Ham og hefur átt fast sæti í liðinu, en hann er hægri bakvörður.
Fyrirliði Fulham, Portúgalinn Luis Boa Morte, vildi leita á önnur mið. Eggert birtist með galopið veskið og borgaði um 975 milljónir fyrir Boa Morte og bauð honum á fjórða , í laun á ári. Luis Boa Morte hefur leikið nokkra leiki fyrir West Ham, en hann hefur fjarri því staðið undir væntingum og verðmiðum.
Að lokum keypti West Ham franskan landsliðsmann, Julian Faubert, og borgaði um milljarð fyrir. Hann hefur innan við 400 milljónir íslenskra króna í laun á ári. Hann meiddist illa og kom aðeins við sögu í átta leikjum.

Frægðin og framtíðin /
Kastljósið skein lengst á Eggert Magnússon. Hann er sagður hafa þreyst á athyglinni meðan aðrir segja hann hafa notið hennar. Engum dylst að Eggert vann mikið, langa vinnudaga, og starfinu fylgdi spenna. Liðið við það að falla, óvissa vegna Argentínumannanna og eins að fjárhagur félagsins hafi verið verri en benti til þegar kaupin voru afráðin.
Nýtt leiktímabil er hafið. Væntingar og vonir eru miklar. Krafa er gerð á að West Ham standi sig vel. Til að komast í hóp stærstu liða þarf margt að gerast. Helst þarf að auka tekjurnar til að þær standi undir þeim mikla kostnaði sem fylgir að reka félag í fremstu röð. Það sem af er nýhafinni leiktíð er ljóst að enn er langt í land. Síðustu fréttir voru að Anton Ferdinand hefði verið seldur til Sunderland fyrir tvo milljarða.
Eggert Magnússon mun ekki koma að þeim ákvörðunum sem fram undan eru og hann mun ekki verða meðal þeirra sem fagna standist liðið væntingar.
Uppfærði fjárhæðir miðað við stöðu krónunnar gagnvart pundi og breytingar frá september 2008 til dagsins í dag.
Margar breytingar hafa orðið hjá West Ham, leikmenn hafa farið og aðrir komið og Curbishley er ekki lengur framkvæmdastjóri, því starfi gegnir Zola nú, einsog allir þeir vita sem hafa lesið alla úttektina.

(Ég er stuðningsmaður West Ham. Ég þekki bæði Björgólf Guðmundsson og Eggert Magnússon. Björgólf mun betur. Ég hef tvisvar þegið miða á Upton Park. Í annað sinnið í formannsstúkuna. Þá var Eggert stjórnarformaður og Björgólfur heiðursformaður).

Tapið skilið eftir í Borgarfirði

 SPMArnar Bjarnason, eigandi Reykjavík Invest, sem átti að fá keyptan tveggja og hálfs prósentahlut í Byr, af skilanefnd Landsbankans, er einnig skráður forsvarsmaður fyrir félagið Reykjavík Capital. Hann seldi Sparisjóði Mýrasýslu það félag, og Sparisjóðurinn mun hafa tapað drjúgt á þeim viðskiptum. Síðar seldi Sparisjóðurinn félagið sem þá hét NordVest Verðbréf hf. Tapið af viðskiptunum varð eftir í Borgarfirði.

Arnar hefur stofnað annað félag undir fyrra nafninu, það er Reykjavík Capital. Þar er Lárus Finnbogason, skilanefndarformaður í Landsbankanum, endurskoðandi rétt einsog í Reykjavík Invest. Arnar Bjarnason er framkvæmdastjóri og prókúruhafi NordVest Verðbréf, jafnt og hann var þegar félagið var í hans eigu, áður en hinn lánlausi Sparisjóður keypti og tapaði og einsog hann var þegar félagið hét Reykjavík Capital einsog hið nýja félag Arnars heitir nú. Í stjórn NordVest eru; Þórarinn Ingi ÓlafssonRóbert Agnarsson, Þórbergur Guðjónsson, Sigurður Ingi Leifsson, Einar Þorvaldur Eyjólfsson og Óðinn Sigþórsson. Kunnugir segja þá tengjast Kaupþingi og Sparisjóði Mýrarsýslu.