Monthly Archives: maí 2009

Kenna glannaskap

Þegar ég lærði að aka mótorhjóli var mér gert að sitja nokkra klukkutíma í því sem kalla má forleik að glannaskap. Ég mætti í Háskólann í Reykjavík þar sem kennarar í mótorhjólaakstri leigðu sér aðstöðu. Ekki er mögulegt að fá að taka verklegt próf eða skriflegt nema hafa áður setið og hlustað á forleikinn að glannaskapnum.
Í stuttu máli. Það er algjör niðurlæging að sitja og hlusta á fullorðinn mann fara aftur og aftur yfir hvernig á að aka mótorhjóli á miklum hraða. Minnir að hann hafi meðal annars sagt að hægt sé að keyra frá Reykjavík í Vík í Mýrdal á rúmum klukkutíma. Man hann að sagði að kólnunin væri það mikil að horinn væri gegnfrosinn á Hvolsvelli. Fleiri sögur af glannaskap og vitleysu runnu út úr fræðaranum. Hann lék dauðaslys og öskraði og ýlfraði. Hnakkinn aftan við ökumannssætið kallar hann dömubindi. Annað er á sama veg.
Ungur nemandi spurði eitthvað á þessa leið: Þegar er rautt ljós á tvöfaldri akgrein, má þá fara á milli bílanna? Fræðarinn sagði nei, en bætti svo við, en þegar þið gerið það…
Annað var eftir þessu. Hann sagði meðal annars að hann hafi verið spurður ítrekað hvers vegna hann væri að kenna hvernig eigi að haga akstri á 200 kílómetra hraða. Hann sagðist verða að gera, vegna þess að þannig aki flestir. Og áfram hélt vitleysan. Til að fá að aka Vespunni varð ég að þola tvennt; hlusta á bullið og borga fyrir það.

Sennilega ekki einsdæmi

TinniÍ þrotabúi Fjölva eru nokkur tímarit, Tinni og fleira. Leitaði til skilanefndar með þreifingar um kaup á tímaritunum. Á svo sem ekki mikla peninga en hélt að hægt væri að reka sum tímaritin. En þar sem sinna verður áskrifendum var öllum ljóst að niðurstaða yrði að fást fljótt. Áskrifendastokkur er svipaður og lifandi jurt, það verður að vökva, það verður að viðhalda.
Þrátt fyrir viljann fékkst ekkert svar og nú er líklegast búið að eyðileggja áskriftarstokkana. Eyða verðmætunum.
Segjum sem svo að ég hefði bara ekki getað rekið tímaritaútgáfuna, þá hefði ég tapað peningum. Ekki miklu, en tapað samt.
En ef mér hefði tekist að reka útgáfuna samkvæmt gefnum forsendum, hefðu orðið til tvö, þrjú eða jafnvel fleiri störf. Að auki hefði orðið meira að gera hjá bókhaldara, prentara, þeim sem dreifir og svo má áfram telja. Ég hef unnið lengi við fjölmiðla og hef ágæta reynslu, kann að loka blöðum, kann að afla efnis og annað sem er gott í grunninn í svona rekstri.
Skilanefndin, eða þeir sem tóku ákvörðunina, ákváðu semsagt að gera ekki neitt. Svara engu, gera ekkert.
Trúlegast er þetta ekki eina svona dæmið. Trúlegast er búið að deyða máttlítil fyrirtæki í stað þess að leyfa öðrum að spreyta sig.
Og atvinnuleysið er meira nú en áður.

Starfsmenn borguðu

Rétt skal vera rétt. Það var starsfólk Kaupþings sem hélt sjálfu sér veislu og sagt var frá hér að neðan.

Ríkisbankinn borgaði ekkert. Heldur voru það starfmennirnir sem notuðu eigin sjóð til að skemmta sér. Svo spilaði Egó ekki, heldur var Bubbi Morthens einn á ferð.

Enn fyrir dómi

Rúnar Þór Róbertsson, sem var böstaður í Papeyjarmálinu, hefur stefnt mér og Erlu Hlynsdóttur, fyrir að nefna hann kókaínsmyglara. Enn og aftur þarf að verja tíma vegna meiðyrðamáls sem getur ekki annað en unnist.

Rúnar Þór var sýknaður af málinu í Hæstarétti en fór í málið við ríkið og krafðist bóta fyrir að hafa setið í gæsluvarðhaldi. Héraðsdómur hafnaði Rúnari Þór og sagði meðal annars: „Lögreglan rannsakaði innflutning á miklu magni sterkra fíkniefna. Stefnandi máls þessa var í reynd innflytjandi bifreiðarinnar þar sem efnin voru falin. Hann tollafgreiddi bifreiðina og var nærstaddur er leitað var að efnunum og pakkningar fjarlægðar. Með þessu var fram kominn rökstuddur grunur um að hann stæði sjálfur að eða ætti hlut að innflutningi efnanna.”

Þetta má líka lesa í dómi Héraðsdóms. „Stefndi segir að framburður stefnanda hjá lögreglu hafi verið ótrúverðugur. Hann hafi neitað að svara mörgum spurningum og gefið röng svör.  Hann hafi ítrekað sagt ósatt um fjármál og kaup á gjaldeyri. Hann hafi sjálfur með framburði sínum stuðlað að aðgerðum gegn sér.”

Rúnar Þór fékk gjafsókn hjá dómsmálaráðuneytinu, í ráðherratíð Björns Bjarnasonar, til að freista þess að klípa nokkrar krónur af mér og Erlu Hlynsdóttur.

Ekki 2009

Var sagt í dag að Kaupþing hefði blásið til fjögur hundruð manna veislu, flottar veitingar og opinn bar. Allt á kostnað ríkisbankans. Egó og Jóhanna Guðrún voru sögð hafa sungið fyrir gesti ríkisbankans. Sagði við sögumann, að svona geri menn ekki, ekki árið 2009. Hann hristi höfuðið, og sagði; ójú, víst.

Liðsheild Framsóknar

XB1Dagný Jónsdóttir, sem var þingmaður Framsóknarflokksins, greiddi atkvæði geng eigin sannfæringu og gegn máli sem hún hafði þó barist fyrir að næði fram. Tengdist málefnum stúdenta. Þegar hún var spurð hvers vegna hún hefði greitt atkvæði gegn eigin sannfæringu, sagðist hún vera í liði. Það er flokkurinn vildi að hún gengi gegn eigin sannfæringu, og hún gerði það.

Sá þetta haft eftir Birki Jóni Jónssyni, varaformanni flokksins: „Það er erfitt að tjá sig um þingsályktunartillögu sem ekki er komin fram, en það gefur auga leið að við Sigurður Ingi [Jóhannsson] munum fylgja stefnu flokksins.“

Liðsheild Framsóknar heldur enn. Þingmenn taka drengskaparheitið greinilega ekki alvarlega. Vel má vera að þingmennirnir Birkir Jón og Sigurður Ingi séu á móti málinu. Þá eiga þeir að segja það og greiða atkvæði samkvæmt því. Þingmenn mega ekki endalaust grafa undan þinginu.

Ofbeldi í fótbolta

Alveg er einstakt hversu hörundsárir dómarar geta verið og hversu miklar refsingar tíðkast innan fótboltans. Þegar Milan Stefán Jankovic, þáverandi þjálfari Grindavíkur, lét í ljósi vonbrigði sín eftir að lið hans var beitt verulegu misrétti, er eina lausn þeirra sem ráða, það er dómara og KSÍ, að refsa vonsviknum þjálfara, og það svo um munar.

Öllum er ljóst að í besta falli var dómari leiks Grindavíkur og Fjölnis einstaklega seinheppinn. Rangindi hans í garð Grindvíkinga voru mikil. Þjálfaranum var nóg boðið og sagði það. Honum var refsað.

Ekki er mögulegt að í starf þjálfara ráðist skapleysur. Þess vegna er ekkert að því að þeir tjái sig afli. Einkum þegar þeir hafa mikið til síns máls. Var ekki svipað máli uppi í fyrra í garð Guðjóns Þórðarsonar.

Halldór hafði betur

Halldór_ÁsgrímssonÞetta var ekki í fyrsta sinn sem Framsóknarflokkurinn hefur barist til að halda þingflokksherberginu sem hefur verið aðstaða flokksins í áratugi. Eftir kosningarnar 2003 var sótt að Framsókn um að fara úr herberginu. En tókst ekki.

Þá var Halldór Ásgrímsson formaður flokksins og hann hafði greinilega meira vægi en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson núverandi formaður flokksins hefur.

Halldór hafði í gegn að tólf þingmenn Framsóknarflokksins héldu stóru þingflokksherbergi meðan tuttugu þingmenn Samfylkingarinnar urðu að gera sér að góðu mun minna herbergi, það er sama herbergi og Framsókn verður nú að gera sér að góðu.

Grunaði ekki Gvend

sitelogoEf ég man rétt birtist fyrir ekki mörgum vikum frétt í Mogganum að bótasjóðir tryggingafélaganna væru ósnertir af eigendum sínum. Fréttin var frá Fjármálaeftirlitinu, ef mér brestur ekki minni.

Var það þá svo að eigendurnir voru búnir að veðsetja bótasjóðina? Og ef svo er hver er þá staða tryggingarfélaganna til að mæta stórum tjónum. Það eru viðskiptavinirnir sem hafa byggt upp sjóðina og í gegnum árin hafa verið deilur um þörf fyrir sjóðina, en rökstuðningur fyrir háum iðgjöldum hefur einmitt vera þörfin fyrir stórum og traustum bótasjóðum.

Hvað breyttist?

Tapið skilið eftir í Borgarfirði

 SPMArnar Bjarnason, eigandi Reykjavík Invest, sem átti að fá keyptan tveggja og hálfs prósentahlut í Byr, af skilanefnd Landsbankans, er einnig skráður forsvarsmaður fyrir félagið Reykjavík Capital. Hann seldi Sparisjóði Mýrasýslu það félag, og Sparisjóðurinn mun hafa tapað drjúgt á þeim viðskiptum. Síðar seldi Sparisjóðurinn félagið sem þá hét NordVest Verðbréf hf. Tapið af viðskiptunum varð eftir í Borgarfirði.

Arnar hefur stofnað annað félag undir fyrra nafninu, það er Reykjavík Capital. Þar er Lárus Finnbogason, skilanefndarformaður í Landsbankanum, endurskoðandi rétt einsog í Reykjavík Invest. Arnar Bjarnason er framkvæmdastjóri og prókúruhafi NordVest Verðbréf, jafnt og hann var þegar félagið var í hans eigu, áður en hinn lánlausi Sparisjóður keypti og tapaði og einsog hann var þegar félagið hét Reykjavík Capital einsog hið nýja félag Arnars heitir nú. Í stjórn NordVest eru; Þórarinn Ingi ÓlafssonRóbert Agnarsson, Þórbergur Guðjónsson, Sigurður Ingi Leifsson, Einar Þorvaldur Eyjólfsson og Óðinn Sigþórsson. Kunnugir segja þá tengjast Kaupþingi og Sparisjóði Mýrarsýslu.