Monthly Archives: mars 2009

Baldur er í norðurkjördæmi

Ekki er rétt, einsog stendur hér að neðan, að Baldur Þórhallsson prófessor verði í sjötta sæti í Reykjavík suður hjá Samfylkingunni, hann verður í sjötta sæti í Reykjavík norðurMörður Árnason verður í fimmta sæti í Reykjavík norður.

Baldur Þórhallsson á lista Samfylkingarinnar

ossBaldur Þórhallsson, stjórnmálaprófessor við Háskóla Íslands, verður í sjötta sæti á framboðslista Samfylkingarinnar í Reykjavík suður. Upphaflega mun honum hafa verið gefinn kostur á fimmta sæti, þá á kostnað Marðar Árnasonar. Mörður linnti ekki látum og gat forðast að vera settur niður um sæti.
Framboðslistar Samfylkingarinnar í Reykjavík verða kynntir í kvöld. Þrátt fyrir mótbárur í flokknum heldur Össur Skarphéðinsson fyrsta sæti listans.

Prettir bankanna

 peningar2Það var ekki bara lausafjárkrísa sem felldi íslensku bankana. Miklu frekar eigið fé þeirra, sem okkur var sagt að væri nægt og bækur þeirra sýndu svo vera. Þegar betur var að gáð kom í ljós að útlánasafn þeirra var ekki mikils virði. Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri í Seðlabankanum, sagði á Sprengisandi á Bylgjunni í gær að nærri helmingur útána íslensku bankanna til fyrirtækja hafi verið til eignarhaldsfélaga, sem erlendir bankar sáu í gegnum. Enda hafa flest, og nánast öll, þessara félaga reynst vera einskis virði og verið hluti af svikamyllu til að hífa upp skráð verðmæti bankanna. Með því tókst meðal annars að fá saklaust fólk til að festa peninga í þessum pappírsbönkum.

Það er nefnilega fjarstæða að halda því fram að íslensku bankarnir hafi verið vel rekin fyrirtæki með öflugt eigið fé. Svo var alls ekki. Eigið fé þeirra var að vænum hluta vonlaus útlán til eigenda og helstu starfsmanna. Án trygginga.

„Eigið fé bankanna var ekki eins sterkt og það var bókfært. Erlendir bankar höfðu áhyggjur af því að lánasöfn bankanna voru ekki mikils virði,“ sagði Arnór Sighvatsson á Sprengisandi.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið við Arnór á bylgjan.is og svo verður þátturinn endurfluttur í kvöld.

Gull og gersemi

doddur1

Eftir að hafa hlustað á hluta af ræðu Davíðs Oddssonar, fyrrverandi hitt og þetta og helst fyrrverandi nánast allt, á landsfundi Sjálfstæðisflokksins rifjaðist upp kveðskapur Sölva Helgasonar.

Ég er gull og gersemi,

gimsteinn elskuríkur.

Ég er djásn og dýrmæti,

Drottni sjálfum líkur.

Hafnar bæði Framsóknaraðferðinni og Lilju

xb11Arnór Sighvatsson, aðstoðarbankastjóri Seðlabankans, hafnar aðferðum Framsóknarmanna og Lilju Mósesdóttur um niðurfellingu skulda. Arnór var gestur á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Arnór svaraði því að ekki sé vitað hversu miklar skuldbindingar ríkissjóður þarf að taka á sig og meðan óvissan er, þurfi að fara sérlega varlega með að auka skuldbindingarnar. Hann lagði áherslu á það þurfi að hjálpa þeim sem þurfa hjálp. Hann sagði að það megi skipta þessu í þrjá hópa, sem þurfa mismikla hjálp. „Flestir þurfa ekki hjálp og eiga ekki að fá hjálp,“ sagði Arnór Sighvatsson. Hann sagði aðra búa við að neikvæða eiginfjárstöðu tímabundið og svo nefndi hann, þriðja hópinn, það fólk sem greiðsluaðlögun hjálpar ekki og þurfi meiri hjálp til að halda eignum sínum.

Með þessu hafnar hann greinilega alfarið kenningum stjórnmálamanna um að skera niður skuldir á alla, burt séð frá þörfinni. Hann segir það mikla óvissu um hverjar skuldbindingar ríkissjóðs verða og á meðan verði stjórnmálamenn að fara varlega.

Peningamálastefnan og landsfundirnir

Aðalgestur Sprengisands á morgun verður Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri. Arnór hefur mikla reynslu af starfi innan bankans, þekkir því fortíðina og eins veit hann í hvaða stöðu við erum núna, svo sem hvaða peningamálastefna er rekin hér á landi. Hann mun tala um verðtryggingu, verðhjöðnun, galin útlán bankanna og hversu þeir voru illa farnir áður en þeir féllu endanlega.

Landsfundir Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar eru þessa helga. Stjórnmálafræðingarnir Baldur Þórhallsson og Einar Mar Þórðarson mæta og greina í stöðuna.

Hvað með okkur hin?

ghhGeir H. Haarde bað félaga sína í Sjálfstæðisflokknum afsökunar á vondum vinnubrögðum, þegar hann setti landsfund flokksins. Ítrekað hefur hann haft tækifæri til að biðja þjóðin afsökunar, en það hefur hann ekki viljað gera. Nú hefur hann beðið félaga sína afsökunar, en ekki aðra Íslendinga.

Ekki er minnsti vafi á að með aðgerðum og aðgerðarleysi á Geir væna sök á því hvernig komið er fyrir okkur. Hann yrði maður af meiri bæði hann þjóðina alla afsökunar, ekki aðeins baklandið sitt.

Það verða vonandi vatnaskil í stjórnmálunum með þessum kosningum. Margir þeirra stjórnmálamanna, sem eiga að axla ábyrgð, verða ekki í endurkjöri og er það vel.

Frambjóðandi vill svar um framboðslista

xs5

Þrýst er á forystu Samfylkingarinnar um að ljúka frágangi á framboðslistum flokksins í Reykjavík. Heimildir segja að Valgerður Bjarnadóttir, sem fékk ágætiskosningu í prófkjörinu, hafi skrifað forystu flokksins og óskað skýringa á hvers vegna taki svo langan tíma að ganga frá listunum.

Heimildarmaður, innan Samfylkingarinnar, segir að sótt hafi verið að Össuri og reynt hafi verið að fá annan frambjóðenda en hann til að leiða þann lista sem Jóhanna Sigurðardóttir verður ekki á. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem var í fjórða sæti í prófkjörinu á að hafa verið boðið að taka fyrsta sæti, í stað annars en hún mun hafa hafnað því.

Í ljósi veikrar útkomu Össurar hefur verið sótt að honum, sem fyrr segir. Einn náinn samstarfsmaður Össurar í gegnum tíðina segir ekki hægt að líta framhjá veikri útkomu hans í prófkjörinu. Talið er líklegt að Össur sé búinn að standa af sér allar atlögur og muni halda sætinu og verða í forystu í öðru kjördæminu.

Viðbrögðin við bréfi Valgerðar hljóta að opinberast á morgun, daginn sem landsfundurinn hefst.

Einar heimildir segja að til greina komi að Dagur B. Eggertsson verði settur í fimmta sæti í öðru kjördæminu, á kostnað Marðar Árnasonar. Fyrir þessu er bara ein heimild.

 

Vandræði hjá Samfylkingunni?

johanna-sigurc3b0ardottir5Athygli vekur hversu lengi Samfylkingin er að koma saman framboðslistum í Reykjavík. Landsfundur er að bresta á og ekkert bólar á framboðslistunum. Í prófkjörinu fengu áberandi þingmenn og ráðherrar ekki góða kosningu, svo sem Össur Skarphéðinsson og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Össur fékk einungis þriðjung atkvæða í annað sætið og Ásta Ragnheiður féll niður listann.
Jóhanna Sigurðardóttir, verðandi formaður Samfylkingarinnar, veit ekki enn hvaða frambjóðendur aðrir verða í efstu sætum á listum flokksins í Reykjavík.
Hvort þessar staðreyndir komi í veg fyrir að hægt sé að ganga frá framboðlistunum er mögulegt, en svo mikið er víst að eitthvað tefur frágang framboðslistanna. Reyndar virðist töfin ekki hafa   áhrif á fylgi flokksins, en samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins er flokkurinn með ágætis fylgi.

100 þúsund krónur

hpSkoðaði HP tölvu, í Tönsberg í Noregi á laugardaginn, og var að því kominn að kaupa hana, hikaði, fór út en snéri til baka og var ákveðinn að kaupa. Þá var búið að loka búðinni. Tölvan kostaði bara 3.699 norskar krónur, eða innan við 65 þúsund krónur íslenskar. Hringdi í Opin kerfi, umboðið á Íslandi, þegar ég kom heim. Hér kostar sama tölva meira en 160 þúsund krónur, eða vel yfir tvö hundruð prósenta verðmunur. Það er ekkert í veröldinni sem skýrir þennan verðmun, ekkert, jú nema okur.

Illa gengur að fá fólk til að láta af svona fíflaskap, að bjóða okkur margfalt verðlag miðað við það sem gerist í öðrum löndum. Nóg er samt.