Monthly Archives: apríl 2010

Lánstraust

Fjandi hafa Jón og Ingibjörg mikið lánstraust. Hver lánar stórskuldugum svona mikla peninga gegn veikum eða verðlausum veðum? Það er greinilega ekki jafnt á með Íslendingum komið.
Margir, sem skulda stórum minna en Jón og Ingibjörg, þæðu lán sem þarf ekki að borga af fyrir en eftir tíu ár. Og flestum dugar drjúgt minna en 400 miljónir til í að það minnsta að fresta áhyggjum í áratugi.
Þetta eykur enn á óþol þjóðarinnar gagnvart aðlinum.

Bara pappírsdót

Það var um mitt ár 2008 sem Mannlíf birti fréttaskýringu um sérstök félög stjórnmálamanna og hvernig sumir þeirra komu sér undan skattskilum, með stofnun sérstakra félaga. Ásamt mér skrifaði Helga Vala Helgadóttir greinina og Hjördís Rut lagði okkur lið. Í ljósi umræðunnar er greinin hér í heild.

Um tuttugu starfandi stjórnmálamenn eiga félög um framboð sín. Félögin eru öll af sama meiði. Þau eiga það sameiginlegt að vera undanþegin skattskyldum og skilum á ársreikningum. Stjórnmálamennirnir stofna til félaganna í skjóli þessarar setningar um félagaformið: „Starfsemi samtaka sem tengjast ekki beint stjórnmálaflokki og þjóna hagsmunum er varða almannaheill með fræðslu- og kynningarstarfi, stjórnmálaáhrifum, fjáröflun o.þ.h.“ Ljóst er að stjórnmálamaður er ekki samtök og eins má segja að stjórnmálamenn tengist stjórnmálaflokkum. Samt sem áður eru félög sem þessi stofnuð og þau velta milljónum sem hvergi koma fram. Engir ársreikningar, engin skattaskil. Sumir stjórnmálamannanna skýrðu mál sitt vel, þegar til þeirra var leitað, aðrir ekki.
Sjá nánar á sme.is

Þarf ekki að stemma

„Auðvitað þarf bókhald greiðanda ekki að stemma við bókhald þiggjanda,“ segir Lárus Ögmundsson hjá Ríkisendurskoðun.
Þetta las á ég Vísi. Auðvitað er verið að tala um stjórnmálaflokka og fyrirgreiðslufé frá bönkunum. Ætli margir aðrir í samfélaginu mæti ámóta skilningi, að auðvitað þurfi bókhaldið ekki að stemma?

Þetta er enginn félagsskapur

Bjarni Benediktsson virðist ekki gera sér grein fyrir að það er ekki spurning hvort Guðlaugur Þór Þórðarson hafi borið lög eða ekki. Það er spurt hvort hann hafi gengið fram af fólki.

„Það liggur ekki fyrir skýrt brot á neinum reglum eða lögum og á endanum hlýtur þetta að verða mat hvers og eins, hvort hann treystir sér til að starfa á Alþingi – hvort hann telur sig hafa umboð til þess og hvort hann telur sig geta gefið fullnægjandi skýringar á því sem að honum er beint,“ segir Bjarni Benediktsson sem gengur hart fram í að verja alla sem stungu höfðinu í peningagjána.
Bæði Bjarni og Guðlaugur stofnuðu sérstök félög um rekstur eigin kosningabaráttu. Félögin eru öll af sama meiði. Þau eiga það sameiginlegt að vera undanþegin skattskyldum og skilum á ársreikningum. Stjórnmálamennirnir stofna til félaganna í skjóli þessarar setningar um félagaformið: „Starfsemi samtaka sem tengjast ekki beint stjórnmálaflokki og þjóna hagsmunum er varða almannaheill með fræðslu- og kynningarstarfi, stjórnmálaáhrifum, fjáröflun o.þ.h.“
Mannlíf fjallaði um þetta um mitt ár 2008. Hér er brot af viðtali blaðsins við Guðlaug Þór um þetta:
„Þetta er ekkert félag – þetta er bara svona pappírsdót.“
En getur þú sagt hvort þetta félag hafi haldið utan um gögn vegna prófkjörsins 2006?
„Ég bara man það ekki. Þetta er enginn félagsskapur.“

Vondir fjölmiðlar

Seint á árinu 2008 eða snemma árs 2009 hafði ég samband við Halldór Ásgrímsson og vildi fá að taka við hann viðtal sem ég hugðist birta í Mannlífi. Samskipti okkar fóru fram í netpóstum. Nokkur bréf voru skrifuð. Niðurstaða Halldórs var sú, að eftir að hafa lifað og starfað um hríð í Danmörku hafði hann séð muninn á hversu miklu betri danskir fjölmiðlar voru, en þeir íslensku.
Á þeim forsendum afþakkaði hann viðtalið. Hann svaraði hinsvegar ekki hvort hann sæi mun á ágæti danskra og íslenskra stjórnmálamanna.

Hvar er framtíðin?

„Það er eins og flokkurinn hafi týnt áttum. Hann hefur dottið niður í velmeint en vanhugsað vinsældahlaup – um ófæra flata skuldalækkun, um þrákelkni í Icesave-málinu, og um einangrunarstefnu andspænis Evrópu – en almenna framtíðarstefnu virðist skorta.“
Þetta skrifaði Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, skömmu áður en núverandi formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sagði flokk helst bera ábyrgð á framtíðinni.
Framtíðarstefnu skortir segir fyrrverandi formaður en núverandi undirstrikar að það er sé einmitt helsta ábyrgð flokksins.

Brutu eigin reglur

Samfylkingin setti reglur varðandi prófkjörið 2007. Í einni greininni segir:
„Mælst er til þess að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra sýni háttvísi og stilli auglýsingakostnaði í hóf. Jafnframt er mælst til þess að frambjóðendur geri grein fyrir kostnaði við framboðið að prófkjöri loknu. Miðað er við að frambjóðendur og stuðningsmenn þeirra verji að hámaki 1. milljón króna í prófkjörinu.“
Nú liggur fyrir að frambjóðendur virtu þetta að vettugi. Hvað ætli flokkurinn geri í því? Kannski þykir þeim sem setja lög og reglur allt í lagi að brjóta eigin reglusmíð. Og hvað vilja þeir frambjóðendur sem töpuðum fyrir þeim sem höfðu rangt við?

Svavar og Þorsteinn

Svavar Gestsson og Þorsteinn Pálsson hafa tekið virkan þátt í umræðunni að undanförnu. Þeir hafa alltaf verið andstæðingar í pólitík. Þeir mun hittast í fyrsta sinn í langan tíma á Sprengisandi í fyrramálið.
Meðal annars verður litið um öxl, en eins verður talað um hvort staðan eftir birtingu skýrslunnar sé í raun sú að fjórflokkurinn riði til falls. Munu verða til nýir flokkar og þeir sem hafa verstu fortíðina gjaldi hennar meðan aðrir verða til, flekklausir.
Þórlindur Kjartansson, fyrrverandi formaður SUS, segir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir þurft að þola óbilgjarnar kjaftasögur, líka innan flokksins. Nýr þingflokksformaður Ragnheiður Elín Árnadóttir mætir ásamt Þórlindi og það gerir líka Sigríður Ingibjörg Ingadóttir þingmaður Samfylkingarinnar, en innan þess flokks eru líka átök eftir birtingu skýrslunnar.

Burt með skítinn

Vandi steðjar að bændum vegna breytinga á byggðum jarða. Fleiri og fleiri jarðir eru nú notaðar undir annað en hefðbundinn landbúnað. Það gerir bændum erfitt fyrir með húsdýraáburð, þar sem lyktin sem fylgir honum fer oft í taugar hinna nýju nágranna. „Maður reynir að taka tillit til fólksins og dreifir ekki skít við blómabeð þess eða við girðingarnar,“ segir Aðalsteinn Hallgrímsson, á Garði í Eyjafjarðarsveit.

„Þetta er vaxandi vandamál,“ segir Sigurgeir Hreinsson, bóndi á Hríshóli í Eyjafirði og formaður Búnaðarsambands Eyjafjarðar.

Þetta er úr tveggja ára gömlu Mannlífi.

Í Eyjafjarðarsveit eru framleiddir tíu milljón mjólkurlítrar á ári. Eyjafjarðarsveit er þéttbyggð, bæði af sveitabýlum og svo heimilum sem eru ótengd landbúnaði. Þeim fjölgar ört og setja strik í reikning þeirra sem fyrir eru.

„Þetta er samt vaxandi nútímavandamál. Áður vissi fólk að hverju það gekk þegar það flutti í sveit, vissi í hvaða umhverfi það var að flytja. Í dag finnst mér sem þeir sem flytjast til sveita átti sig ekki á hvernig lífið í sveitinni er. Það verður fyrir vonbrigðum og kvartar jafnvel undan lykt. Ég veit ekki hvaða orð ég á að hafa um þetta, get ekki sagt annað en að þetta sé vaxandi vandamál. Við óttumst þetta,“ segir Sigurgeir Hreinsson.

Í langan tíma hefur verið íbúðabyggð við Hrafnagil.

„Ég verð var þetta í Hrafnagilshverfinu. Þar eru160 kýr um 100 metrum frá hverfinu. Það hefur verið kvartað þegar verið er að keyra skít. Orsökin er sú að þeir sem byggðu húsin á sínum tíma þekktu sveitina. Þeir sem hafa keypt af frumbyggjunum gerðu sér kannski ekki grein fyrir hvað fylgir því að eiga heima í sveit.“

„Maður umgengst nágranna sína ekki hvernig sem er, ég verð að sætta mig við að setja ekki skít nánast í blómabeðin hjá fólki. Það er önnur hliðin á þessu máli. Hitt er vélaumferðin, hún pirrar fólk. Ég var að heyja á jörðum, þar sem er ferðaþjónusta, og þar mátti ekki hafa vél í gangi eftir klukkan tíu á kvöldin,“ segir Aðalsteinn Hallgrímsson.

Rýr Jóhanna

Var á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins. Jóhanna Sigurðardóttir flutti þar rýrustu ræðu sem viðstaddir höfðu heyrt. Hún gat ekki bent á eitt einasta atriði um uppbyggingu atvinnulífs í landinu, fyrir utan einstaka framkvæmd.
Samfylkingarþingmennirnir Magnús Orri Schram og Skúli Helgason stóðu upp að lokinni ræðu Jóhönnu. Báru því við að þeir þyrftu á þingflokksfund.