Monthly Archives: febrúar 2009

Búið að velja hjá Samfylkingu

isg

Forystusveit Samfylkingarinnar teflir djarft. Forystan hefur tekið frá þrjú efstu sætin í Reykjavík. Öðrum er heimilt að berjast um það sem eftir er. Þetta er gert þrátt fyrir megna óánægju innan flokksins, sérstaklega með ráðherravalið í Sleifarbandalagi Jóhönnu Sigurðardóttir. Forysta Samfylkingarinnar ætlar greinilega ekki að hlusta á vilja fólks til endurnýjunnar.

Vinsældir Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra eru það miklar að vera kann að henni verði fyrirgefið að hafa setið aðgerðarlaus í ríkisstjórn meðan allt fór hér á versta veg. Hvorki Jóhanna né nokkrir aðrir ráðherrar þeirrar ríkisstjórnar gerði nokkuð, vegna getuleysis eða áhugaleysis. Í skjól vinsælda Jóhönnu ætla Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson að leita. Það mun mæta andstöðu innan Samfylkingarinnar. Segja má að það jaðri við dónaskap þegar formaður flokksins tilkynnti niðurstöðu í prófkjöri flokksins í Reykjavík löngu áður en það fer fram. Jóhanna verður í fyrsta sæti, Ingibjörg í öðru og Össur í þriðja.

Átök verða í Samfylkingunni. Þeir flokksmenn sem finna margt af starfsháttum forystunnar munu varla láta það yfir sig ganga mótþróalaust að búið sé að taka frá þrjú efstu sætin í Reykjavík. Óvíst er að vinsældir Jóhönnu dugi til að draga bæði Ingibjörgu og Össur úr þeim vanda sem þau hafa komið sér í.

Tilkynning formanns um niðurstöðu úr væntanlegu prófkjöri fellur í grýttan jarðveg og boðar harðari baráttu en annars hefði orðið. Eitt er vís, þessi var niðurstaða margra funda, Ingibjargar og Jóhönnu, að taka frá efstu sætin á framboðslistunum áður en flokksmenn fá að koma að. Sennilegast er þetta mikið ofmat hjá þeim stöllum og Össuri.

 

Steingrímur á Sprengisandi

sjs Steingrímur J. Sigfússon verður á Sprengisandi á sunnudaginn. Fyrir okkur sem horfum á að áhuga finnst kannski merkilegast að ríkisstjórn hinna miklu verka hefur sett ein lög, rekið Davíð Oddsson. Hvers vegna hefur svo fátt gerst? Steingrímur svarar því á sunnudaginn.

Vilhjálmur Egilsson og Ólafur Ísleifsson segja okkur hver staða okkar er í raun og veru og veitir ekki af eftir misvísandi fullyrðingar síðustu daga. Og að lokum mæta Helga Vala Helgadóttir laganemi og blaðamaður, Guðrún Helga Sigurðardóttir blaðamaður á Fréttablaðinu og Magnús Halldórsson blaðamaður á Mogganum.

Eigið bergmál

bjorn-bjarnasonAumt er að fylgjast með eftirleiknum af bankahruninu. Sérstakur saksóknari, Ólafur Þór Hauksson, er enn myndaður við tómt skrifborð, tómar hillur og tóman kontór, þrátt fyrir að hafa verið við störf í heilan mánuð. Svo virðist sem ekkert sé að gerast og eðlilegt er að spyrja hvort þessi maður hafi verið ráðinn sökum þess hversu hægfara hann er.

Það er ótrúlegt, tæplega hálfu ári eftir hrunið, verði fólkið í landinu ekki vart við að neitt sé rannsakað, engar handtökur, engar yfirheyrslur, nákvæmlega ekkert. Ekkert.

Davíð Oddsson segist vita af mörgum tilfellum sem þurfi að rannsaka. Þá segir saksóknarinn að Davíð gæti svo sem haft samband við sig. Þetta er svo ótrúlegt að það tekur varla tali. Sá sem mest á að vita segist vita margt sem þurfi að rannsaka. Rannsakandinn segir það eitt að hann muni hlusta verði eftir því leitað. Þetta er óþolandi.

Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, greip til þess ráðs eftir hrunið að veikja efnahagsbrotadeildina. Það er svo mikið í takt við allt hér. Efnahagsbrotadeildin er skorin niður, ráðandi sérstakur saksóknari sem enn hlustar á eigið bergmál í tómum kontórnum. Hugsanlegir afbrotamenn geta verið rólegir. Sýndarveruleikinn sem var settur upp nær ekki til þeirra, ekki að óbreyttu.

Davíð njóti sannmælis

doddssonÞað er lágmark að Davíð Oddsson njóti sannmælis. Því er rétt að birta nokkrar tilvitnanir í hann frá því hann kynnti svarta skýrslu um stöðu bankanna í febrúar 2008.

 

14. febrúar 2008

Íslensku bankarnir geti vart fjármagnað sig í útlöndum á þeim kjörum sem nú bjóðast og Seðlabankinn óttast að ekki sjái enn fyrir enda þessa. Ástandið geti orðið langvinnt.

 

19. mars 2008

Menn hafa gengið dálítið fram af glæfragangi, kannski í þeirri góðu trú að fjármagn yrði endalaust á markaði handa öllum til að grípa í á góðum kjörum og þetta hefur leitt til þess að þjóðarbúið eins og það er kallað, þrátt fyrir góða stöðu ríkisins, að þjóðarbúið er afar skuldsett og nettó skuldirnar, hreinar skuldir, eru hærri heldur en að menn telja almenn ráðlegt. Og þetta er auðvitað að brenna á okkur núna.

 

28. mars 2008

En þrátt fyrir andstreymi sem víða sést, ekki síst á tengslum við hina alþjóðlegu fjármálamarkaði og þau miklu áhrif sem það kann að hafa á svipaða starfsemi hér, þá er ekki endilega líklegt að að íslenska þjóðin sé að sigla inn í kreppu. Miklu líklegra er að nú hægi nokkuð á og í versta falli tökum við nokkra dýfu sem ætti þó ekki að þurfa að standa lengi.

 

10. apríl 2008

Og ég held það sé nú afskaplega varasamt að, tala um bankanna þannig að að það þurfi að bjarga þeim í, innan skamms tíma. Það er ekkert sem bendir til þess. Bankarnir sjálfir hafa gefið yfirlýsingu á því hvernig þeir eru óháðir því að ganga á erlenda markaði, miðað við þá lausafjárstöðu sem þeir hafa. Það er ekkert sem bendir til annars lausafjárstaða íslenskra banka sé svipuð eða jafnvel betri en lausafjárstaða sambærilegra banka annars staðar. Þannig að ég held að við megum ekki fara fara fram úr sjálfum okkur í, í þessum efnum. Einnig þegar menn horfa á gjaldeyrisforða og stærð bankanna þá þurfa menn að hafa í huga að meginverkefni banka er að bjarga sjálfir.’

 

16. maí 2008.

Davíð er spurður hvort Íslendingum takist að komast gegnum brimskafl í efnahagslífinu:

Ég tel allar forsendur til þess já. En það mun reyna svolítið á okkur og menn þurfa að taka, taka vel, vel á.

 

17. maí 2008.

Það er enginn vafi að fyrir marga að þá verður, verða næstu mánuðir mjög erfiðir og sérstaklega vegna þess að við munum fá töluverða verðbólgu núna og það eru margir með mjög miklar skuldbindingar í verðtryggðum lánum og margir fóru illa út úr breytingum á genginu.

 

3. júlí 2008

Þvert á móti þá notuðu menn tækifærið þegar vel áraði til þess að skuldsetja eigið fé ennþá frekar og þarna held ég að menn hafi gengið á mjög varasama braut.

 

11. september 2008

Við höfum líka auðvitað áhyggjur af því að forsvarsmenn ýmissa bankastofnana hafi tekið óverulega áhættu í sumum greinum. Einkum í tengslum við lánveitingar til hlutabréfakaupa og þess háttar.

 

19. september 2008

Hlutabréf og eignir erlendis hafa fallið í verði. Það þarf ekki að koma neinum á óvart. Það er kannski óþægilegt að þurfa að segja það en þannig hefur það verið. Það er ekkert verið að skamma einn eða neinn fyrir það.

Dag og nótt

Nú þegar línur skýrast er merkilegt að rifja upp orð Ólafs Ólafssonar þyrlubónda. Hann sagði, mig minnir í Sjálfstæðu fólki, að íslenskir kaupsýslumenn hefðu það framyfir erlenda að geta hringt í bankastjórana að degi sem nóttu. Og afgreitt bissnessinn í gegnum símann. Allt klárt á mettíma. Meðan þeir erlendu urðu að bíða þess að bankar væru opnaðir að morgni og starfsmenn þeirra þyrftu að skoða lánabeiðnir. Það viðgekkst ekki á Íslandi.

Enda hefur komið rækilega í ljós að íslenskir höfðu allt í hendi sér. Gátu sótt í íslensku bankanna þá peninga sem þeim sýndist. Áttu þá reyndar að mestu. Reikningurinn hefur nú verið sendur til almennings.

Veik minnihlutastjórn og framkoma

Ríkisstjórnin er veik. Ekki minnsti vafi. Það vissu allir þegar til hennar var stofnað. Hjá mörgum vakti það vonir um að einstaka þingmenn hefðu meira að segja, sjálfstæði þingmanna kynni að eflast og raunverulegt þingræði yrði hér um einhvern tíma. Nú þegar þingmaður hefur farið að eigin sannfæringu er látið sem hann sé svikari. Svo vanir eru núverandi þingmenn viljaleysi hvers annars og eltingaleik við vilja aðalfólksins á þinginu hverju sinni að það kann bara ekki að spila úr þeirri stöðu þegar hver og einn þingmaður skiptir máli, þegar þingræðið er virkt.

 Höskuldur Þór Þórhallsson gerði það sem beðið hefur verið eftir. Að fara ekki að vilja annarra. Svo er annað, málið sem hann þurfti að haga sér einsog þingmenn eiga auðvitað að gera er með leiðinlegustu, ömurlegustu og verstu málum sem þingið hefur fjallað um lengi. Það verður að koma Davíð Oddssyni úr Seðlabankanum. Mörg rök mæla með því. Ein þeirra eru þau einföldu sannindi að hann gerði Seðlabankann gjaldþrota. Það á að duga.

 Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn að fórna öllu fyrir Davíð, ríkisstjórn, forsætisráðuneytinu og nú virðast flestir þingmenn flokksins tilbúnir að fórna eða setja eigin pólitíska framtíð í bráða hættu fyrir foringjann fyrrverandi. Í gjörsamlega vonlausri baráttu.

 Milljóna framkoman

Ekki er að sjá að Guðlaugur Þór Þórðarson hafi lært nein býsn á fokdýru framkomunámskeiði, námskeiði sem hann valdi að kaupa frekar en verja peningum til sjúkra og deyjandi.

Ráðherrann fyrrverandi finnur það eitt að fréttum að galopnu ávísanahefti úr ráðherratíðinni, að núverandi ráðherra sé að vinna gegn honum. Hvað kostar námskeið þar sem er hægt að læra auðmýkt, siðferði og kærleik? Sjálfstæðisflokkurinn ætti að borga slíkt námskeið fyrir Guðlaug Þór.

Úr frétt RÚV:

Guðlaugur Þór segir að arftaki hans í embætti, Ögmundur Jónasson, einbeiti sér að því að koma á hann höggi, í stað þess að hugsa um heilbrigðismál, enda sé málaflokkurinn bæði flókinn og erfiður. Ýmsar aðgerðir sem nú séu nauðsynlegar séu lítt til fallnar til vinsælda. Þá segir í tilkynningunni að alþekkt sé að ráðuneyti leiti sér ráðgjafar, bæði til að fá sérfræðiþekkingu og vegna anna. Af augljósum ástæðum hafi það verið gert í heilbrigðisráðuneytinu sem og annars staðar.

Sagði nei

hanna-birnaLeitað var til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra um hvort hún vildi íhuga framboð til formanns Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna mun hafa svarað strax og afdráttarlaust; nei.

Rök hennar eru eðlileg. Henni hafa verið falin verðug verkefni sem hún hefur náð góðum tökum á og hyggur ekki á breytingar.

Fréttablaðið og uppsagnirnar

Þrír af fjórum blaðamönnum sem sagt var upp á Fréttablaðinu hafa starfað þar um árabil, og getið sér gott orð sem fínustu blaðamenn. Heimildir herma að meðal brottrekinna sé Auðunn Arnórsson, sem hefur skrifað erlendar fréttir og meðal annars unnið til verðlauna vegna vandaðra úttekta, og Guðrún Helga Sigurðardóttir sem er með fjölhæfustu blaðamönnum landsins, óshérhlífin og dugleg og Svanborg Sigmarsdóttir sem hefur meðal annars annast um skoðanakannanir Fréttablaðsins. Áfallalaust.

Nú þegar útgáfudögum hefur verið fækkað er merkilegt að sjá að góðir blaðamenn eru látnir fara en eftir sitja; tveir ritstjórar, einn aðstoðarritstjóri, einn viðskiptaritstjóri, einn fulltrúi ritstjóra og nokkrir fréttastjórar. Myndin fer að verða nokkuð skökk þar sem hlutfall yfirmanna er eflaust með því hæsta sem þekkist á ritstjórnum.

Hrefnustríð við Ísland

Steingrímur J. Sigfússon vill taka frá hrefnumið til að hvalaskoðun geti farið fram óhindrað vegna veiðimanna.

“Nei. Það verður aldrei samþykkt, allavega ekki af mér. Við höfum sýnt skynsemi og erum ekki að veiða rétt á meðan þeir eru á svæðinu. En þeir hafa hinsvegar elt okkur til að ögra okkur. Kannski líka í von um að geta sýnt farþegunum hvernig við berum okkur að. En við munum aldrei láta ögra til að veiða undir þeim kringumstæðum. Það myndi bara skapa leiðindi og læti,” sagði Konráð Eggertsson, hrefnuveiðimaður í samtali við síðuritara.

 

Erlend ferðaskrifstofa hefur þegar ákveðið að hætta að höndla með Íslandsferðir. Afpantanir hafa borist og innan ferðaþjónustunnar er þekkt að tíu til tólf milljóna króna ferð var afpöntuð hjá hestaferðafyrirtæki. Vegna hvalveiða.

 

Það merkilega er að þetta var gert strax eftir að Einar K. Guðfinnsson gaf út heimild til veiðanna. Nú þegar nýjar fréttir berast af staðfestingu veiðanna frá núverandi ráðherra, Steingrími J. Sigfússyni, má búast við harðari viðbrögðum.konrac3b0-eggertsson

Mynd: BB


Bankarnir bjarga sér sjálfir

Davíð Oddsson seðlabankastjóri segist, á síðasta ári, hafa gert ráð fyrir að bankarnir myndu falla og hann hafi varað við því. Þetta sagði hann hinsvegar í kvöldfréttum RÚV 10. apríl 2008:

„Og ég held það sé nú afskaplega varasamt að, tala um bankanna þannig að að það þurfi að bjarga þeim í, innan skamms tíma. Það er ekkert sem bendir til þess. Bankarnir sjálfir hafa gefið yfirlýsingu á því hvernig þeir eru óháðir því að ganga á erlenda markaði, miðað við þá lausafjárstöðu sem þeir hafa. Það er ekkert sem bendir til annars lausafjárstaða íslenskra banka sé svipuð eða jafnvel betri en lausafjárstaða sambærilegra banka annars staðar. Þannig að ég held að við megum ekki fara fara fram úr sjálfum okkur í, í þessum efnum. Einnig þegar menn horfa á gjaldeyrisforða og stærð bankanna þá þurfa menn að hafa í huga að meginverkefni banka er að bjarga sjálfir.“

Og áfram með Davíð og orð hans í kvöldfréttatímanum 10.apríl 2008: „Þegar að bankar voru einkavæddir og seldir þá var, ríkis, ríkisábyrgð ekki seld með. Þá hefðu þeir væntanlega verið seldir miklu dýrara verði ef það hefði verið. Þannig að meginverkefni banka er að bjarga sér sjálfir en ekki það að, að ætlast til þess að að ef þeir stækka sem eigin ákvörðun þá beri almenningi að, að stækka gjaldeyrisfroða eðli málsins samkvæmt þá kast, kostar það mikið fé að halda mjög stóran gjaldeyrisforða. Menn mega ekki gleyma því og tala eins og ábyrgð bankanna liggi einhversstaðar annars staðar heldur en hjá þeim sjálfum og ég hygg að þeir geri sér grein fyrir því að í meginatriðum þá eru bankarnir gerðir út á sína eigin ábyrgð. Það er afar þýðingarmikið að menn, menn flaski ekki í þessum efnum.“doddur